Sunnudagur, 24. júní 2007
Vinir mínir, atvinnubílstjórarnir
Sem leiðsögumaður hef ég ferðast með ótölulegum fjölda atvinnubílstjóra. Ég man varla eftir óöruggum eða slökum bílstjóra, þau eru þvert á móti örugg, gamansöm og þjónustulunduð heilt yfir (fáar konur en nokkrar samt).
Ekki alls fyrir löngu komst til tals í vinahópi mínum hvað það myndi kosta ferðamenn að leigja fjallajeppa með bílstjóra til að fara á jökul. Ég sagðist halda að það væri 70-100 þúsund kr. fyrir daginn. Og viðmælendur mínir supu hveljur. Svo fórum við að velta fyrir okkur hvernig verðið er fundið út.
Það er erfitt að verðleggja svona svo að sanngjarnt sé fyrir báða aðila. Jeppabílstjórinn á bílinn sinn sem kostaði kannski 5 milljónir (varlega áætlað) og þarf að breyta honum, stækka, lengja eða eitthvað (og hvað kostar það?). Svo þarf hann búnað eins og áttavita og gps - og þokkalegar hljómflutningsgræjur því að hluti af stuðinu í tveggja tíma keyrslu í bæinn eftir jökulferðina er að spila skemmtilega tónlist (a.m.k. oft) og þá þarf líka að eiga nokkra diska.
Ég er komin út í smáatriðin og skal aftur snúa mér að meiri aðalatriðum - eins og tryggingum. Econoliner (held að þeir heiti það) þarf að tryggja fyrir 400 þúsund á ári, bara bílinn, svo þarf að tryggja alls konar fylgihluti. Það þarf að halda bílnum við, flikka upp á, þrífa (sem getur verið skrambi tímafrekt) - og hefur einhver hugmynd um hvað eldsneyti kostar?
Og til þess að kúnninn geti fengið bíl og bílstjóra á laugardegi þegar honum hentar stendur bíllinn kannski ónotaður flesta mánudaga og þriðjudaga = dauður tími.
Ég er viss um að ég gleymi einhverjum breytum enda er ég ekki jeppaeigandi og veit ekki um alla kima eignarinnar. Ég bara veit það að sumir þessara flinku og geðugu bílstjóra fá ekki nema 20-25 þúsund kr. fyrir 10 tíma laugardag - sem verktakar. Hækkum laun bílstjóra! Höfum líka hugfast að farmurinn er dýrmætur, fólk og meira fólk.
Ísland er dýrt land og það er eitt af því sem fólk sem kemur hingað sættir sig við. Hótel og veitingastaðir hækka verðskrá sína á háannatíma, flugleiðirnar sömuleiðis - af hverju ekki bílstjórar og leiðsögumenn? Mig langar að skella mér til New York, ég leit á vef Icelandair og sá að ég fæ ekki flug í júlí eða ágúst fyrir minna en 70 þúsund kr. Í september í fyrra flaug ég þó fyrir 45 þúsund og fannst það alveg nóg.
Hækkum laun í bílstjórastéttinni. Lækkum verð á því sem fólk getur allt eins keypt heima hjá sér, eins og áfengi og nýlenduvörum (hef sérstakt dálæti á þessu orði). Jöklaferðir eru einstakar og þær verður að verðleggja sem slíkar, annars missum við á endanum fagfólkið úr stéttinni.Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 24. júní 2007
Blair kveður - og heilsar Brown
Það er skrýtið að detta inn á Sky og sjá Tony Blair kveðja leiðtogasæti sitt í Verkamannaflokknum og bjóða Gordon Brown velkominn eftir að hafa lesið um ágreining og undirferli þeirra undanfarið í blöðunum. Það virðist stutt í tárin hjá þeim báðum.
Brown er fjandakornið ekki eins mælskur og Blair. Ekki heldur eins mikið fiðrildi að sjá. Það verður spennandi að fylgjast með honum samt. Hmm, Gordon Brown er með sigin munnvik, hafa menn tekið eftir því?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)