Þegar fíflunum fjölgar í kringum mann

... þarf maður að líta í eigin barm. Ég geri það iðulega vegna þess að ég er gagnrýnin. Ég ætlast til þess að fólk leggi sig fram. Ekki alltaf en oftar en ekki. Ég er ekki ánægð með þessa kröfuhörku mína og hef reynt að draga úr henni. Við erum öll glaðari ef ég verð ekki kýtt í öxlunum af vonsku yfir leti fólks. Merkilegt nokk hef ég samt aldrei verið með vöðvabólgu. Aldrei – og vinn þó við tölvu. 

Ég hreyfi mig talsvert mikið af því að ég hef hreyfiþörf og af því að mér finnst gott að borða. Ég borða samt of mikið nammi og hreyfi mig þess vegna of hægt þegar ég ætla að hlaupa hratt.

Ég á engin börn og það er galli. Ég hef fyrir vikið ekki þurft að henda öllu til hliðar og sinna barni af óeigingirni. Ég hef fullan skilning á því að fólk þurfi að fara úr vinnu vegna barna og sinna þeim í veikindum en ég er samt aldrei í þeim sporum sjálf og virka örugglega stundum sinnulaus gagnvart svona amstri. Ég er samt mjög glöð með að fólk eignist börn og komi þeim til manns. Þakklát.

Ég er hvorki lesblind né skrifblind en get verið svolítið blind á að aðrir eigi erfitt með að koma frá sér texta. Ekki samt þegar ég tek að mér að prófarkalesa, heldur þegar fólk í sömu stöðu og ég er í gerir aulavillur í of stórum stíl og man ekki reglur sem teymið hefur komið sér saman um. Ekkert að því að fletta upp, maður á stundum að efast um eigið minni og ágæti.

Ég hef aldrei hringt mig veika í vinnu án þess að vera það. Ég hef hins vegar mætt með beinverki og hita í vinnu og biðst afsökunar á því. Það henti mig meira að segja einu sinni þegar ég vann við matvælaframleiðslu. Ef súkkulaði telst matur.

Ég hef aldrei verið blönk en fór upp í þakið á kreditkortinu í haust og fannst hressandi að reka mig í það. Eitt augnablik fannst mér ég skilja fólk í fjárhagserfiðleikum. Það leið hjá.

Ég er ekki spontant og vil yfirleitt fá fyrirvara áður en fólk kemur í heimsókn. Ég er mannblendin en þarf stundum mitt næði og hef sleppt því að svara símanum. Samt er ég bæði málgefin og góður hlustandi þegar mikið liggur við.

Ég er ótrúlega miklu lokaðri en ég virka á blogginu.

Ástæðan fyrir þessu mikla ranti mínu? Jú, ég er ekki þjófur og siðleysingi eins og Gummi bróðir minn. Honum finnst hann samt hafinn yfir gagnrýni og mun ekki skila lánsfénu ef hann kemst upp með að svíkja mig um það. Og guð má vita hvort hann prettar ekki heimilisfólkið á Sólheimum þar sem hann vinnur sem garðyrkjufræðingur.

Að lokum minni ég á að þegar hann skilar mér öllum peningunum hef ég eyrnamerkt 5 milljónir í Kvennaathvarfið. Hann er því ekki bara að stela af mér peningum. Og þótt ég fari vel með finnst mér ekki réttlætanlegt að hann steli af mér peningum eða sigi á mig iðnaðarmönnum með svimandi háa reikninga eins og hann stundaði í eina tíð.

Ég veit að ég er búin að eyða of mikilli orku í að rifja upp gallana á honum, þessum bróður mínum sem er búinn að vera óvirkur alki í rúm 30 ár en áfram haldinn mikilli fíkn. Kannski er hann í dópi sem gæti þá útskýrt af hverju hann á aldrei peninga og hefur aldrei haldist á þeim.


Bloggfærslur 7. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband