Viltu hafa flugvöll?

Ég trúi á lýðræðið þótt það sé gallað. Ef ég væri yfirvald í Reykjavík myndi ég skoða undirskriftasöfnunina um flugvöllinn í Vatnsmýrinni vendilega þótt ég sé af öllu hjarta á móti flugvellinum þar. Ég held að þessir 62.230 einstaklingar sem hafa skrifað undir hafi gert það á ólíkum forsendum. Oftast heyri ég fólk nefna sjúkraflug. Allt skynsamt fólk setur mannslíf í fyrirrúm. En er ekki hægt að gera það öðruvísi en að hafa innanlandsflug í miðborg höfuðstaðarins?

Ef skynsama fólkið væri spurt: Viltu hafa góðan spítala í heimabyggð? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu fara vel með peninga? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu hafa næga atvinnu á svæðinu? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu hafa öruggar samgöngur í landinu? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu hafa sex vikna sumarfrí? reikna ég með að það segði: Já. Ef það væri spurt: Viltu að börnin þín fái góða menntun og í fyllingu tímans gott og vel launað starf þar sem hæfni þeirra er metin að verðleikum? reikna ég með að það segði: Já.

Samt vita allir að við getum ekki öll fengið allt sem við viljum. Það er ekki hægt að leggja veg um allar þorpagrundir. Það er ekki hægt að hafa hratt internet alls staðar í þessu stóra landi án þess að kosta miklu til. Það er ekki hægt að hafa sjúkrahús og 50 metra sundlaug í hverjum smábæ. Það er ekki hægt að hafa fullkomið jafnrétti í öllum málum. Við getum ekki tryggt öllum sjúkum bata. Við getum ekki valið hvenær sólin skín í hverjum landsfjórðungi. Við getum ekki gert öllum til hæfis.

En það er sjálfsagt að reyna að gera sem flestum til hæfis og að öðru leyti fara bil beggja. Ef þarfagreining sýnir fram á að meiri hlutinn hagnast í einhverju (eða öllu) tilliti á því að hafa flugvöllinn þar sem hann er mun ég beygja mig undir ákvörðun um það. Ég er bara enn ekki sannfærð um að undirskrifendur séu á því að það þjóni almannahagsmunum að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni ef flug á að standa undir sér. Ég er búin að fljúga tvisvar sinnum innanlands í sumar og í bæði skiptin borgaði vinnuveitandi undir mig. Hefði ég verið til í að ferðast aðeins lengur?

Vill allt það fólk sem vill hafa flugvöllinn til daglegs brúks á sama stað borga raunvirði fyrir farseðilinn sinn? Og hvert er raunvirðið?

Ég er auðvitað að hugsa upphátt og ég spyr: Má kosta öllu til; byggingarlandi, öryggi þeirra sem eru á daglegu ferli í miðborginni, ferðatíma borgarbúa, útlits- og umferðarmengun? Er öruggt hvert svarið yrði ef allir 62.230 þyrftu að velja á milli sjúkrahúss í heimabyggð og flugvallar í Vatnsmýri? Eða flugvallar í Vatnsmýri og ganga í gegnum fjall yfir í næsta byggðarlag þar sem gott sjúkrahús er?  Eða flugvallar í Vatnsmýri og fjár til að fara í nýsköpun í heimabyggð?  Eða flugvallar í Vatnsmýri og nýs framhaldsskóla í heimabyggð?

Hvað finnst þessum 120.000 kosningarbæru Íslendingum sem hafa ekki skrifað undir? Ég veit að ég vil flugvöllinn burt sjálfrar mín vegna og ég held að obbinn af þeim sem hafa skrifað undir hafi líka gert það af persónulegum ástæðum.

En ég er ekki yfirvald í Reykjavík, á sennilega aldrei eftir að fá að vita allan sannleikann í málinu og ræð engu öðru en eigin næturstað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

http://www.austurglugginn.is/umraedan/616-hver-borgar-nyjan-reykjavikurflugvoell

Eru menn tilbúnir að borga 40 milljarða fyrir flutning flugvallar.  Hvernig verður umferðin þegar 30 þúsund íbúar þurfa að sækja vinnu útfyrir svæðið.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 30.8.2013 kl. 22:33

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Jón Jónsson hæstaréttarlögmaður veltir ekki fyrir sér kostnaðinum við að byggja upp innanlandsflugið í Keflavík. Og dettur honum ekki í hug að erlendir ferðamenn gætu séð sér hag í því að fljúga áfram út á land? Gæti innanlandsflugið í Keflavík ekki unnið með ferðaþjónustunni til langs tíma? Er verðmiði á því?

Hvaða 30.000 manns fara hvert? Út fyrir 101/107 Reykjavík?

Berglind Steinsdóttir, 31.8.2013 kl. 08:55

3 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég les í skýrslu frá árinu 2007 að rúmlega 1000 starfsmenn tengist starfsemi flugvallarins í Vatnsmýrinni:

Starfsemin á Reykjavíkurflugvelli er fjölþætt. Að henni koma 15–20 aðilar með um 630 starfsmenn á árinu 2005, þar af 10–15% í hlutastarfi. Að auki eru um 400 manns tengdir flugvellinum við störf sín (Hótel Loftleiðir og bílaleigur) og áhugamál (áhugamannafélög).

Berglind Steinsdóttir, 1.9.2013 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband