Meint viðskiptavild Arion banka

Við vitum að íslenskir bankar starfa í fákeppnisumhverfi. Þeir þurfa ekkert að hafa fyrir því að halda í meinta viðskiptavini sína vegna þess að hinir bankarnir stunda líka sjálftöku.

Ég á húsbréf upp á tæpa milljón. Ég erfði það og það mallar bara í bankanum. Engin fyrirhöfn fyrir mig og engin fyrirhöfn fyrir bankann, bankann sem skammtar sér vaxtamun og þjónustugjöld. Í síðustu viku fékk ég kröfu í heimabankann upp á 2.000 kr. Eins og þið vitið er ég aflögufær um 2.000 krónur, ég var að segja að tæp milljón lægi bara í bankanum þangað til síðar, en ég fékk enga skýringu á þessu vörslugjaldi - aðra en orðið vörslugjald.

Ég sendi Arion banka tölvupóst (og þurfti að giska á netfangið enda er það hvorki á heimasíðu bankans né í símaskrá) og spurði hvort hann hefði heimild fyrir þessari gjaldtöku. Ég fékk loðmullulegt svar samdægurs með almennri vísan í að ég hefði samþykkt skilmála um verðskrá bankans.

Löglegt en siðlaust, sagði Vilmundur heitinn á sínum tíma. Það eru allar líkur á því að Arion banki (og ugglaust hinir bankarnir líka) hafi lagastoð fyrir gjaldheimtunni en hann hefur alveg misst af samfélagsumræðunni. Og hvað haldið þið nú að mörg greiði þessa kröfu án þess að líta á fyrirsögnina eða viti hvað þau eru að greiða? Bankinn ætlar sem sagt að rukka mig um 4.000 kr. á ári fyrir enga þjónustu við að varsla húsbréfið mitt, svona rétt eins og hann rukkar bæði árgjald og mánaðargjald fyrir greiðslukortin okkar sem fyrirtækin borga fyrir að fá að skuldfæra hjá okkur og hleypa auðvitað kostnaðinum út í verðlagið fyrir alla neytendur. Arion banki býður aldrei upp á skýringar, enga viðskiptavináttu, bara sjálftöku, nýjar línur, ný nöfn, nýja gjaldheimtu, gamlan belg. Og samkeppnin er engin, ekki einu sinni frá Indó sem ég held að geti orðið fín viðbót en er ekki í þessum verkum.

Ég er orðin langþreytt á spillingunni. Hef ég val um aðra þjónustu? Ég reyndi að fá svar við þeirri spurningu en starfsmaður Arion banka skautaði framhjá henni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Blasir ekki einfaldasta lausnin við, að geyma bara bréfið sjálf og hætta að borga bankanum fyrir það?

Guðmundur Ásgeirsson, 26.3.2023 kl. 18:19

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ég veit það ekki. Við spurðum en bankinn náði ekki að svara í fyrstu atrennu. Er það það sem fólk gerir almennt við peningana sína? Mér finnst það hljóma óráðlegt en kannski svarar bankinn fyrir 1. apríl þegar eindagi er.

Berglind Steinsdóttir, 26.3.2023 kl. 21:20

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég skildi það sem svo að þetta væri húsbréf en ekki peningar.

Er nokkuð því til fyrirstöðu að geyma húsbréfið sjálf?

Bankarnir eru þekktir fyrir að týna svona pappírum. Þeir týndu til dæmis fullt af skuldabréfum í hruninu en héldu samt áfram að innheimta þau hjá útgefendum þeirra án þess að þeir hefðu rétt á því.

Ég myndi að minnsta kosti fara í heimsókn í bankann og fá að sjá bréfið til að vera viss um að bankinn sé ekki búinn að týna því líka.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.3.2023 kl. 21:55

4 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Ágætur punktur hjá þér. Það er samt vaxtaberandi og einhverjir aurar millifærðir á annan reikning hjá mér á þriggja mánaða fresti. Ég held að það sé óvefengjanlega til. Fer samt líklega í bankann að hrella þau í vikunni.

Berglind Steinsdóttir, 26.3.2023 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband