Sunnudagur, 15. janúar 2023
Frí(ís)skápur gegn matarsóun
Fyrir tveimur árum hófst sjálfsprottið átak gegn matarsóun með frí(ís)skápnum á Bergþórugötu. Kamila og Marco voru útnefnd Reykvíkingar ársins í fyrra fyrir að koma verkefninu á koppinn. Verkefnið gengur út á að sporna við matarsóun.
Þriðjungur matvælaframleiðslu lendir í ruslinu. Þriðja hvert lambalæri, þriðji hver mjólkurpottur, þriðji hver hveitipoki, þriðja hver chili-sultukrukka, þriðja hver paprika, þriðja hver kókflaska - ég veit svo sem ekki hvernig meðaltalið í þessu virkar en spyr: Getur sykur runnið út? Sykur hefur verið til í aldir, svo er honum pakkað og hann hefur allt í einu bara tveggja ára líftíma. Og hvað gerist daginn eftir að best fyrir rennur upp?
Við þurfum náttúrlega að beita hyggjuvitinu líka og lyktarskyninu en ekki líta bara á dagsetninguna og henda svo matnum. Hefur einhver dáið af því að nota útrunnið krydd? Nei, bragðið dofnar bara aðeins þannig að í stað þess að nota eina teskeið af karríi notar maður tvær.
Ég veit ekki í hvaða gáma stórverslanir henda meinta útrunna matnum sínum en einhverjir hafa líka staðið sig vel í að bjarga þeim mat frá bráðri glötun og setja í fríísskápana sem hafa nú fjölgað sér. Meðvituð fyrirtæki eru líka farin að gefa matnum framhaldslíf þegar búðinni er lokað og á það ekki síst við um vörur sem eru í alvörunni með skamman líftíma, eins og bakkelsi (Brauð og kó) og nýkreista safa (Ketóeldhúsið).
Í fyrradag leit ég í ísskápinn við Neskirkju þegar ég fór þangað með krukkur undir súpur sem súpugerðarkonan setur súpur í og við mér blöstu margar 33 sentilítra flöskur af nýkreistum safa með dagsetningu sama dag. Ég tók með mér eina af hvorri tegund, engiferdrykk og mangódrykk, og sagði svo frá því í sólarhringssögunni á Facebook. Í gær var mér bent á að þetta liti út eins og ég væri að - ég man ekki hvað - misnota eða eitthvað af því að ég hefði efni á að kaupa matinn minn.
Mér hafði ekki hugkvæmst það vegna þess að við erum öll í sama liðinu við að reyna að henda minna af mat. Hins vegar hugsaði ég þegar ég drakk með ánægju engiferdrykkinn að ég væri til í að beina viðskiptum mínum til fyrirtækis sem tæki á þennan ábyrga hátt þátt í hringrásinni. Ég hef sjálf vott af fordómum gagnvart því að fólk sem þarf ekki á því að halda þiggi svona fyrir ekki neitt - en hver er svona viss um að maður gefi ekki til baka? Á maður að nota ferðina til að segja að maður styrki Kvennaathvarfið, Samhjálp, UNIFEM og Rauða krossinn með peningainnlögnum?
Nei, hringrásin er sjálfstætt verkefni og við viljum ekki að matur lendi í ruslinu. Það verða alltaf einhverjir sem leggja hlutina út á verri veg og ég get ekki borið ábyrgð á skilningi allra. Og þau sem lesa þessa hugleiðingu hér eru kannski alls ekki í vinahópnum mínum á Facebook.
#gegnmatarsóun
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.