Hákarlaverkun hverfandi atvinnugrein

Ég kveikti á Rás 1 í dag sem ég geri alltof sjaldan. Vítt og breitt var í gangi og í þættinum var tekið hús á Hildibrandi Bjarnasyni í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Hann er snilldarfýr, einn af sárasárafáum sem enn kann að verka hákarl.

Hann býr þarna í Bjarnarhöfn og verkar hákarl en er líka búinn að koma sér upp aðstöðu til að taka á móti ferðamönnum. Mig minnir að ég hafi aðeins einu sinni farið til hans með farþega, en ég held að þrátt fyrir stórfengleika Snæfellsnessins hafi heimsóknin á hákarlasetrið staðið upp úr.


Látum klinkið um heilsuna

Ég finn alveg sjálf að ég er að festast í baunatalningunni en ég verð að segja þetta samt:

Vinkona mín úr menntaskóla, hjúkrunarfræðingur hokin af reynslu af alls konar hjúkrunarstörfum í ýmsum landshlutum, ákvað að skipta um starf um daginn. Hún fór á ráðningarstofu og fyllti út almenna umsókn og fór svo í viðtal til ráðgjafa. Þegar hún var spurð um launakröfur sagðist hún ekki skipta um starf fyrir minna en 350.000 kr. Ráðgjafinn leit á hana með uppglennt augu og sagði: Þú byrjar ansi hátt.

Já, og því vekst þetta upp fyrir mér að ég horfði á Kastljósið áðan. Þar var, eins og víða annars staðar, spjallað um nýju launahækkunina í Seðlabankanum sem er útskýrð með því að millistjórnendur hjá Seðlabankanum voru farnir að nálgast bankastjórana sjálfa í launum. Sem sagt, kaupandinn (hver?) vill borga fólki miklu hærri laun fyrir að sýsla með peningana en með heilsuna.

Þetta er auðvitað ekki ný frétt. Sjúklingar hvísla en peningar garga.


Húrra fyrir Flateyri

Skötuselurinn sæti

Undarlega lágværar raddir - eða kannski hef ég ekki verið að hlusta - um betri horfur á Flateyri. Mikið innilega von ég að þessu fyrirtæki (Tásunum?) sé alvara með að ætla að viðhalda blómlegri byggð og góðu atvinnulífi. Ég hef sko gist á Flateyri og farið í langa göngutúra þar, líka í sundlaugina.

Og þá rifjaðist upp fyrir mér krúttið sem ég sá á hafnarbakkanum um síðustu helgi. Skötuselur er mikið gúmmulaði sem ég reyni að koma tönnunum yfir þegar ég fer á veitingastað, en honum var áður hent fyrir borð vegna skorts á fríðleika.

Ekki þurfa allir að vera sætastir.


Saga úr stríðinu

Fyrir tæpum mánuði vann ég einn sunnudag fyrir fyrirtæki sem ég hafði ekki unnið fyrir áður. Þegar ég spurði nokkrum dögum síðar hvernig hann vildi greiða sagði hann mér að senda reikning og hann myndi greiða um hæl. Hvorki fyrir ferð né eftir var rætt um kaup. Ég sendi verktakareikning upp á 3.500 kr. tímakaup. Má ég minna á að ég var verktaki og þarf sjálf að greiða launatengd gjöld?

Í dag fékk ég tölvupóst þar sem viðkomandi spurði hvernig ég fengi út þetta tímaverð, hann væri vanur að greiða leiðsögumönnum sínum samkvæmt hæsta taxta Félags leiðsögumanna, kr. 1.578.

Ég vil virða trúnað við eigandann sem ég held meira að segja að sé vænsti maður og hafi bara beðið um skýringar af því að hann hafði þær ekki á reiðum höndum. Og yfirleitt birti ég ekki tölvupósta annarra þannig að ég ætla hér aðeins að birta svar mitt:

Hæsti taxti um helgar skv. kjarasamningum leiðsögumanna er reyndar 2.191,26, og  öllum ferðaskrifstofum sem ég á í samskiptum við ber saman um að sá taxti sé lágur.

En göngum út frá taxtanum. Sem verktaki þarf ég sjálf að borga í lífeyrissjóð og önnur launatengd gjöld, borga tryggingar og meira að segja er þessi þjónusta  virðisaukaskattskyld þótt margir leiðsögumenn séu hættir að nenna að benda á það. Það vissirðu, ekki satt?

Það er sem sagt mælt með að maður leggi 70% ofan á taxtann ef maður vinnur sem launþegi. 2.191,26 * 70% = 1.533,88, samtals þá 3.725,14. Ég leit svo á að ég væri að rúnna niður.

Þér er auðvitað guðvelkomið að borga mér sem launþega.

Ég vann áður með xx hjá xxx. Þegar þú nefndir xx í símtalinu hvarflaði ekki annað að mér en að þú vissir það sem xx veit, nefnilega það að mér leiðist að láta snuða mig.

Er þetta fullnægjandi skýring?

Kveðja,
Berglind

Mér finnst vinnan rosalega skemmtileg, finnst ég standa mig vel og fæ mjög þau skilaboð frá farþegum. Getur verið að leiðsögumenn sem láta sér duga 1.578 um helgar sem tímakaup í verktöku geri litlar kröfur til sjálfra sín líka? Ég geri miklar kröfur til mín og vil sinna vinnunni vel. Ég vil samt ekki að ánægjan af starfinu sé eina uppskeran.

Og ætli Davíð Oddssyni finnist þá ekki rosalega leiðinlegt að mæta í vinnuna ef leiðindi ættu að vera mælikvarði á laun? Seðlabankastjórar voru að hækka í launum til að ná ásættanlegu bili frá undirmönnum sínum sem hafa hækkað vegna þess að viðskiptabankarnir borga sínu fólki vel. Svo þegar maður gerir launakröfur í einhverju samræmi við vinnuframlag og sérfræðiþekkingu er maður púaður niður og vefengdur.

Ég hef mest fengið 8.000 kr. á tímann sem verktaki við fræðslustörf þannig að ég veit að þetta er hægt. Og nær maður ekki árangri hægt og bítandi með því að vera sífellt á vaktinni?


Bloggfærslur 8. júní 2007

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband