Sunnudagur, 30. janúar 2022
Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann
Ég veit ekkert um SÁÁ, ég þurfti meira að segja að fletta því upp núna til að sjá hvar þau væru til húsa. Ég trúi að samtökin hafi hjálpað mörgum að brjótast út úr vítahring og verið lífsbjargandi, eins og það var orðað í Vikulokunum í gærmorgun.
En ég á alkóhólskemmdan bróður sem hefur verið í einhverjum samtökum, AA og líklega víðar. Einhvern tímann fyrir mitt minni var ég með í bíl að keyra hann á Vog. Hann drekkur ekki lengur áfengi en hann er núna narsissisti og búinn að ræna, rupla og ljúga sig frá okkur systkinunum. Kannski var hann alltaf narsissisti en kannski var sjálfhverfan alin upp í honum í einhverjum samtökum. Ég þekki sjálf enga jafn sjálfselska manneskju og hann og ég þekki engan annan vel sem hefur verið í sjálfshjálp í 40 ár. Mín mistök í 30 ár voru að halda að hægt væri að hjálpa honum til að verða almennileg manneskja. Hann hefur bara engan áhuga á því, hann vill bara mergsjúga og blóðmjólka fólkið í kringum sig. Allir meintir vinir hans síðustu þrjú, fjögur árin eru fólk sem þekkir hann ekki í raun vegna þess að eins og siðblindra er háttur getur hann komið vel fyrir í skamma stund.
En hann drekkur ekki lengur áfengi og hefur lengi haldið sig frá því. Er þá áfengisvarnastarfið ekki búið að standa sig vel?
Hann var drykkfelldur á æviskeiðinu 11-24 ára og það er tímabil sem ég man ekki gjörla eftir nema svona skítsæmilega síðustu fimm þeirra. Hann er sem sagt búinn að vera þurr alki megnið af fullorðinsævi minni, búinn með sporin, hefur sótt fundi ... en ekki bætt sig. Mesti harmurinn er að mamma og pabbi voru alla tíð á nálum yfir að hann félli og hlóðu þess vegna undir hann.
Kannski eru SÁÁ lífsbjargandi samtök en þau björguðu mér ekki frá því að blindast af fjölskyldukærleik gagnvart snarveikum bróður. Engu sé ég meira eftir í lífinu en að hafa trúað lygunum úr honum. Ég réð bara ekki við ástandið og vissi ekki að ég væri hjálparþurfi. Nú er hann bara ekki lengur í lífi okkar systkina og það er blessun svo langt sem það nær.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.