Aðgát skal höfð í nærveru útlendinga

Ég er hugsi yfir dauðaslysinu í Reynisfjöru á laugardaginn. Ég vona að ég þurfi ekki að skrifa hvað ég er leið yfir þessu, það á að vera augljóst.

Ég hef oft komið þarna með útlenska gesti, það gefur augaleið. Ég er mest á ferðinni á sumrin, þ.e. í júní, júlí og ágúst, en reyndar hef ég miklu oftar farið með farþega upp í Dyrhólaey. Reynisfjara sem er samt æðisleg hefur verið dálítil varaskeifa þegar maður kemst ekki upp hrikalegan veginn í Dyrhólaey, næstum ófæran á köflum. Og ég veit ekki hvað maður á lengi að ganga fyrir spennunni við stórhættulegan veg.

Ég er sammála Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra um að auðvitað á fólk að hafa nokkurt vit fyrir sér sjálft. Ég er þó miklu meira sammála kollega mínum Stefáni Helga Valssyni sem vill fá betri aðbúnað á fjölsóttum ferðamannastöðum, s.s. við Geysi og Gullfoss. Kaðalómyndirnar sem eru við Strokk vísa fólki alls ekki veginn og stígurinn niður að Gullfossi er mikil slysagildra, ekki bara á veturna heldur get ég ímyndað mér hvernig hann muni vera í dag þegar haustveðrið helltist óforvarandis yfir okkur í maí. Svo er t.d. Gunnuhver á Reykjanesi sem hefur gjörbreytt um ásýnd og hegðun eftir virkjunina sem komin er þar á koppinn en aðeins er upphrópunarmerki við stíginn þar ásamt orðunum CLOSED og LOKAÐ.

Gunnuhver

Ég vona að mannshöndin fari samt ekki offari og verði látin taka alla upplifun frá túristanum, t.d. með of miklum stígum, köðlum, gleri eða öskubökkum hreinlega, en það er til millivegur. Á Þingvöllum held ég að ég megi segja að nokkuð snyrtilega hafi verið staðið að verki - hvernig væri að flikka upp á umhverfið við Dettifoss? Og væri í of mikið ráðist að vera með starfsmann á þessum fjölsóttustu stöðum?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Þú hefur rétt fyrir þér, og ég held að það sem skipti kannski mestu máli er að útlendingar eru vanir því að ef einhver hætta er á ferðum þá er svæðið kyrfilega afmarkað. Þegar þeir koma því á ferðastaðina okkar og sjá enga kaðla eða varúðarskilti draga þeir þá ályktun að engin hætta sé á ferð, því ef svo væri, væri þetta merkt. Og þess vegna passa þeir sig ekki. Við Íslendingar, aftur á móti, erum vanir því að maður verði að passa sig sjálfur. Og því tökum við engu sem gefnu. Það sem við græðum er óspillt náttúran og fallegra umhverfi en það sem sjá má t.d. í Bandaríkjunum, en það á alveg örugglega þátt í því að af og til látast ferðamenn í landinu. Og það er fátt eins sorglegt eins og ferðalag sem farið er til að njóta lífsins og fræðast um aðra menningu, sen sem endar svo á því að viðkomandi fer heim í kistu. 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 21.5.2007 kl. 18:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband