Bréf Gumma til okkar systkinanna

Í heiminum er margur sótrafturinn og mín fjölskylda slapp ekki eins og ég hef verið að rifja upp síðustu dagana á blogginu. Að sumu leyti er freistandi að loka sársaukann inni og láta Gumma ná þannig yfirhöndinni en af því að ég ætla að vinna í meðvirkni minni með honum og af því að hann mun halda áfram að svíða peninga af fólki held ég áfram að pönkast hér. Hver sem er getur lesið færslurnar og hver sem er getur sleppt því. En ég hef staðreyndir að leiðarljósi.

Gummi fékk peninga lánaða hjá mömmu og pabba. Hann veit það og viðurkennir en ber fyrir sig að skuldin -- sem ekki er viðskiptaskuld eða áhættufjárfesting heldur einfalt lán foreldra til sonar í vandræðum vegna eigin axarskafta -- sé fyrnd. Þegar við systkinin þrjú höfum viljað hitta hann og ræða málin hefur hann skrópað. Hann mætir ekki og svarar ekki tölvupóstum heldur ræður sér lögfræðing. Eldri bróðir okkar hefur hringt í Gumma og fengið fúkyrðin yfir sig. Í augum Gumma erum við vonda fólkið. Auðvitað erum við gölluð en við erum ekki þjófar og við höfum engu logið upp á Gumma.

Í maí var lögmaður Gumma búinn að rissa upp kröfu hans á okkur og pabba en af ýmsum ástæðum varð ekki af seinni fundi okkar þriggja með lögmanninum fyrr en 8. ágúst. Kannski erum við nytsamir sakleysingjar en eftir fundinn með lögmanninum sem Gummi vildi náttúrlega ekki mæta á kom okkur saman um að beygja okkur undir kröfuna og systir mín sem er með umboð frá pabba lagði fjórðungshlut inn á fjárvörslureikning lögmannsins. Síðan vitum við ekkert hvað varð af þeim peningum.

Lífsgæði eru fólgin í mörgum óefnislegum hlutum, svo sem heilsu, ást og vináttu, og þau er ekki hægt að kaupa. En allir sem hafa haft lítið á milli handanna vita að peningar geta aukið lífsgæði, t.d. ef fólk getur unnið styttri vinnudag, leyft sér ferðalög og haft efni á hollari mat. Líf mitt er stútfullt af hamingju þótt þessi ágústmánuður hafi verið heldur armæðulegur vegna andstyggilegheita Gumma og hrakandi heilsu pabba. Einhvern tímann kemur að því að ég læt gott heita en nú ætla ég að birta umboðið sem Gummi skrifaði undir. Ég stroka yfir nafn lögmannsins og nöfn og kennitölur votta að því að Gummi sé sá sem hann segist vera vegna þess að það fólk er ekki aðilar að þessu bloggi og þyrfti að fá að vita af því til að geta svarað fyrir sig. Gummi hefur haft mýmörg tækifæri en forsmáir þau öll.

umboð Gumma Steins


Bloggfærslur 27. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband