Föstudagur, 12. maí 2023
Arion banki og vörslugjöldin hans
Arion banki misbauð mér um daginn þegar hann ákvað fyrirvaralaust og án nokkurrar tilkynningar að gjaldfæra 2.000 kr. í heimabankanum mínum með tveimur orðum: Vörslugjald. Viðskipti. Þetta reyndist vera rukkun fyrir að varsla húsbréfið mitt og ég fann það út sjálf. Ég skrifaði Arion banka og fékk þetta staðfest.
Ég greiddi reikninginn á gjalddaga en 10 dögum síðar leit enn út í heimabankanum eins og ég hefði ekki greitt hann. Þar sem ég er vandræðalega skilvís skrifaði ég Arion banka aftur og fékk línuna fjarlægða.
En þessir sífelldu eftirgangsmunir gerðu það að verkum að ég skoðaði söguna betur og sá þá að ég hafði verið rukkuð um 500 kr. í hvert skipti sem húsbréfið mitt var dregið út, fjórum sinnum á ári. Bankinn notaði því tækifærið og hækkaði gjaldskrána sína um 100% þegar rukkunin var tekin út úr sjálfvirku færslunni og gerð að sérstakri rukkkun.
4 x 500 kr. = 2.000 kr.
Nú mun ég fá rukkun tvisvar á ári upp á 2.000 kr.
2 x 2.000 kr. = 4.000 kr.
Geta launþegar hækkað launin sín um 100% án þess svo mikið sem að ræða við greiðandann?
Reyndar leit þetta svona út en ég skrifaði Arion enn og fékk það svar að útdráttargjaldið hefði alltaf verið. Þið þekkið þessa klassík, bankinn deplar ekki augum án þess að rukka sérstaklega fyrir það.
Um páskana var frétt á RÚV um svívirðilegar rukkanir þriggja stærstu bankanna en vegna fákeppni eru hendur okkar neytenda bundnar. Ég hef verið í viðskiptum við Arion banka, áður Búnaðarbanka, síðan ég var í reifum og eina ástæðan fyrir því að ég hef ekki fært öll mín viðskipti þaðan er sú að hinir stóru bankarnir eru ekki til að hrópa húrra fyrir. Meðan sparisjóðirnir voru og hétu flutti ég mig þangað en í hruninu var ég hreppaflutt aftur í Arion banka. Ég hef reynt við bæði Íslandsbanka og Landsbanka en þar hef ég líka gripið í tómt. Kannski virkar nýja ávöxtunarleiðin Ávöxtun hjá Íslandsbanka. Ég er þar núna til prufu. Já, ég á dálítið sparifé, svo það sé játað.
Ég sé ekki að Indó henti mér þannig að ég hef staldrað við í Kviku. Auðvitað finnst mér eðlilegt að fólk fái laun fyrir vinnuna sína og líka að fólk sem tekur áhættu geti uppskorið ríkulega. En á það við um stærstu viðskiptabanka Íslands?
Arion hagnaðist um 25,4 milljarða í fyrra.
Heimildin hefur líka tekið saman hagnaðartölur bankanna á síðasta ári.
Og ég leyfi mér að segja að bankarnir græði ekki á hyggjuviti, frumkvæði, sköpun eða einfaldri framleiðni. Nei, þeir græða á fákeppni og lagaumhverfi sem er neytendum óhagstætt.
Og vitið þið hvað? Ég skulda Arion ekki krónu en guð hjálpi þeim sem eru enn að koma yfir sig húsnæði og eru með húsnæðislán. Þar er greinilega áhættufjárfesting á ferðinni.
Fruss.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.