Hvað á þetta að kosta (quadacosta)?

Þegar menn fara til Tyrklands og ætla í forbífartinni að kaupa sér mottu spyrja þeir hvað hún kosti og reyna svo að prútta. Eða reyna að reyna því að prúttið er Íslendingum ekki eiginlegt.

Þegar menn fara til New York kaupa þeir myndavélina þar vegna þess að hún er helmingi ódýrari en í Reykjavík (veit ekki með Sauðárkrók).

Áður en menn bóka flug til Rómar kynna þeir sér verðið hjá ólíkum ferðarekendum.

Þegar menn kaupa Nokia eða Samsung eða Sony Ericsson velta þeir fyrir sér hvaða fyrirtæki býður best.

Þegar menn fara hins vegar með símann með sér til útlanda, hringja úr honum, svara í hann eða senda sms hafa þeir ekki hugmynd um hvernig reikningur verður sendur þeim heima. Skrýtið. Það rifjaðist bara upp fyrir mér þegar ég horfði á fréttirnar í kvöld.

Það sem ég er hins vegar fyrst og fremst að fara með fyrirsögninni er að nú er sléttur mánuður til kosninga og flokkarnir byrjaðir að bjóða í okkur. Ég hirði ekki um að tíunda kosningaloforðin því að þá myndi ég áreiðanlega mismuna einhverjum, en það leyfi ég mér að fullyrða að hundruð milljóna hanga á spýtunni.

Ég las merkilega færslu hjá hinum afar flinka penna Andrési Magnússyni þar sem hann kallar eftir kostnaðarmati með þingmálum. Mér sýnist hann reyndar helst vilja að nefndir afgreiði nefndarálit með kostnaðaráætlun en mér finnst að flutningsmaður máls ætti a.m.k. líka að bera ábyrgð og reikna út kostnað.

Menn leggja til hugmyndir og hafa metnað til góðra verka - en ef metnaðurinn kostar milljarð verður flytjandi líka að hafa metnað til að stinga upp á hvar eigi að taka milljarðinn.

Ef maður stingur upp á að skattleysismörkin hækki í 120.000 og útreikningar segja að það kosti 30 milljarða á ári þarf að tala um það grímulaust.

Ef menn vilja bæta við sendiráði í Mósambik mega menn ekki óttast að tala um kostnaðinn fyrirfram.

Ef menn vilja leggja suðurstrandarveg þarf að horfast í augu við kostnaðinn, og eins vegna Hellisheiðarinnar, eins vegna jarðganga.

Svo er sjálfsagt að reikna ávinninginn líka því að fjárlagagerðin er ekki einstefnuakstur.

Bakreikningar eru vondir og óþarfir. Kannski þarf kjark til að taka þá umræðu.

Þetta finnst mér gilda um bæði kosningaloforð og (þing)mál.

Og að lokum, mér skildist á Einari Mar í sjónvarpsfréttunum að konur væru meiri óvissuatkvæði en karlar. Það kann að vera rétt en mesta óvissuatkvæðið sem ég þekki er karlkyns. Hann fer á milli kosningaskrifstofa, spyr og hlustar og gerir svo upp hug sinn. Og hann er bæði heilbrigður og í fullri vinnu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Frábær pistill Berglind, já quadacosta?

Sigfús Sigurþórsson., 13.4.2007 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband