Miðvikudagur, 3. maí 2023
Ristillinn ræstur - reynslusaga
Í þessari frásögn kemur ekkert fram sem er bannað fyrir viðkvæma eða teprur.
Í janúar sagði vinkona mín, 47 ára gömul, frá því að hún hefði drifið sig í ristilspeglun rétt fyrir jól, reynst vera með eitthvað grasserandi í ristlinum og var drifin akút í aðgerð. Hún vildi með frásögn sinni brýna fyrir fólki að sofa ekki á verðinum.
Ristil- og endaþarmskrabbamein er næstalgengasta krabbameinið á Íslandi og alltof margir deyja úr því. Ég veit um mann sem dó fyrir fimmtugt úr ristilkrabbameini af því að meinið uppgötvaðist of seint.
Ég tók hana á orðinu, hringdi í Læknastöðina og fékk tíma 3. maí. Ég fékk sendan tölvupóst með leiðbeiningum um hvernig ég ætti að undirbúa mig. Aðalundirbúningurinn er að tæma ristilinn svo hægt sé að spegla hann. En hvað þýðir það?
Það þýðir að vikuna fyrir speglunina þarf maður að passa mataræðið vel, borða engar trefjar og engin heil fræ. Síðustu tvo dagana þarf maður að fasta, þ.e. vera á fljótandi fæði. Það innifelur soð af súputeningum, síaða kjötsúpu, orkudrykki, te, kaffi og malt/pilsner, já, og maður má sjúga ópal og brjóstsykur. Ég fann rykfallinn kandís sem ég gæddi mér á!
Engum ætti að vera ofviða að sleppa föstum mat í tvo daga og mér var það heldur ekki. En í síðustu viku fór ég að spyrja í kringum mig hvort fólk væri búið að fara og hvernig fastan hefði gengið. Mér kom stórkostlega mikið á óvart að heyra að mjög margir, bæði konur og karlar, í nærumhverfi mínu höfðu farið. Greinilega hefur verið vakning sem fór þó svolítið framhjá mér. En þetta málefni er ekki fýsilegt yfir kaffinu í vinnunni eða í saumaklúbbum þannig að ég var alveg grunlaus.
Nú er ég búin að tempra mataræðið, fasta í tvo daga og láta spegla ristilinn.
Hann var hreinn og læknirinn sagði mér að muna eftir að panta aðra skoðun eftir 8-10 ár sem þýðir þá 2035 hjá gleymnu fólki eins og mér.
En nú kemur að því sem mér finnst líka vanta í umræðuna. PICOPREPPIÐ sem ég þurfti að kaupa, tvö örlítil bréf, og innbyrða til að laxera öllu úr ristlinum, kostaði 4.755 kr. og speglunin sjálf 44.150 kr. (59.704 - 28.554 (hluti sjúkratrygginga) + 13.000 (komugjald)), samtals 48.905 kr. Ég á eftir að athuga hvort stéttarfélagið styrkir svona aðgerð en ég get alveg játað að ég hef efni á þessu.
En er ekki hætta á að einhverjir hópar sleppi þessari brýnu skoðun af efnahagsástæðum? Hvernig getum við boðið upp á það að einföld fyrirbyggjandi skoðun, sem í mínu tilfelli var sem betur fer staðfesting á að allt væri í fínu lagi, kosti allt að 1/6 af mánaðarlegum ráðstöfunartekjum láglaunafólks?
Læknirinn sem skoðaði mig og allt annað starfsfólk stóð sig aldeilis frábærlega, svo það sé sagt. Ég skil bara ekki hvernig við getum talað um heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða ef efnahagur ræður því hvort fólk lætur verða af svona brýnni skoðun.
Og nú á ég fullt af fastri kjötsúpu sem ég þarf að borða næstu daga ...
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.