Þriðjudagur, 10. janúar 2023
Fiskari, farsími og fleiri orð
Orðið fiskari truflar mig ekki neitt og ég tilheyri ábyggilega stærsta hópnum þar. Hins vegar hefur ýmist fólk tjáð sig, líka í mínu nærumhverfi, og þá með orðalaginu:
Stöðugt er vegið að íslenskunni.
Okkur er aldrei sagt neitt.
Ekkert er borið undir okkur.
Ég: Ha? Í hvaða heimi er allt fólk eða helmingur fólks spurður um einstaka orð, nýyrði eða upptöku gamalla orða? Ég man að vísu eftir samkeppni um orð fyrir sixpack en ég man ekki hvaða orð vann. Ég held að flestir tali um kippu en þori ekki að sverja fyrir það.
Notum við ekki orðið tölvu fyrir það fyrirbæri? Það er snjöll orðmyndun.
Hvað með símann sem er ekki lengur snúrusími og fastur við vegg? Ég kalla hann farsíma af því að mér finnst það orð lýsandi og nógu þjált en þið flest talið um gemsa. Ég veit alltaf hvað þið eruð að tala um og geri enga athugasemd við það en ég ætla ekki að breyta mínu orði í bráð.
Sem betur fer er tungumálið fjölbreytilegt og breytanlegt. Fiskari er ekki gott dæmi um orð sem eykur á nýbreytni en er tilraun til að hlutleysa starfið og orðið er svokallað íðorð, fagheiti. Og út frá orðhlutum fellur það í flokk með dansara, grúskara, fúskara, safnara - bætið sjálf við að vild.
Við sem viljum veg íslenskunnar sem mestan ættum að vanda okkar eigið mál og gera okkar besta til að halda lífi í henni. Erlend áhrif, aðallega frá ensku, eru úti um allt í umhverfi okkar. Hvað heyra börnin sem fæðast árið 2023? Er það ísl-enska og ef svo er, hvaða tungumál munu þau þá tala um tvítugt?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.