Miðvikudagur, 16. september 2020
Aðdróttun eða meiðyrði
Ég er núna í fjölmiðlanámi og meðal þess sem við lesum um eru aðdróttanir og meiðyrði. Margir dómar hafa fallið á báða bóga, menn verið dæmdir og ekki dæmdir fyrir að segja eitthvað óvarlega um einhvern sem einhver átti ekki skilið.
Já, þetta eru stundum eins konar véfréttir en í öllum dómum eru nánari upplýsingar, það eru bara reifanirnar sem eru með skammstafanir á nöfnunum.
Og þá rifjast upp fyrir mér saga af konu sem sendi frænku sinni tölvupóst og spurði sirka: Ég hef heyrt að þessi maður sem þú ert e.t.v. í tygjum við hafi beitt konuna sína andlegu ofbeldi. Getur þú sagt mér að hann hafi komið vel fram við þig? Engar ávirðingar, bara spurning.
Daginn eftir hringdi umræddur maður í frænkuna sem sendi póstinn, vildi fá að vita um hvern hún hefði verið að tala og hótaði frænkunni málssókn. Frænkan sagði: Ég þarf ekkert að segja þér það. Gaurinn sagði: Þú hringir í mig á morgun og segir mér það.
Hún hringdi ekki og sagði honum ekki neitt meira. Reyndar kom fram í tölvupóstinum að um fyrrverandi konuna hans væri að ræða. Kannski á hann margar fyrrverandi konur. Þremur mánuðum síðar hefur hann ekki stefnt henni. Ég veit ekki hvað það tekur yfirleitt langan tíma en umræddur gaur er löglærður og hefur líklega áttað sig á því að ef hann vekur upp mál sem eingöngu hefur verið í tölvupósti milli tveggja einstaklinga er hann að beina athyglinni að sjálfum sér og mögulega ofbeldi sem hann kann að hafa beitt fyrrverandi konuna sína.
Hótanir valda ótta, jafnvel þótt fólk sé bæði í góðri trú og með hreina samvisku. Frænkan ákvað að taka slaginn ef á reyndi og segja bara satt og rétt frá enda hefur hún ekkert að fela.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.