Skapa 7.000 ný störf?

Ég skil ekki umræðuna um að skapa störf. Ég skil umræðuna um atvinnuleysi og þörf fólks fyrir að hafa eitthvað fyrir stafni og að hafa framfærslu.

Ég fer reglulega í sjósund. Við erum mörg þar sem skiljum ekki af hverju lokað er tvo daga í viku, föstudaga þegar vinnuviku margs fólks lýkur og það hafði vanið sig á að fara í sjóinn og svo heita pottinn fyrir helgina og svo sunnudaga þegar flest fólk er í fríi. Ég hef enga trú á að það sé vegna álags vegna þess að með því að hafa lengur opið myndi álagið dreifast. Það er varla farandi lengur á laugardögum vegna þess að það er röð allan daginn. Ástæðan hlýtur því að vera sú að spara laun starfsmanna þegar opið væri.

Það er mannekla á leikskólum. Vegna styttingar vinnuvikunnar er plan B hjá leikskólastjórum að senda börnin heim ef starfsmenn veikjast. Hvernig væri að plan A væri að hafa leikskólann alltaf fullmannaðan, t.d. með því að vera með starfsfólk á afleysingaskrá sem myndi rótera?

Það er talsvert auglýst eftir grunnskólakennurum. Vinir mínir í kennarastétt segja mér að launamunurinn á grunn- og framhaldsskóla sé um 100.000 kr. Ef fólk á kost á því að flytja sig úr grunnskóla í framhaldsskóla gerir það væntanlega einmitt það. 

Ég hef séð inn á hjúkrunarheimili og mér hefur runnið til rifja hversu illa er hugsað um fólk þar. Jú, það fær mat, lyf og oftast þvott einu sinni í viku en litla félagslega örvun ef það fer ekki í blaða- eða biblíulesturinn. 

Núna er kreppa og þá er góður tími til að ráðast í vegabætur og aðrar samgönguframkvæmdir.

Í stað þess að skapa ný störf fyndist mér upplagt að ráða fólk í störf þar sem vantar fólk. Til viðbótar því sem ég hef þegar talið upp er mikil nýsköpun í gangi - fjórða iðnbyltingin og gervigreind - og þess vegna mætti gjarnan ráða fólk til starfa við að þróa nýjungar og auðvelda öll störfin sem fólk vill helst ekki vinna, eins og að þrífa. Nú þegar erum við með þvottavélar, bíla, hraðbanka, stafrænar myndavélar, mjaltaþjóna, jarðskjálftamæla, internetið, ryksuguþjarka og brauðvélar. Hvað með vélmenni sem þrífa klósett eða brjóta saman þvott?

Mér finnst aumkunarvert að tala um að „skapa störf“ þegar hugvitið er allt í kringum okkur og þarf bara að virkja það. Ég fann ekki tilkynningu um þessa sköpun á vef Stjórnarráðsins þannig að kannski er orðalagið bara frá Vísi komið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Hugmyndir þínar eru góðar, en því miður eru þær svo einfaldar og hagkvæmar, að kerfisskríllinn fær þær aldrei skilið.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 13.3.2021 kl. 03:48

2 Smámynd: Haukur Árnason

Góður pistill.
Halldór Egill segir það sem þarf. Því miður.

Haukur Árnason, 13.3.2021 kl. 18:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband