Sunnudagur, 28. janúar 2007
Glæpur og umbun
Nú er ég búin að átta mig á hvers vegna ég gat ekki annað en haldið áfram með Undantekninguna hans Christians Jungersens, tæpar 600 síður. Hann hefur nútímavætt Glæp og refsingu, uppáhaldsbókina mína. Ég hef að vísu aldrei þorað að lesa hana aftur en fyrst eftir að ég las hana sá ég Raskolnikoff ... víða.
Christian kvað hafa verið 7 ár að skrifa bókina sína og ég þori að hengja mig upp á að honum hefur oft orðið hugsað til Dostóévskíjs á meðan. Munurinn er helstur sá að í Undantekningunni uppsker aðilinn sem fremur glæpinn umbun erfiðis síns. Svo eru smávægileg atriði eins og annað land, annar tími og annar glæpur. Líkindin felast í sálarangistinni og samviskubitinu.
Samt kemst Glæpur og umbun ekki með tærnar þar sem Glæpur og refsing hefur hælana.
Og enn af tillitssemi við Habbý læt ég þýðinguna liggja á milli hluta. En kannski ég fái Krat lánaða á bókasafninu á dönsku, það er bókin sem Jungersen varð frægur fyrir í Danmörku.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.