Miðvikudagur, 14. mars 2007
Ég heiti Auðbjörn, er tvítugur töffari - mjór, mjórmjór eða mjórmjórmjór?
Einhverra hluta vegna datt þetta lag í kollinn á mér á Legi Hugleiks Dagssonar í kvöld. Ekki svo að skilja að maður detti 20 ár til baka, þvert á móti er manni fleygt til þess tíma þegar búið er að byggja tívólí við Kárahnjúka og útlenskur auðhringur búinn að sölsa allt Ísland undir sig. Nei, Auðbjörn er gamla útgáfan af nýju staðalmyndinni sem stóð á fjölunum í kvöld, útlitið fyrir mestu og um að gera að pissa í skóna sína fyrir skammvinnan vermi. Vel gert, sannarlega, og tæknimöguleikar í leikmynd og búningum ævintýranlega vel nýttir.
Það var gaman.
En þar sem ég er ekki lengur menntskæla, enginn sérstakur áhugamaður um tónlist eða dansa hafði ég óneitanlega mest gaman af umhverfispólitísku pillunum sem voru notaðar hóflega. Og ég hló sannarlega ekki á sömu stöðum og salurinn.
Lína kvöldsins: Æ, þarna kallinn á borði 5, Júdas!
Leikfélagið mitt heitir Hugleikur. Tilviljun? Aldeilis ekki!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 14. mars 2007
Við hróflum ekki við klukkunni
Ég hef aldrei upplifað þessa hröðu birtuaukningu eins og nú. Trekk í trekk finnst mér ég hafa sofið yfir mig þegar ég vakna. Svei mér ef mér finnst ekki að við ættum bara að gera eins og hinar þjóðirnar, færa klukkuna til, plata tímann.
Tölvan mín sýndi það sjálfstæði um síðustu helgi.
Þá væri ég allt annars staðar stödd núna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 14. mars 2007
29% - tæp 40% - upp - niður - út og suður - RÚMUR HELMINGUR SVARAÐI
Ætli allar þessar skoðanakannanir sem eru reknar upp að augunum á okkur flesta morgna eða troðið í hlustir okkar með morgunkaffinu - nema hvort tveggja sé - séu í þökk okkar? Ég er náttúrlega abbó af því að aldrei er hringt í mig og ég fæ engin tækifæri til að mynda ríkisstjórn í símann, en er í alvörunni nokkur þörf á þessum tíðu skoðanakönnunum? Og svo eru þær sjaldnast marktækar því að yfirleitt er úrtakið 800 manns og þar af gefur sig upp rúmur helmingur.
Þetta er bara vísindaskáldskapur.
En samt skoðanamyndandi, við vitum það.
Ég þykist vita að u.þ.b. 300 þúsund íbúar séu mér sammála um þetta, flestir aðrir en starfsmenn Capacents og svo þeir útlendingar sem leggja ekki eyrun við.
Það væri samt gaman að sjá skoðanakönnun meðal þeirra sem horfðu á Húsvíkinginn tala í Silfri Egils á sunnudaginn var ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)