Brotaþoli, þolandi, fórnarlamb, gerandi og svo meðvirkni

Ég missti næstum málið og orkuna þegar ég hlustaði áðan á viðtal sem var tekið á Bylgjunni á föstudaginn. Ég hef enga skoðun á Gylfa, er enginn sérstakur áhugamaður um fótbolta en ákvað samt fyrir löngu að halda með Everton í enska boltanum, og hef ómælda samúð með aðstandendum hans og öllum þolendum allra glæpa, hvort sem er af hálfu fólks eða kerfis.

En, gott fólk, tvö ár af lífi ALLRA eru löng tvö ár. Tvö ár af vinnu, ferðafrelsi, félagslífi, orðspori. Ég hef lesið ógrynni af sögum um þolendur sem hafa ekki treyst sér út úr húsi, gerandi setið um þolandann heima hjá sér, kyrrsett þolanda og auðvitað barið, niðurlægt og talið trú um að væri einskis virði.

Ég veit ekki til þess að ég þekki þolendur persónulega en þolendur bera heldur ekki allir harm sinn utan á sér. Ég get sagt hér og nú að ég hef sloppið vel í gegnum lífið og fæddist sennilega í bómull.

Í gærkvöldi horfði ég á magnaða bíómynd á RÚV sem var um ýmis samskipti og m.a. um stafrænt ofbeldi. Þar var menntaskólanemi, strákur í þetta skipti, sem galt mögulega fyrir ofbeldið með lífi sínu, a.m.k. bæði tíma og heilsu.

Ég efast ekki um að Gylfa Sigurðssyni sé margt vel gefið, meira en fótboltahæfileikar meina ég þá, en flóðbylgjan sem upphófst í fjölmiðlum þegar lögreglan í Bretlandi ákvað að ákæra hann ekki eftir tæplega tveggja ára rannsókn gekk alveg fram af mér. Það sannar alls ekki að hann hafi aldrei misstigið sig. Bróðir minn stal af mér og foreldrum okkar peningum, ég ákærði hann ekki, reyndi bara að höfða til samvisku hans sem hann reyndist enga hafa, en þótt ég hafi ekki farið neina kæruleið og þar af leiðandi hafi ekkert sannast á hann að lögum stal hann samt peningunum. Ég veit það, hann veit það, lögfræðingurinn sem hann réð sér til að verjast mér og systkinum okkar veit það - en er hann saklaus af því að ég kærði hann ekki?

Saklaus uns sekt er sönnuð er réttarfarslegt hugtak og sannar hvorki né afsannar gjörðir fólks.

Ég veit að ég sit hér ofan á - sem betur fer - bylgju þeirra sem taka upp þykkjuna fyrir þolendur sem sjá sjaldnast framan í réttlætið en mér er svo stórkostlega misboðið þegar menn tala um a) að menn SÉU almennt saklausir uns sekt er sönnuð, b) þolanda kerfis í sama orðinu og þolanda hroðalegustu ofbeldisglæpa sem ræna fólk tíma, orku, heilsu, geði, framtíð og peningum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband