Þriðjudagur, 7. febrúar 2023
Arfur barnabarnanna?
Fyrir ekki svo löngu sagðist kunningjakona mín vera félagsmaður í EAB, félaginu Eyðum arfi barnanna, sem fundar aldrei og hefur engin félagsgjöld. Þau hjónin eru rúmlega sextug og eru farin að huga að starfslokum og ætla svo að flækjast um og hafa gaman og reikna svo með að þegar þau falla frá erfi börnin íbúðina sem þau eiga skuldlausa.
Svo hlustaði ég á viðtal við mann sem leggur til að við arfleiðum barnabörnin frekar en börnin. Ég hlustaði ekki nógu mikið á smáa letrið en geri ráð fyrir að hann sé að hugsa um lagalegu hliðina og e.t.v. erfðafjárskatt sem sé þá greiddur í annað hvert skipti, svo að segja. Þarna er auðvitað gengið út frá því að fólk eigi börn og barnabörn og að góður samgangur sé á milli hlutaðeigandi. Svo er nú líka sagt að maður þekki fólk ekki fyrr en maður hefur skipt með því arfi.
Mín hugmynd er að aflögufært fólk liðsinni börnum sínum og/eða barnabörnum alla ævi. Mér finnst samt að allt fólk eigi að þurfa að hafa svolítið fyrir hlutunum. Ég held að við kunnum ekki nógu vel að meta það sem við fáum fyrirhafnarlaust upp í hendurnar.
En aðallega finnst mér að fólk eigi að njóta eigin erfiðis eins og það kýs helst og reyna að hafa gaman af lífinu þangað til því lýkur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.