Sunnudagur, 29. júlí 2007
Umræðunnar virði
Auðvitað þurfum við á öllum tímum að velta fyrir okkur hvernig við stöndum að uppbyggingu landsins og ferðamannastaða, þá ekki síst hvernig við fjármögnum viðhald og framþróun.
Mín fyrsta tilfinning er samt óþægindi. Ef það á að rukka inn á Gullfoss/Geysi og Skaftafell þarf að girða af, ekki satt? Þurfum við þá að fara í gegnum hlið? Eða á að treysta fólki til að gera hið rétta? Verður tímanum eytt í biðraðir í dýrmætum dagsferðum?
Hver verður kostnaðurinn við innheimtuna?
Ég er ekki búin að lesa Moggann í dag, bara sjá þessa netfrétt, en ég sé ekki aðferðina blasa við.
Og ef ekki beina innheimtu, hvað þá? Ég skrifaði þvert í hina áttina nýlega og sagðist vilja engan aðgangseyri að söfnunum. María Reynisdóttir væri kannski á sömu skoðun þar sem söfnin eru ekki vinsælustu ferðamannastaðirnir.
Við höfum verið hreykin af aðgengi okkar að perlunum. Við höfum verið heppin með það að slys eru fátíð. Víðáttan og frelsið hafa verið aðalsmerki. Sjálfsögðustu nauðsynjar eru hér dýrari en í flestum löndum og ég viðurkenni að ég hef áhyggjur af svona hlutum og að við verðum of commercial. Hvert fer annars núna obbinn af framlegðinni af þeim fjórum milljörðum sem Magnús Oddsson ferðamálastjóri boðaði fyrir hálfum mánuði nánast sléttum?
Kannski á ég bara eftir að heyra sannfærandi rök fyrir þessari innheimtuhugmynd.
![]() |
Gjald inn á ferðamannastaði raunhæft |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)