Sunnudagur, 28. maí 2023
Lokanir og niðurlagningar
Ég er breytingasinni. Sjálfsagt er ég vanaföst á minn hátt en ef einhver starfsemi er dauðadæmd, eftirspurn lítil eða engin og hægt að gera hlutina á hagkvæmari hátt eða sleppa þeim finnst mér sjálfsagt að skoða það.
Ég tók þátt í að innleiða talgreini á Alþingi, vél sem skrifar upp ræður þingmanna. Samsvörunin var komin í rúm 90% þegar ég sagði upp árið 2019 og það þótt ekki hafi verið byrjað að þróa talgreininn fyrr en 2016. Sumir hötuðu þessa breytingu og töluðu um að fólk myndi missa vinnuna. Vissulega varð breyting á starfinu en að mínu mati öll til bóta. Í og með til að enginn missti vinnuna ákvað ég að breyta til og sagði upp. Einhver gáfulegasta ákvörðun sem ég tók þann áratuginn.
Nú er ég í öðru spennandi starfi og reyni hvað ég get til að þróast í því og með því.
En hvatinn að þessu litla pári mínu núna er fréttin sem ég heyrði í útvarpinu í morgun um að búið væri að segja upp öllu starfsfólki Náttúrufræðistofu Kópavogs. Ég heyrði ekki talað um eftirspurn eftir sýningunni, t.d. meðal skólabarna, eða neina þarfagreingingu, aðeins að forstöðumaðurinn væri óhress.
Það má vera að ákvörðunin sé fordæmanleg, en í fréttinni kom ekkert fram sem sannfærði mig um það. Kannski eru pólitíkusarnir að spara nokkrar milljónir til að geta keypt betra með kaffinu, en um það sagði ekkert í fréttinni. Er þetta endilega glötuð ákvörðun?
Og af hverju finn ég ekkert um hana á RÚV?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.