Að lifa af leiðindin

Mér finnst beinlínis óþægilega mikil áhersla á afþreyingu í umræðunni, ekki endilega í mínum nærhópum heldur útvarpi og kannski sjónvarpi. Mörgum er að sönnu kippt úr sinni daglegu rútínu og margir þurfa að hafa ofan af fyrir ungum börnum og jafnvel eldri börnum en mér finnst umræðan vera eins og 360.000 manns á Íslandi eigi að dunda sér þangað til veiran hefur runnið sitt skeið.

Framlínustarfsfólkið hleypur allan vökutíma sinn. Hjúkrunarfræðingar og einhverjar fleiri stéttir eru með útrunna kjarasamninga. Viðskiptaráð stingur upp á að opinberir starfsmenn – hjúkrunarfræðingar, kennarar, lögreglumenn – sveiflujafni ástandið með kjörum sínum. Bláa lónið greiðir milljarða í arð til hluthafa og sendir starfsfólk sitt á atvinnuleysisskrá hins opinbera. Bankarnir lækka innlánsvexti hjá sparifjáreigendum. Fólk, t.d. námsmenn, með einstakar vaktir í fataverslunum og á veitingastöðum missir vaktirnar og tekjurnar en fær ekki bætur af því að það hefur ekki verið í eiginlegu starfshlutfalli.

Bændur lenda fyrirsjáanlega í vandræðum með mönnun í vorverkunum. Ferðaþjónustan lepur nú dauðann úr skel. Vinir mínir í leiðsögustétt sem voru búnir að bretta upp ermar fyrir törnina framundan sitja með hendur í skauti. Leigubílstjórar og flugmenn geta ekki „unnið að heiman“. Listamenn eru kyrrsettir í sinni eigin vertíð. Aðstandendum er bannað að heimsækja fólkið sitt á elliheimilum vegna smithættu en starfsfólk kemur úr sama umhverfi og aðstandendur. Þar hefur verið illa mannað, sums staðar, og starfsfólk nær engan veginn að bæta það félagslega tjón sem verður við það að börnum og barnabörnum er ekki hleypt inn. Ég gagnrýni ekki þessa varúðarráðstöfun en lífsgæði fólks á lokametrum lífs síns eru skert til muna meira en miðaldra fólks sem leiðist af því að það er búið að horfa á allt á Netflix og í Sjónvarpi Símans en bjargar sér af því að það getur skálað í gegnum Zoom.

Ég hripa hér bara upp hluta af jöfnunni sem er alveg galin. Sums staðar í samfélaginu mokar fólk og mokar til að samfélagið haldi sjó og annars staðar situr orkumikið fólk og hugleiðir hvort það eigi að bora út úr hægri nösinni eða þeirri vinstri. Þó er huggun harmi gegn að gildi skapandi greina og skapandi fólks hefur fengið aukið vægi.

Einhver hlýtur að vera með yfirsýnina. Einhver hlýtur að geta séð hvar of margt fólk er og hvar of fátt, hvar peninga vantar og hvar er ofgnótt og þeir einstaklingar verða að leggja saman tvo og tvo og fá út rétta útkomu. Fólkið sem hefur allar upplýsingarnar verður að rétta hallann.

En ég hlýði Víði og tek almennt mikið mark á því sem kemur fram á daglegum upplýsingafundum vegna Covid.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband