Við skulum hverfa aftur í tímann ...

Ég var að horfa á Vikuna með Gísla Marteini. Mjög föstudagskvöldslegt föstudagskvöld. Fínir gestir og bestur allra Guðni forseti með speki sína og hvatningu. Og þekkingu.

Ég vil samt ekki hverfa aftur í tímann eins og hann byrjaði svörin sín á. Ég vil ekki mislinga, bólusótt, svarta dauða, spænsku veikina, kíghósta, rauða hunda eða skarlatssótt. Ég vil heldur ekki svínaflensu eða fuglaflensu. En ég hef ekkert val um samtímann. Menn tala um drepsótt, eyðingarafl, farsótt. Fólk deyr úr COVID-19 eins og fólk deyr úr öðrum pestum. Okkur vantar svör og úrræði en her manns er að leita að þeim.

Ég vil heldur ekki missa internetið og samskiptamiðla.

Og ég vil alls ekki missa samneyti við fólk. Ég er extróvert og sólarsinni. Ég er veðurháð og þrái alltaf sól og hita og ég þrífst nálægt fólki. Ég má ekki til þess hugsa að vera lokuð inni, ekki einu sinni þótt ég væri með minn uppáhalds með mér. Ég er hraust og hef ekki undan neinu að kvarta en mér finnst samt skelfileg tilhugsun að mega ekki fara út. Gul (svo ég noti brandarann hans Gísla Marteins) forði mér frá útgöngubanni en auðvitað fer ég eftir tilmælum Almannavarna ef til kemur eins og hingað til.

Ég ætlaði í geggjað árstíðahlaup í kvöld en þar sem uppleggið var orðið að fara einn á staðinn og hlaupa með miklu millibili ákvað ég að hlaupa langa hlaupið frekar í fyrramálið eins og oftast á laugardagsmorgnum.

Að því sögðu: Góða helgi!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband