Óöldin

Ég þyrfti að setja sjálfa mig í fréttabann en ég held áfram að kvelja mig mörgum sinnum á dag. Hrokinn sem lekur af auðvaldinu er svo yfirgengilegur að mig verkjar í hjartað og sálina og er ég þó frekar laus við væmni allajafna.

Hvernig er hægt að vera með 4,3 milljónir á mánuði og leyfa sér að koma í viðtal með uppgerðarmærðarsvip og þykjast hafa samúð með Eflingarfólki sem fái ekki úr mjóslegnum vinnudeilusjóði? Sá mærðarlegi hefur meira vald en flestir til að breyta rétt gagnvart þessum hópi sem hann gerir sér upp samúð gagnvart.

Ég trúi því að margir hóteleigendur og bensínsalar vilji borga starfsfólkinu sínu mannsæmandi laun og þess vegna trúi ég ekki að stóri hópurinn greiði atkvæði með verkbanni.

Ætlið þið annars að segja mér að næsta skref sé lög á verkfall? Ég tek út fyrir svo mikið sem að skrifa þetta og ég neita að trúa því fyrr en í fulla hnefana.

Ég man verkfallið 1984. Þá fór húsvörðurinn í menntaskólanum í verkfall, ekki kennarar heldur bara einn lykilmaður í húsinu, og mig minnir að mjólkin hafi líka farið í verkfall. Þá var hún líklega enn seld í sérstökum mjólkurbúðum og gott ef hún var ekki í þríhyrndum umbúðum.

Það er viðurkenndur réttur fólks að berjast fyrir bættum kjörum sínum og sýna fram á mikilvægi starfsins sem það gegnir. Og þið vitið hvaða fólk tæki eftir því ef framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins færi í verkfall. Börnin hans sem hann myndi horfa aðeins oftar á Hvolpasveitina með. Ekki sála á vinnumarkaði eða sála í leit að þjónustu. ENGINN myndi sakna hans nema kannski fólkið við kaffivélina í Borgartúninu.

Afsakið að ég skuli vaða í persónuna en baráttan gegn sanngirni hefur bara verið persónugerð af honum sjálfum þannig að það er erfitt að aðskilja nefið og augun. Þið vitið: Náið er nef augum.

Ég væri innilega til í að víkja helstu persónum af sviðinu og láta málefnin takast á. Er sanngjarnt að fólk sé matvinnungar? 

Svari hver fyrir sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband