Ég er stoltur líffæragjafi

Reyndar vona ég að ekki reyni á það næstu 70 árin eða svo, hehe, en ég nálgaðist líffæragjafakort hjá landlækni fyrir nokkrum árum. Ég er með öndvegisheila, lítið notaðan, milta, bris, lungu og lifur sem ég hef reynt að fara vel með.

Maður á ekki að gantast með svona. Það sem ég vildi sagt hafa er að ég hafði lengi hugleitt að fá mér svona auðkenni ef ég skyldi hálfhrökkva upp af en skilja eftir nothæf líffæri. Fyrir nokkrum árum hringdi ég sem sagt í heilbrigðisráðuneytið, Blóðbankann, á heilsugæslustöð og ugglaust fleiri áður en mér var vísað á landlækni. Þá hringdi ég í landlækni og sú sem varð fyrir svörum ætlaði að senda mér svona kort. Það barst samt ekki þannig að á endanum gerði ég mér ferð út á Seltjarnarnes, hékk í lobbíinu lengi lengi (þetta var í hádegi og kannski allir í mat) en sá svo mér til talsverðrar gleði að svona spjald var í rekka hjá afgreiðsluborðinu og bjargaði mér eftir það sjálf.

Sá stóri galli er á gjöf njarðar að kortið er úr bara sæmilega hörðum pappír og endist þess vegna ekki sérlega vel.

Ergo: ég man ekki hvernig tillagan er sem flogið hefur fyrir undanfarið en spyrjum fólk sem tekur bílpróf hvort það sé til í að vera líffæragjafar og skráum svo svarið í skírteinið. Þannig eru öll kort vel plöstuð og geymd á vísum stað.

Samt vonast ég til að eiga a.m.k. 130 góð ár eftir.


Íslenskunám kennaranema skorið niður

Þetta er aðalfyrirsögnin á Fréttablaðinu í dag.

Mér er minnisstæð saga sem ein vinkona mín sagði mér af starfi sínu í leikskóla. Hún er núna leikskólakennari en var þá ófaglærður starfsmaður (eða hvað ætli það heiti?). Leikskólastjórinn las sögu fyrir börnin þar sem m.a. stóð eitthvað á þessa leið: Anna hlakkaði til að ... en svo hætti leikskólastjórinn að lesa og breytti í: *Önnu hlakkaði svo til ...

Samt heyrist manni yfirleitt fólk treysta í blindni hinu skrifaða orði.

Allir kennarar eru íslenskukennarar þótt þeir kenni önnur fög. Plís, ekki draga úr íslenskukennslunni.


Bloggfærslur 19. mars 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband