Eldsneytisþurrð

Ég er eiginhagsmunaseggur eins og við flest. Ég gisti ekki á hótelunum í Reykjavík og ég seldi bílinn minn um helgina enda hafði ég ekki hreyft hann í rúma tvo mánuði, frá því að ég lét skoða hann síðast. Ég fer allra minna ferða hjólandi og gangandi nema þegar ég stöku sinnum fæ far með öðrum. 

Yfirvofandi bensínþurrð káfar því ekkert upp á mig. Ég skil að barnafólk sem þarf að fara langar leiðir til að koma börnunum sínum í skóla og aðrar langar leiðir til að komast í vinnu og verslanir kippi sér upp við yfirvofandi skort en mikið væri nú gaman að fólk í þeirri stöðu - og allt fólk - íhugaði mikilvægi þeirra starfsmanna sem sjá okkur fyrir grunnþörfunum. Ef samfélagið fer á hliðina í nokkra daga þegar hótelþernur og olíubílstjórar leggja niður störf en enginn tæki eftir því þótt framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins færi til Kanada og kæmi heim eftir fjóra mánuði ... þarf ég að segja meira?

Ég veit ekki öll laun allra en það er grundvallaratriði að bera saman grunnlaun stétta og einstaklinga, ekki heildarlaun með ómanneskjulegri yfirvinnu, langdvölum frá heimili og hættulegu starfi. Og kannski ég skjóti því hér inn að búið er semja við leiðsögumenn um smáaura: 

Niðurstaðan er á þann veg að já sögðu 42, eða 67,74 %, nei sögðu 19, eða 30,65%, og einn tók ekki afstöðu eða 1,61%. Niðurstaðan er því skýr. Kjarasamningurinn hefur verið samþykkur.

42 leiðsögumenn samþykktu samninginn fyrir hönd allra þeirra sem þiggja laun eftir honum og ég get sagt að laun eru greidd eftir samningnum. Sárafáir leiðsögumenn eru yfirborgaðir eða voru það a.m.k. meðan ég var í stéttinni. Samt eigum við að vera altalandi, líka með öll fagorð, á erlendu tungumáli, sérfróð um allt sem fólk gæti langað að vita, við eigum að skemmta, hugga og helst alltaf að vera til taks í hringferðunum. Leiðsögmenn fara vissulega upp í milljón á mánuði með stöðugri viðveru og taka sér síðan einhverja daga í að hvíla sig og safna kröftum eftir törnina. En að vísu er engin lífsógn fólgin í syfjuðum leiðsögumanni, ólíkt vansvefta bílstjóra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband