Miðvikudagur, 28. ágúst 2013
Hofsvallagatan
Ég hjóla meira en ég geng og miklu meira en ég ek. Samt rak mig í rogastans þegar ég hjólaði Hofsvallagötuna á leið í Vesturbæjarlaug í síðustu viku, svo mikið var búið að þrengja að bílunum í þessari þungu umferðargötu.
Í dag heyrði ég hins vegar viðtal við borgarfulltrúa (sem ég man, ótrúlegt nokk, ekki hvað heitir) og í því kom fram að merkingarnar væru bara málaðar og blómakerin færanleg, breytingarnar væru afturkræfar og þetta væri tilraun. Ég man eftir annarri tilraun við Hverfisgötuna sem var tekin til baka. Mér finnst hraustleikamerki að viðurkenna mistök ef svo ber undir og lýsa sig reiðubúin/n að taka til baka ákvörðun ef hún reynist ekki rétt eða heppileg.
En nú finnst mér stórskrýtið að rifja upp að í október 2011 lýsti tæplega 100 manna íbúafundur þeirri skoðun sinni að bílaumferðin á götunni væri of hröð og að öryggi gangandi vegfarenda væri ógnað (ef eitthvað er að marka frétt RÚV). Frétt eftir íbúafund í gær er um að þess sé krafist að götunni yrði aftur breytt í sama horf.
Mætti kannski allt annar hópur á fundinn í gær?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Miðvikudagur, 28. ágúst 2013
Til styrktar ...
Á hverju ári skokka ég 10 kílómetra mér til skemmtunar í skemmtiskokki Reykjavíkurmaraþonsins. Ég skokka á rúmlega gönguhraða og hef ekki metnað til annars. En ég hef heldur ekki tiltakanlega mikið sjálfstraust í hlaupum og hef aldrei fundið mig í að biðja fólk um að heita á mig og styrkja eitthvert málefni.
Nýlega las ég pistil um svona áheit þar sem pistlahöfundi fannst eiginlega að skattarnir ættu að dekka það sem fólk biður um áheit til að gera. Og ég er innilega sammála því. Mér hefur fundist ég dálítið utangátta þegar stuðningsmenn snúa rellunum sínum á hliðarlínunni og hvetja einstaka hópa - en í ár var reyndar minna um það. Er ekki gleðin tekin úr hlaupinu þegar allir eiga að vera að styrkja ýmsa hópa sem ættu að fá eðlilegan stuðning í gegnum skattana okkar?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)