Ódýrt í Egyptalandi?

Ég bý í lúxuslandi þar sem fólk hefur það upp til hópa gott. Nú er Efling að sönnu í verkfalli og það bitnar á ýmsum. Verð er víða of hátt fyrir kaupgetu fólks. Veður heftir ferðafrelsi. Sumt fólk á ekki til hnífs og skeiðar. Allt er þetta verra en við viljum en ekkert okkar þarf að óttast fyrirvaralausa skothríð hjá lögreglu, við 

búum flest í upplýstum og upphituðum húsakynnum, börnin fara í leikskóla, fólk fær og er í vinnu, fær laun og getur ferðast til annarra landa.

Ég var viku í Egyptalandi. Við fórum tvö að gamni okkar til að hlaupa hálft maraþon í píramídamaraþoninu 22. febrúar, keyptum flugmiðana sjálf, skráðum okkur í hlaupið, bókuðum hótel í tvær nætur í Kaíró og ákváðum að impróvísera eftir það. Ég fór á fjögurra kvölda námskeið um Níl í janúar til undirbúnings og það var fínt en dugði mér ekki neitt til að fóta mig í arabíska heiminum.

Sólarlagið í Lúxor
Einar lendir á mynd með heimamanni í KarmalÞumall - við vorum SVONA ánægð með loftbelginnEinar bendir á hlaupaleiðina

Við létum bólusetja okkur og tókum með okkur Imodium ef við þyrftum að stemma magann og handspritt af því að sérstaklega var mælt með því.

Og hvað ætla ég að fara að segja?

Ég er að hita mig upp til að segja að þrátt fyrir að það hafi verið gaman að sjá píramídana, hofin og aðrar menningarminjar, fljúga í loftbelg, sigla á Níl og mara í sólinni er fátæktin yfirþyrmandi. Við sáum engum ógnað af lögreglu en sáum auðvitað marga með riffla þrátt fyrir að við værum að mestu í vernduðu umhverfi. Um leið og maður gekk í gegnum markað eða bara eftir götunni hópuðust að okkur sölumenn sem vildu selja okkur styttur, ævafornan papýrus, flíkur og ilmefni. Ég á frekar auðvelt með að afþakka kurteislega og ganga áfram en samt enduðum við á að kaupa slatta sem mig langar ekki að eiga.

Einu sinni gengum við eftir klassískt klósett- og pylsusjopp (auðvitað engar pylsur samt) út í rútu sem var að ferja okkur frá Kaíró til Lúxor með léttan poka af kartöfluflögum og kexi og smávegis teglundur í maganum og borguðum fyrir það 200 egypsk pund sem er rétt innan við 2.000 kr. Við fengum aldrei til baka í peningum, við fengum alltaf viðbótarmun sem við báðum ekki um. Auðvitað vorum við aflögufær og við gáfum þjórfé, oft í bandarískum dollurum, en sölumaðurinn sem raðaði sjálfur í pokann og ákvað þar með hvað við ætluðum að kaupa og hvað við ættum að borga suðaði svo um minjagripi frá Íslandi handa konunni sinni. Og það hefðu ekki átt að vera ísskápaseglar eða myndir af jólasveinum, nei, hann talaði um farsíma og heyrnartól. Ég held að þessum tveimur heimum semji ekki of vel. Og svo var enskan skelfilega takmörkuð nema hjá örfáum sem við hittum. Ég man bara eftir leiðsögukonunni sem fór með okkur um í hálfan dag og einum sjálflærðum leigubílstjóra sem hafði lært ensku á markaðnum af ferðamönnum.

Ef ég fer aftur til Egyptalands, sem ég á ekki von á, yrði það til að vera í lengri tíma þar sem ég settist að í einhverju þorpi og kenndi börnum ensku. Við Einar gengum einu sinni í flasið á krakkahópi sem var allur með farsíma í höndunum og helmingurinn bað mig um að fá að taka mynd af sér með mér. Ljóshærða fólkið er enn fáséð, líka í borgunum.

Ég kem heim stútfull af D-vítamíni og tekst glöð á við íslenska vorið en ég er leið yfir misskiptingu heimsins. Þótt maður viti af henni víkkar svona ferðalag út skynjun manns á aðstæðum.


Bloggfærslur 29. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband