Hver er ég?

Ég er á nokkurra daga tilfinningaferðalagi með sjálfri mér. Ég held að það sem ég er að ganga í gegnum sé sammannlegt og þess vegna tjái ég mig hér í von um samferðafólk en skrifa ekki í pappírsdagbókina sem ég held líka. Þar eru enn meiri einkamál.

Ég er ofsalega venjuleg manneskja sem er nú búin að komast að því, loksins segja sumir, að bróðirinn sem er fjórum árum eldri er ekki sá sem ég hélt hann vera. Og nú horfi ég inn á við og spyr mig: Hvernig gat þetta gerst og hvernig gat ég verið svona andvaralaus?

Ég ætla ekki að tíunda allt það brogaða sem ég man eftir úr æsku. Öllum er heimilt að hlaupa á sig, gera mistök, vera ósanngjarnir stundum, ljúga smá, fegra sig, slæpast, koma sér undan en ég held að flestir þekki mörkin, viti hvenær er orðið of mikið, kunni að biðjast afsökunar og sjá að sér. Ég get fyrirgefið sjálfri mér mína galla sem ég veit um suma en ekki alla því að margt fólk er feimið við að gagnrýna aðra. Ég veit að ég er smámunasöm, aðfinnslusöm, gagnrýnin, kröfuhörð og óforbetranlegur draslari. Í vinnunni tekst mér ekki að gera huggulegt á skrifstofunni minni því að pappírar hrúgast upp, ég legg skó frá mér í hilluna, ég er með blóm í vítamínglasi og kaffiblett stundum á sama staðnum allan daginn. Heima geta skórnir verið á baðgólfinu heila helgi án þess að ég gefi þeim almennilega gaum. Í frystinum ægir öllu saman og stundum opna ég box úr frysti sem ég man ekkert hvað er í. En ég er algjör jarðýta í vinnu og leik mér að því að gera tvennt í einu. Mamma kallaði mig mörg síðustu árin sín múltítösku. Hvað er það? Ég sagði henni einu sinni frá ensku sögninni „multitask“, að gera margt í einu, og hún sneri því upp í nafnorð um mig, mundi stundum vitlaust sinn eigin skáldskap og kallaði mig múltíbuddu (sem er auðvitað ekki eins flatterandi). Hún rifjaði oft upp einhver jólin þegar ég bjó heima og var að skrifa efnisrík jólakort meðan ég talaði við hana og hlustaði eftir einhverju sem var sagt í útvarpinu. Henni fannst ég alltaf geta gert margt í einu en svo ég skauti ekki framhjá göllunum sem ég nefndi framar þarf ég kannski að læra á slaka á gagnvart hóflegu slugsi og tímasóun.

Ég hélt lengi vel að ég væri það sem ég kallaði tilfinningalega grunn. Ég er dul og læt oft lítið uppi um sjálfa mig en ég er ekki tilfinningalaus. Ég á auðvelt með að taka hrósi og ég á líka auðvelt með að hrósa öðrum. Ég er extróvert og er yfirleitt öll útvortis í góðra vina hópi þótt ég eigi það til að finnast gott að halda mig til hlés og fylgjast með. Ég held að ég sé allt annað en vanaföst en kannski er ég ekkert nema rútína og algjörlega blind á það sjálf. Sóun er algjört eitur í mínum beinum sem er í sjálfu sér kostur en ég get verið fullöfgakennd í því efni. Og ég er ALLTOF gefin fyrir mat og sætindi en sem betur líka fyrir að hreyfa mig.

Við erum öll alls konar og nú er ég farin í þetta innra ferðalag vegna þess að ég horfðist loks í augu við það að ég á bróður sem lætur stjórnast svo af peningum að hann skeytir hvorki um skömm né heiður og allra síst sannleikann. Hann situr uppi með sjálfan sig en ég er sátt við sjálfa mig, galla mína og kosti því að ég veit að ég er heiðarleg og brýt hvorki né bramla líf fólks í kringum mig. Ef einhver annar veit betur vildi ég svo innilega frétta af því vegna þess að í þessu ferli er ég að reyna að  bæta mig.


Bloggfærslur 18. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband