Staða verkefna hjá sérfræðingum

Einhver á eftir að hugsa mér þegjandi þörfina. Ekki fyrir að segja að mér finnist ástæða til að stytta vinnuvikuna þar sem hægt er. Vegna fjórðu iðnbyltingarinnar er margt sérfræðistarfið fljótunnara en var. Við erum fljótari að fletta upp staðreyndum, fljótari að afrita, fljótari að senda, fljótari að greina og ákveða niðurstöðu.

Samt er samfélagið ekki allt logandi í tilhökkun yfir því að vinnuvikan hljóti að styttast. Ég heyri yfirmenn ekki tala um það og ég verð ekki mikið vör við að starfsmenn á gólfinu gæli við tilhugsunina.

Nei, einhver á eftir að hugsa mér þegjandi þörfina þegar ég hugsa nú upphátt að starfsmenn vilji frekar geta mætt í vinnuna og fengið sér góðan kaffibolla með samstarfsfólkinu í upphafi dags, sest svo við tölvuna og lesið í gegnum afmæliskveðjurnar á Facebook eða snappað eða farið í gegnum slúðurmiðlana.

Af átta tíma vinnudegi eru að hámarki sex klukkutímar í þágu vinnunnar hjá flestu skrifstofufólki. Þar inni í eru auðvitað eðlilegar hvíldarstundir, matar- og kaffitímar, en einhver hluti sem fólk er bara að dóla sér eitthvað. Og, já, ég er skrifstofufólk og vildi miklu heldur halda vel áfram í sex tíma og fara svo í klippingu og búð á leiðinni heim. Mér finnst alveg kósí að opna Facebook meðan ég elda og þarf hvort eð er að standa yfir eldavélinni.

Og grunur minn er að allstór hluti þeirra sem „hafa ekki tíma“ til að skoða Facebook heima á kvöldin geri það bara samt og verji ekki öllu kvöldinu með börnin í fanginu. Fólk með ung börn og mörg ung börn er skiljanlega oft í þvottahúsinu en svo eldast börn sem annað fólk.


Bloggfærslur 26. mars 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband