Trump og Biden

Ég horfði út undan mér á kappræður forsetaframbjóðenda í gærkvöldi. Ég hef aldrei áður haft svona mikið úthald til að horfa á Trump og leyfði holskeflu undrunar að ganga yfir mig aftur og aftur. Hver kýs svona mikið yfirlæti? Ekki þeir Bandaríkjamenn sem ég þekki og skrifaðist á við meðan ég horfði. En óháð því hvað frambjóðendur gengu fram af áhorfendum fór ég að hugsa hvort ekki væri hægt að slökkva á hljóðnemanum hjá þeim sem á ekki að hafa orðið. Ef það dygði ekki væri hægt að setja báða (eða alla þegar fleiri eru) í glerbúr og líka slökkva á hljóðnemum. Stjórnandinn var ekki nógu afgerandi og ég skil ekki hvers vegna hann sat til fóta hjá þeim. Hann hefði átt að standa í sömu hæð og viðmælendur hans, kannski hefði hann þá orðið röggsamari.

Ég spái því að Trump vinni og leiði sorg yfir heimsbyggðina í fjögur ár til viðbótar. Gapuxar ná eyrum vissra hópa og vissir hópar mynda stundum meiri hluta.


Að taka hrósi

Sumum finnst erfitt að fá hrós. Mér finnst t.d. að það sem ég fæ hrós fyrir þurfi að vera 101% en er það ekki fullmikil kröfuharka hjá mér? Ég held að mér finnist ekki erfitt að hrósa öðru fólki en ég segi ekki við eins árs barn að það sé SNILLINGUR þótt það geti stungið upp í sig kexköku. Það þarf að finna jafnvægi í hróssamfélaginu.


Bloggfærslur 30. september 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband