Hofsvallagatan

Ég hjóla meira en ég geng og miklu meira en ég ek. Samt rak mig í rogastans þegar ég hjólaði Hofsvallagötuna á leið í Vesturbæjarlaug í síðustu viku, svo mikið var búið að þrengja að bílunum í þessari þungu umferðargötu.

Í dag heyrði ég hins vegar viðtal við borgarfulltrúa (sem ég man, ótrúlegt nokk, ekki hvað heitir) og í því kom fram að merkingarnar væru bara málaðar og blómakerin færanleg, breytingarnar væru afturkræfar og þetta væri tilraun. Ég man eftir annarri tilraun við Hverfisgötuna sem var tekin til baka. Mér finnst hraustleikamerki að viðurkenna mistök ef svo ber undir og lýsa sig reiðubúin/n að taka til baka ákvörðun ef hún reynist ekki rétt eða heppileg.

En nú finnst mér stórskrýtið að rifja upp að í október 2011 lýsti tæplega 100 manna íbúafundur þeirri skoðun sinni að „bílaumferðin á götunni væri of hröð og að öryggi gangandi vegfarenda væri ógnað“ (ef eitthvað er að marka frétt RÚV). Frétt eftir íbúafund í gær er um að þess sé „krafist að götunni yrði aftur breytt í sama horf“.  

Mætti kannski allt annar hópur á fundinn í gær?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að fólk sé allt of fljótt að dæma, það leyfir ekki breytingunum að venjast (flestir þurfa tíma til að venjast breytingum) og byrjar strax að hrópa og kalla. Ég las líka ágætan pistil manns (studdan ljósmyndum til útskýringar) sem hjólaði frá miðbænum og út í Vesturbæjarlaug og fannst þessi breyting mjög góð. Ég er helst á því að það hafi verið ólíkir hópar sem mættu á fundina; annars vegar foreldrar barna sem þurfa að fara yfir Hofsvallagötuna í skóla og hins vegar bíleigendur á allt of stórum bílum (jafnvel svo stórum og breiðum að þeir ráði varla við að keyra þá) og þeir láti nú í sér heyra eins og bílistar gera gjarnan þegar þrengir að þeim. Ég hef ekið Hofsvallagötuna á bíl eftir breytingar og finnst hún mjög fín, ég keyri hægar og er meðvitaðri um aðra vegfarendur. Ég kann auðvitað að keyra ....

Ásgerður (IP-tala skráð) 28.8.2013 kl. 22:51

2 Smámynd: Ívar Pálsson

Þetta er undarleg söguskýring um íbúafundinn á Hótel Sögu í október 2011: „Fundarmenn reyndust sammála um að bílaumferðin á götunni væri of hröð og að öryggi gangandi vegfarenda væri ógnað“. Öðru nær, fundarmenn voru mjög ósammála og Gísli Marteinn sá um túlkun á því hvernig íbúarnir brugðust við. Ferlið sem kallað er samráðsferli er bara tilkynning um það sem þau ætla að gera.

Fólkið sem mætti á fundinn í Hagaskóla virtist þverskurður af heildinni: dynjandi lófaklapp kom þegar tillagan um að fjarlægja allt draslið kom upp.

Ívar Pálsson, 29.8.2013 kl. 00:23

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég skil. En Ívar, er ekki til önnur lending en að bakka í sama far? Hvað með að hafa þrenginguna öðrum megin? Manstu þegar Melagöturnar vestan megin voru gerðar að blindgötum (ég man það ekki enda ekki í þessu hverfi)? Voru ekki sumir óhressir með það þá að geta ekki keyrt af til dæmis Grenimel beint út á Hofsvallagötuna?

Berglind Steinsdóttir, 29.8.2013 kl. 08:12

4 identicon

Var ekki ein akrein í hvora átt fyrir bíla og er ekki ein akrein í hvora átt fyrir bíla eftir breytingu! Það er nú ekkert hádramatískt.

Eina sem er að bílarnir þurfa að aka hægar til að miða akstur við umhverfið og hjólandi fá sérakrein fyrir sig, og trufla þá ekki lengur akandi eða gangndi vegfarendur.

Ég myndi kalla þetta win win fyrir alla. Eini gallinn virðist vera að þetta er púkalega skrautlegt.

Hrafnhildur (IP-tala skráð) 29.8.2013 kl. 08:42

5 Smámynd: Ívar Pálsson

Ég held að farælasta lausnin væri að breikka aðeins gangstéttina vestanmegin (sem er upphækkuð)með ysta hlutanum fyrir reiðhjól, enda nota hjólreiðamenn helst gangstéttir. Bílastæði væru áfram leyfð austanmegin. Þá gengur allt upp, umferðarflæði, snjómokstur, raunnotkun íbúanna á bílastæðum osfrv., ekki úti á miðri götu.

Á Suðurgötunni frá Melatorgi að miðbæ nota sárafáir hjólreiðastíginn, en þyrpast í öryggið á gangstéttinni.

En auðveldast er að láta hluti vera sem virka, ekki rugga báti sem siglir vel. Best væri því að draga breytingarnar til baka.

Einstefnan og lokanir gatna var heilstæð aðgerð sem komin er hefð á og friður um það, t.d. miðast þá verð fasteignar við það hvort hún er í botlanga eða á umferðarhorni. Vonandi hrærir þessi borgarstjórn ekki líka í því!

Ívar Pálsson, 29.8.2013 kl. 10:10

6 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég vil veg hjólandi og gangandi sem mestan en allir aðilar verða að geta unað sáttir við sitt. Vonandi tala menn sig að niðurstöðu, mér sýnist það vera hægt. Og ég kem ekki þessum hjólastíg á Suðurgötunni fyrir mig enda kann ég vel við mig á gangstéttum meðan ég rekst ekki utan í önnur hjól og gangandi fólk. En stemningin fyrir hjólreiðum hefur klárlega aukist á síðustu árum þannig að það þarf að gera ráð fyrir þeim samgöngumáta. Og ég held enn að það væri hægt að þrengja Hofsvallagötuna til hálfs ...

Berglind Steinsdóttir, 29.8.2013 kl. 20:33

7 identicon

Bendi á að strangt til tekið eiga börn ekki að þurfa að fara yfir Hofsvallagötuna í skóla. Ég er búsett í vesturbænum og finnst þessi breyting fáránleg. Tek auk þess undir orð Ingibjargar Sólrúnar. Þetta er foráttuljótt og spurning hvort þetta er yfirleitt löglegt með öll þessi lituðu merki. Er ekki í umferðarlögum getið um samræmingu umferðarmerkja? Þessi pastelhryllingur fellur alls ekki undir það. Auk þess er það nú svo að umferðin af Hofsvallagötunni flyst inn í litlu göturnar sem alls ekki eru til þess bærar, og síst þegar snjóar og þær eru ekki ruddar nema með höppum og glöppum og bara þegar minnstu ruðningstækin eru laus, því stóru tækin fara t.d. ekki inn á Reynimel og Víðimel; göturnar eru bara of þröngar til þess.

Þá verður nú aldeilis gaman hjá Vestubæingum.

Nanna Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 29.8.2013 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband