Sunnudagur, 23. janúar 2022
Höft og bönn
Ég er þæg og löghlýðin, fer meira að segja eftir lögum sem ég er ósammála. Lögin eru mannanna verk og Gummi bróðir er t.d. varinn af fyrningarreglu laganna þótt samband okkar hafi ekki verið viðskiptalegs eðlis heldur drifið áfram af fjölskyldukærleik sem er nú allur fyrir borð borinn.
Nóg um þau hryðjuverk, ég er alltént laus við þann ódám úr lífi mínu.
Ég er að hugsa um veiruna skæðu sem er búin að leggja (tímabundið) að velli ekki færri en níu leikmenn íslenska liðsins á hinu stórkostlega handboltamóti í Ungverjalandi. Það er auðvitað bara stórkostlegt fyrir hvað það er skemmtilegt en forkastanlegt fyrir hvað mótshaldarar standa illa að því.
En leikmennirnir sem dúsa nú í einangrun með félagsskap af veirunni eru ekki veikari en hinn spræki lýsandi Einar Örn Jónsson sem lýsti af sömu einurð og allajafna, fékk sér bara aðeins meira heitt vatn og hunang.
Ef menn mega hópast saman í eina höll í einu landi og fyrirfram er vitað að múgur manna mun handfjatla sama boltann ættu þeir að fá að spila nema þeir veikist og treysti sér ekki í leikinn. Maður hefur nú séð þá nokkra haltra á fjórðungi fótar en þá eru þeir spreyjaðir og látnir endast út leikinn.
Nú finnst mér nóg komið - en mun sjálf auðvitað fara áfram að lögum og reglugerðum. Hef bara verið svívirðilega heppin með sjálfa mig og mitt athafnalíf gjörvöll tvö árin.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.