Hvert stefnir í skólamálum?

Sá megnið af fínum þætti um menntamál í sjónvarpinu í gærkvöldi. Vinnuskylda kennara er gríðarlega viðkvæmt mál og vissast að tala varlega. Síst langar mig að kasta rýrð á góð störf góðra kennara. Reyndar held ég að flestir góðir kennarar njóti virðingar og aðdáunar bæði nemenda og foreldra þeirra þannig að orð mín mættu sín líklega hvort eð er lítils ...

En hvað er góður kennari? Í mínum augum er góður kennari áhugasamur um starfið, vel að sér í faginu og umhyggjusamur. En góður kennari getur átt erfitt uppdráttar í fjandsamlegu umhverfi og ég held, já, ég held að skólastarf á Íslandi takmarkist sums staðar, kannski víða, af of mikilli rammasetningu. Ég held að þeir sem gagnrýna að skólastarf taki fullmikið mið af kjarasamningum kennara hafi nokkuð til síns máls.

Sif Vígþórsdóttir hreif mig í þættinum í gær og ekki í fyrsta skipti. Í mars 2008 las ég um starfið í Norðlingaskóla og hugsaði það sama og núna, að hún væri frumkvöðull og að of fáir væru á þessari vegferð. Kannski binda sumir skólastjórar viðveru kennara meira, kannski vinna kennarar meira saman, kannski fara fleiri kennarar í vettvangsferðir en áður og og meira en ég endilega veit um, en meðan ég kenndi fannst mér ansi mikið mér gert af því að staglast í því sama. Áhugi nemenda er frumkraftur en það að reyna að virkja hvern og einn gerir öðruvísi kröfur til kennara. Meiri kröfur.

Ég vona að skólastarf stefni fram á við eins og öll umræðan í þættinum í gær lofaði. Ekki kenna meðaltal og orðflokkagreiningu bekk eftir bekk eftir bekk og gera bæði áhugalausa og áhugasama nemendur leiða.

Kennarinn minn í stjórnsýslufræðum er skýr í framsetningu, orðar hlutina af skynsemi og hlustar eftir röddum nemenda - en sem háskólanemar verðum við fyrst og fremst að hafa eigin innri aga. Hvort sem ég spreyti mig samt á prófinu eða ekki finnst mér ég skilja vanhæfi, málsmeðferðarhraða, andmælarétt o.fl. betur en ég gerði 5. janúar.

Lifi framsækið skólastarf á öllum skólastigum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband