Stjórnsemi markaðarins - hæp yfir auglýsingu

Ég sá ekki mikið umtalaða bílaauglýsingu á gamlaárskvöld en sá seinna vísað í hana eins og hún hefði verið skets í skaupinu.

Ég horfði þá.

Vel gerð auglýsing, upp á það vantar ekkert.

En öll hrópin og köllin sem ég hef séð um virðingu við þann sem er að hætta sem rödd fyrirtækisins eftir 30 ár koma mér stórkostlega á óvart. Ég fæ ekki stjörnur í augun yfir markaðsöflunum en ég fæ iðulega tár í augun yfir veikindum og vanlíðan fólks og dýra. Ég hef djúpa samúð með Agli eins og öðrum sem missa færni og hef, eins og aðrir, hlustað og horft á Stuðmenn mér til ómældrar ánægju. 

Mér finnst bara algjör óþarfi að blanda þessu tvennu saman.

Miðað við athyglina hlýtur Toyota núna að rokselja bíla og í framhaldinu lækka verð vegna góðrar afkomu og ÞÁ vil ég fá auglýsingu með upplýsingum sem skipta máli.

Á velþóknunarhringekjuna vegna auglýsingarinnar sjálfrar get ég ekki stokkið.

Í öllum upphrópununum yfir fegurð auglýsingarinnar sá ég einn mann skrifa að Toyota væri sértrúarsöfnuður og Egill preláti og ég leyfi mér að giska á að fæstir þori að skrifa það eða læka vegna þess að fólk blandar saman veikindum og vinnu, kvikmyndalist og markaðssetningu.

Ég vona að mér hafi tekist að segja skýrt og skorinort hvað mér finnst þannig að enginn fari að bera mér á brýn að ég hafi ekki samúð með manni sem veikist, missir röddina, vinnufærni og hvaðeina. Ég skil bara ekki hæpið yfir auglýsingunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband