Mánudagur, 27. mars 2023
Edda Falak
Ég veit ekkert hvað er satt í ferilskrá Eddu Falak og get því ekki tekið afstöðu til hennar og þess sem hún hefur tekið sér fyrir hendur á launavettvangi. Allt sómakært fólk er sammála um að maður eigi ekki að ljúga en samt skreytir það, fegrar sjálft sig, færir í stílinn og misstígur sig. Á Twitter er myllumerkið #afsakið núna og fólk rifjar upp ferilskrár, atvinnuviðtöl, ný kynni og ýmislegt sem það er ekki endilega hreykið af en fólki finnst samt meinlaust. Maður á ekki að stela en samt hefur fólk tekið með sér merkta bolla af vinnustöðum, merktar flíkur og alls konar sem það hefur getað nýtt en ekki endilega þau sem á eftir komu.
Sigmundur Davíð sagði ekki alveg satt um doktorsnámið sitt þegar hann skilaði Alþingi ferilskrá og ekki Smári McCarthy heldur og vel á minnst, þegar ég sótti um núverandi starf sagðist ég vera þýðingafræðingur en átti eftir að skila ritgerðinni sem var á lokametrunum. Ég var lækkuð um launaflokk þegar við áttuðum okkur á mistökunum og svo fékk ég hann aftur nokkrum mánuðum síðar þegar ritgerðin hafði verið samþykkt. Það munaði alveg 15.000 kr. brúttó, svo mikils er menntun metin.
Einu sinni bjó ég í þríbýlishúsi í miðbænum. Í kjallaranum bjó smákrimmi sem faldi sig á bak við pabba sinn þegar ég rukkaði vegna sameiginlegs hita en reikningurinn barst alltaf til mín. Ég veit ekki hvar hann heldur sig núna en pabbi hans var stórkrimmi og er nú látinn. Á miðhæðinni bjó mektarkona í áberandi starfi og af virðulegum ættum. Einhverju sinni var fram af okkur gengið út af djammlátum í hverfinu og við ákváðum að skrifa saman bréf til lögreglunnar eða einhvers fjölmiðils, ég man ekki lengur hver átti að fá bréfið. Hún byrjaði á að telja saman ár og ýkti svo hroðalega að mér féll allur ketill í eld. Ég sagði, og ég meinti það og meina enn: Við verðum að fara rétt með, það er ekki trúverðugt ef það er augljós staðreyndavilla í því sem sendum frá okkur.
Og það er enn mín bjargfasta meining. Hins vegar vitum við öll að menn fara út af sporinu í góðri trú og góðri meiningu. Og ef við ætlum að fordæma eina fjöður fyrir að sækja sér aukavind til að komast framhjá digurri grein verðum við að vera sjálfum okkur samkvæm og fordæma alla sem sambærilegar villur opinberast hjá - og auðvitað alls ekki gera okkur sek um neinar missagnir.
Loks vil ég rifja upp að þegar fréttin af ferilskrá Eddu Falak komst í hámæli vantaði miklar grunnupplýsingar, það sem ég hef fyrst og fremst séð er æsingur og flumbrugangur á báða bóga. Ég veit ekki enn hvar hún vann (ekki) og hver var (ekki) ágengur við hana. Ég fletti hins vegar upp áðan og sá að virðulega jafnaldra mín sem bjó á miðhæðinni er gift Íslendingi í Bretlandi og búin að skipta um nafn. Hvað er hún að fela?
Og talandi um réttar og sléttar lygar og afvegaleiðingu má benda á þessa umfjöllun um erlent kjöt sem er flutt inn og pakkað í íslenskar umbúðir - til þess eins að blekkja neytendur og græða á þeim. Hvað gott vakir fyrir þeim fyrirtækjum? Eru þau kannski að búa til farveg svo fólk geti losnað undan oki og fengið líf sitt til baka eins og við erum mörg sammála um að Eddu Falak hafi tekist með því að gefa bældum röddum meira vægi? Nei, ég held að þessi kjötfyrirtæki vilji skara eld að eigin ... kjöti.
Athugasemdir
Þegar hundur fer yfir mörkin og bítur fólk
þá er honum lógað
Einfaldlega vegna þess að hafi hann einu sinni farið yfir mörkin
þá mun hann gera það aftur
Er þetta ekki eins með lygina - fólk sem byrjar að ljúga
heldur því áfram
Grímur Kjartansson, 27.3.2023 kl. 21:41
Ég er ekki viss, Grímur. Hefur þú logið, einhvern tímann um eitthvað? Ef já, áttu þér þá enga málsvörn? Aldrei? Má skilja þig þannig að þú værir þá réttdræpur? Og hver ætti að taka það að sér?
Berglind Steinsdóttir, 27.3.2023 kl. 22:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.