Mánudagur, 25. júlí 2022
Okrið í Bláa lóninu
Ég er ekki blönk og get alveg séð af 1.290 kr. í vitleysu. Sum vitleysa ríður þó ekki við einteyming og gerir manni gramt í geði.
Ég lét, í miklu hallæri ferðaþjónustunnar, til leiðast að fara sem leiðsögumaður í ágæta ferð með fína Bandaríkjamenn. Ég er leiðsöguskólagengin og með 20 ára reynslu en gafst upp á sprungnum innviðum áður en Covid bankaði á. Hallærið sem ég vísa í er að fólk fæst ekki til starfa sem stafar sjálfsagt af ýmsu, m.a. miklu vinnuálagi og afleitum kjörum.
Hæsti umsamdi taxti leiðsögumanna er sem hér segir:
Dagvinnutími: 2.748
Eftirvinnutími: 4.638
Hátíðartími: 6.141
Tek fram að þetta er launþegataxti en ekki verktakataxti sem gerir þetta sjónarmun skárra af því að ofan á þetta leggst orlof og leiðsögumaður er tryggður af þeim sem ræður hann í vinnu.
Í dag fór ég með gestina í Bláa lónið. Ég var í mínu fyrra lífi hætt að fara ofan í en þetta er þannig hópur að ég og við bæði tvö sem erum með hópinn fórum í lónið. Kostur var að lónið var ekki eins þétt setið og mér fannst á árum áður og það var ekki brjálæðislega heitt. Sólin skein og hópurinn var skemmtilegur. Innifalið í miðanum, sem kostar skv. heimasíðu Bláa lónsins, 12.990 kr. var maski (kísillinn) og drykkur. Ég fékk mér lítið glas af spínatdrykk enda klukkan orðin 14:30 og ég hafði bara borðað tvær brauðsneiðar í morgunmat heima hjá mér og drukkið vatn með og reyndar borðað einn ís með farþegunum kl. 11. Annars búin að vera á hraðri siglingu frá kl. 8:15.
Þegar við fórum upp úr lóninu átti að rukka mig fyrir spínatdrykkinn. Ég og hinn leiðsögumaðurinn útskýrðum fyrir starfsmanninum að við værum með hóp og okkar miði væri þegar greiddur. En, nei, það var ekki tauti komandi við starfsmanninn og frekar en að vera með uppistand sem kostaði korter borgaði ég drykkinn. Hann kostaði 1.290 kr. og var fjórir sopar, ekki einu sinni gúlsopar. Ágætlega bragðgóður drykkur en stóð ekki undir neinu.
Ég er öskureið og tek það út hér en ekki á mínum góðu túristum. Af skömmum mínum skokkaði ég snarlega upp í staffakaffið sem áður var og þar voru fjórar samanherptar brauðsneiðar og botnfylli af tómatsúpu.
Ég er á því að maður eigi að borga fyrir matinn sinn og rukka ferðaskrifstofuna, en þarna var ég í þeirri góðu trú að ég mætti fá mér drykk með farþegunum sem ég fylgdi. Græðgin, sbr. verðlagninguna, held ég að verði ferðaþjónustunni að falli og þegar skortur á fagmennstu leggst ofan á er það næsta öruggt. Ég er 99,9% viss um að ég mun aftur bakka út úr ferðaþjónustunni úr því að innviðauppbyggingin miðar öll að því að hámarka gróða nokkurra eigenda.
Annars bara spræk og sólkysst eftir daginn.
Athugasemdir
Það eru nokkuð mörg ár síðan ég og margt annað venjulegt fólk hætti að fara í Bláa lónið, verðið er ekki við mitt hæfi, eða öllu heldur finnst mér heimsóknin ekki 13 þús. króna virði. Ferðagjöfin gilti þar amk etthvert árið, ég spurðist fyrir um verð, minnir að það hafi verið rúmar 9 þús. svo ég þakkaði bara fyrir.
Spínatdrykkurinn hlýtur að hafa verið stútfullur af allskonar andoxunarefnum og vítamínum.
Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir (IP-tala skráð) 27.7.2022 kl. 17:19
Tjah, kannski var eitthvað saman við hann, ég er búin að dansa á bílþökum síðan, hoho.
Berglind Steinsdóttir, 27.7.2022 kl. 21:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.