Fjórða iðnbyltingin

Ég skil að fólk hafi áhyggjur af störfunum sínum og afkomu ef tæknibyltingar valda straumhvörfum í lífi einstaklinga. Ég sé og heyri að sumt fólk ætlar ekki að versla við sjálfsafgreiðslukassana í stórmörkuðum af því að þeir taki störf frá fólki og sjálft fær það ekki einu sinni afslátt fyrir að afgreiða sig og skanna vörurnar. Ég hef heyrt fólk tala um að það ætli ekki að lesa af mælunum fyrir OR eða ON eða hvað sem Orkuveitan heitir núna.

Ég skil að fólk hafi áhyggjur og mér finnst að stjórnvöld eigi að taka mark á þeim og hugsa næstu skref. Hvað ef hér verður 10% atvinnuleysi vegna þess að vélar leysi fólk af hólmi? Hvað ef 24 stunda vinnuvika nægir til að vinna verkefnin sem áður tók 40 tíma að vinna? Mér finnst eðlilegt að bæði fyrirtækin og starfsfólkið njóti góðs af framförunum. 

Eða viljum við ekki að fólk lifi af, sé matvinnungar og geti leyft sér aðeins meira en að þokast úr húsi?

Ég sé – búin að lesa internetið svolítið í dag – að sumir mæla með borgaralaunum, að allir séu með lágmarkslaun hvort sem þeir kjósa að vinna eða ekki, og að fólk geti síðan bætt tekjur sínar með vinnuframlagi. Ég veit að hugmyndin um borgaralaun er ekki langt komin og ég er ekki búin að leggja niður fyrir mér hvernig ég sé þau virka.

En það er mikilvægt að ávinningurinn af fjórðu iðnbyltingunni og gervigreindinni safnist ekki á fárra hendur heldur dreifist víðar.

Svo minni ég á að við notum heimabanka, sjálfvirkar þvottavélar, talíur, bíla, síma og stafrænar myndavélar sem við framköllum sjálf myndirnar úr. Við getum beðið um söluyfirlit meðan við skoðum fasteignaauglýsingar á vefnum, pantað flugferðir í sófanum o.s.frv. Við viljum ekki missa neitt af þessu en allar þessar breytingar tóku störf af fólki á sínum tíma.

Ég er íslenskufræðingur og get því trútt um talað. Starfssviðið mitt verður ekki vélvætt eins auðveldlega og ýmis færibandavinna. En kannski ákveðum við eftir nokkur ár að hætta að tala íslensku eða láta hana deyja út með aldamótakynslóðinni og þá er ég og allt mitt fólk atvinnulaust. Við getum samt ekki látið einstaklinga standa í vegi fyrir framþróun.

Af persónulegum ástæðum er ég búin að segja upp mínu góða starfi og þannig hleypi ég öðrum að, kannski yngri og ferskari eða eldri og ferskari, því að mér finnst í alvöru að við eigum að breyta til. Með haustinu ætla ég að horfa í kringum mig eftir öðru starfi, kannski á öðrum starfsvettvangi. Ég væri mjög til í að gera eitthvað sem gagnast fólki en samt er ég ekki viss um að ég treysti mér til að vinna á elliheimili fyrir 300.000 kr. brúttómánaðarlaun.

Jebbs, hér á blogginu læt ég flakka alls konar og ýmislegt sem mitt nánasta fólk heyrir mig aldrei segja.


Bloggfærslur 9. febrúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband