Agaleysi samfélagsins

Ég var að hlusta á Sprengisand og umræður um rafmagnsleysið sem varð vegna veðurofsans í vikunni. Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, er ómyrk í máli og vandar þeim ekki kveðjurnar sem hefðu getað búið sig – okkur – betur undir það sem vitað var að yrði. Ég held að hún segi ekkert nema sannleikann í málinu og taki svolítið að sér að benda á klæðlausa keisarann. Með síhækkandi aldri mínum er ég nefnilega loks farin að sjá og viðurkenna magnað agaleysi í íslensku samfélagi. Ég get líka kallað það meðvirkni því að ég held að ég hafi verið illa haldin af henni.

Sá sem gagnrýnir er líka útsettur fyrir gagnrýni. Sá sem bendir á gallana og mögulegar úrbætur verður fyrir því að sá sem gagnrýnin beinist að vill ná sér niðri á þeim sem gagnrýnir. Er ekki uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson alveg ótrúlega gott dæmi?

Við gætum öll haft það gott á Íslandi. Ég skal ekki segja með allan heiminn en Ísland býr svo vel að auðlindum að hér þyrfti enginn að líða skort. Það þýðir ekki að við eigum að ala á leti eða því að fólk hafi ekki fyrir hlutunum, mér finnst eðlilegt að við leggjum öll okkar af mörkum. En meðan varsla fjár er miklu meira metin en gæsla barna og umönnun sjúkra og aldraðra er ekki von á góðu. Og öruggt rafmagn er klárlega grundvallaratriði í lífsgæðum okkar.


Bloggfærslur 15. desember 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband