Skiptir útlit kvenna máli þegar þær tala?

Ég hlustaði í dag á fyrirlestur Karenar Ross um stöðu kvenna í stjórnmálum. Hún hefur tekið viðtöl við fjölda kvenna í stjórnmálum, dregið saman niðurstöður og reifað þær, áreiðanlega víða.

Ég kom aðeins of seint og hélt að ég fengi varla sæti en það var öðru nær, salurinn í Norræna húsinu var rétt hálfsetinn, kannski vegna þess að margir stjórnmálamenn eru einmitt á tveim landsfundum. Kannski var þess vegna svona mikið pláss fyrir þá sem eru óflokksbundnir.

Karen flutti mjög líflegan fyrirlestur og tók fjölda dæma til að rökstyðja þá skoðun sína og fjölmargra annarra að konur eru frekar en karlar dæmdar af fötunum, hárgreiðslunni og hjúskaparstöðunni.

Það voru engin ný sannindi, en sannindi samt. Góða vísu má kveða oftar en einu sinni. Sjálf gef ég reyndar oft hálstaui sjónvarpsfréttamannanna (eða viðmælenda) gaum og met hvernig það passar við jakkafötin. Úps. Stundum hefur það meira að segja orðið hálfgerður samkvæmisleikur á heimilinu.

En mér finnst kjánalegt að taka ekki fram að fyrirlesturinn yrði fluttur á ensku. Titillinn var þýddur og þess vegna gátu einhverjir ályktað að Karen Ross kynni íslensku.


Og hvað vilja tæp 40%?

Mig minnir að rúmlega 70% hafi kosið um deiliskipulagið í Hafnarfirði um daginn sem var svipuð þátttaka og í sveitarstjórnarkosningunum þar í fyrra. Það þótti mjög gott. Yfirleitt er kosningaþátttaka í alþingiskosningum þó betri.

Og hvað segir þá þessi könnun Capacents okkur? Meirihlutinn vill hafa eitthvað um frekari stóriðju að segja. En hvað þýðir það? Á að vera þjóðaratkvæðagreiðslu um Helguvík, Keilisnes, Bakka á Húsavík?

Í Sviss er þjóðaratkvæðagreiðsla mjög oft og þar skilst mér að kosningaþátttaka sé almennt komin ofan í 60%. Þar er reyndar líka spurt um marga tiltölulega hégómlega hluti, eins og hvort opna eigi áfengisbúð á þessu horni, leyfa kanínuhald í hinni kantónunni eða hækka sektargjald fyrir of hraðan akstur um 1% (eða álíka). Þar er svolítið búið að gengisfella stórar atkvæðagreiðslur milli kosninga.

Ég velti fyrir mér hvað þessi tæpu 40% vilja. Hafa þau engar skoðanir yfirleitt eða bara ekki skoðanir á þessu máli? Eru þau kannski þvert á móti þeirrar skoðunar að við séum á réttri leið? Og hvaða leið er þá það? Eru þau á móti íbúalýðræði eða bara könnun um stóriðju?

Mér þykir þessi könnun segja mér fátt. Það kemur ekki einu sinn fram hversu margir voru spurðir!

En ég vildi gjarnan fá að segja skoðun mína oftar en sjaldnar. Og ég vildi fá 10 atkvæði í kosningunum 12. maí - hvaða sanngirni er í því að þurfa að greiða allt atkvæðið einu framboði?


mbl.is Rúmlega 60% þjóðarinnar vill þjóðaratkvæðagreiðslu um frekari stóriðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á þetta að kosta (quadacosta)?

Þegar menn fara til Tyrklands og ætla í forbífartinni að kaupa sér mottu spyrja þeir hvað hún kosti og reyna svo að prútta. Eða reyna að reyna því að prúttið er Íslendingum ekki eiginlegt.

Þegar menn fara til New York kaupa þeir myndavélina þar vegna þess að hún er helmingi ódýrari en í Reykjavík (veit ekki með Sauðárkrók).

Áður en menn bóka flug til Rómar kynna þeir sér verðið hjá ólíkum ferðarekendum.

Þegar menn kaupa Nokia eða Samsung eða Sony Ericsson velta þeir fyrir sér hvaða fyrirtæki býður best.

Þegar menn fara hins vegar með símann með sér til útlanda, hringja úr honum, svara í hann eða senda sms hafa þeir ekki hugmynd um hvernig reikningur verður sendur þeim heima. Skrýtið. Það rifjaðist bara upp fyrir mér þegar ég horfði á fréttirnar í kvöld.

Það sem ég er hins vegar fyrst og fremst að fara með fyrirsögninni er að nú er sléttur mánuður til kosninga og flokkarnir byrjaðir að bjóða í okkur. Ég hirði ekki um að tíunda kosningaloforðin því að þá myndi ég áreiðanlega mismuna einhverjum, en það leyfi ég mér að fullyrða að hundruð milljóna hanga á spýtunni.

Ég las merkilega færslu hjá hinum afar flinka penna Andrési Magnússyni þar sem hann kallar eftir kostnaðarmati með þingmálum. Mér sýnist hann reyndar helst vilja að nefndir afgreiði nefndarálit með kostnaðaráætlun en mér finnst að flutningsmaður máls ætti a.m.k. líka að bera ábyrgð og reikna út kostnað.

Menn leggja til hugmyndir og hafa metnað til góðra verka - en ef metnaðurinn kostar milljarð verður flytjandi líka að hafa metnað til að stinga upp á hvar eigi að taka milljarðinn.

Ef maður stingur upp á að skattleysismörkin hækki í 120.000 og útreikningar segja að það kosti 30 milljarða á ári þarf að tala um það grímulaust.

Ef menn vilja bæta við sendiráði í Mósambik mega menn ekki óttast að tala um kostnaðinn fyrirfram.

Ef menn vilja leggja suðurstrandarveg þarf að horfast í augu við kostnaðinn, og eins vegna Hellisheiðarinnar, eins vegna jarðganga.

Svo er sjálfsagt að reikna ávinninginn líka því að fjárlagagerðin er ekki einstefnuakstur.

Bakreikningar eru vondir og óþarfir. Kannski þarf kjark til að taka þá umræðu.

Þetta finnst mér gilda um bæði kosningaloforð og (þing)mál.

Og að lokum, mér skildist á Einari Mar í sjónvarpsfréttunum að konur væru meiri óvissuatkvæði en karlar. Það kann að vera rétt en mesta óvissuatkvæðið sem ég þekki er karlkyns. Hann fer á milli kosningaskrifstofa, spyr og hlustar og gerir svo upp hug sinn. Og hann er bæði heilbrigður og í fullri vinnu.


Bloggfærslur 13. apríl 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband