Laugardagur, 17. mars 2007
,,Við skulum ekki vera í kjól með vörulit`` - Class 2002
Í trausti þess að Þórhildur lesi þetta í Bush-landi ætla ég að telja upp þá heiðursleiðsögumenn sem slógu saman á létta strengi í gærkvöldi: Magnús Oddsson (ekki ferðamálastjóri), Leifur Björnsson, Virpi Jokinen, Ragnheiður Ármannsdóttir, Kristín Steinsdóttir, Ursula Giger, Sesselja Árnadóttir, Bryndís Kristjánsdóttir sem lagði til húsnæði og gúmmulaði og fær sérstaka orðu fyrir það, ég sjálf og svo kom síðar Margrét Einarsdóttir og enn síðar Gunnar Guðjónsson.
Heiðursfélagi var Valdimar Leifsson, enda lagði hann ekki aðeins til húsnæði heldur tók líka þátt í að elda matinn.
Og maturinn, jömmí, var mexíkósk súpa sem við muldum nachos út í, dreifðum rifnum osti yfir, slumpuðum sýrðum rjóma í og fleira. Ég geri mér vonir um uppskrift vegna þess að þetta var herramanns matur. Og frúarmanns líka. Og að öðru leyti var líka vel gert við okkur.
Af því að þetta er aðallega rapport um kvöldið tíunda ég það hér að við horfðum aftur (og sumir í þriðja sinn) á myndina sem Bryndís tók í útskriftarferðinni og við hlógum okkur til óbóta. Þar rifjuðust upp Orfie, Atli, Matthieu, Emilie, Beggi, Ólöf, Hermann, Árný, Rakel, Heiða, Reynir, Áslaug, Meike, Óli fimmti, Kristbjörg, Ulf, Per - og Hildibrandur var með síendurtekið hlutverk, hahha. Anna Lydia og Guðný Harbour eru heldur ekki gleymdar.
Svo töluðum við faglega, ehemm, um rútuferðir, gönguferðir, hvataferðir og annað sem ekki má birtast.
Og hér með færist til bókar að Sesselja býðst til að vera í árshátíðarnefnd (aftur) með Gunna og Ursulu. Myndavélin gleymdist heima.
Sjáumst!