Ósveigjanleiki

Ég á það til að vera ferköntuð. Rétt er rétt og annað er rangt. Grátt er málamiðlun þegar hlutirnir eru hvítir eða svartir. Ég skil t.d. ekki að fólk helgi sig ekki vinnunni á vinnutíma, auðvitað með eðlilegum hvíldarhléum og læknisferðum. Og ég er að reyna að taka mig á, hætta að vera svona einstrengingsleg. Ég fæ alveg verki í beinin þegar fólk er tvo tíma í mat og skilur verkefnin eftir hjá samstarfsfólki. Auðvitað veit ég og allir sem lesa þetta að það á enginn að gera. Ímyndum okkur leikskóla eða spítala. Kalt vatn rennur mér milli skinns og hörunds.

En ég vinn bara við prófarkalestur. Komman skilur ekki milli feigs og ófeigs. Klukkutími til eða frá bjargar ekki eða fargar lífum. En ég get ekki svikist um. Í öllum störfum hef ég reynt að slaka á gagnvart leti og vinnusvikum en ég get það ekki. Og það er ekki ótvíræður kostur, ekki einu sinni fyrir þann sem borgar mér launin.

Eins er með bróður minn. Ég lánaði honum 7 milljónir árið 2008. Það er mikill peningur og ég átti hann af því að ég a) hafði nýlega selt íbúð og ekki keypt aðra, b) er vinnusöm og ráðdeildarsöm. En er kominn tími á að ég sleppi tökunum og sætti mig við að tapa peningunum? Mér býður við bróður mínum sem er ómerkilegur en ekki líkamlegur ofbeldismaður. Er það verst fyrir sjálfa mig að gefa ekki eftir?

Svo minni ég (mig) á að ég ætlaði að láta allt handveðið, 5 milljónir, í Kvennaathvarfið af því að ég er fjárhagslega ekki á flæðiskeri stödd. Hann er sem sagt ekki bara að stela frá mér, Gummi bróðir minn. En hver veit nema hann hlunnfari fólkið á Sólheimum þar sem hann vinnur ef eitthvað er að marka símaskrána. Deildarstjóri Ölurs, þvílík forfrömun hjá manni sem hefur aldrei tollað í námi eða vinnu og er orðinn 58 ára gamall. 

Nei, nú verð ég að muna að grátt er ekki alvont. Hann er kannski góður við spírur.

Tilhugsunin að láta hann komast upp með þjófnaðinn nístir mig samt alla af því að það er ósanngjarnt, en hvenær er stundin runnin upp að játa sig sigraða? Sem betur fer er aðallega gott fólk í kringum mig, skemmtileg verkefni og mörg ævintýri á döfinnni. Og ég get ekki verið samviska alls Íslands og ekki upprætt alla misnotkun fjár og alla spillingu. Það er lýjandi að rogast með alla þessa samvisku.

Ég afritaði mynd af mínum óheiðarlega bróður af því að hvað sem gerist vil ég að fólk viti að hann er þjófur. Hann er gaurinn í rauðu úlpunni. Hinn þekki ég ekki og bið hann nafnlaust afsökunar á myndbirtingunni.


Bloggfærslur 5. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband