Sunnudagur, 2. júlí 2023
Starfslokasamningur - smjörklípa?
Nú er kallað eftir að stjórn Íslandsbanka birti starfslokasamning fyrrverandi bankastjóra Íslandsbanka. Við erum að tala um bankastjóra sem var með svívirðilega há laun sem ég heyrði engan gera athugasemd við, bankastjóra sem fékk sérstaklega greidda yfirvinnu upp á 11 milljónir fyrir að standa að ólöglegri sölu á hlutum í bankanum - og við hverju býst fólk þegar starfslokasamningur er gerður við hana á grundvelli ráðningarsamnings? Ég giska á 60 milljónir í kveðjugjöf.
Og hvað ætla stjórnmálamenn að gera þegar kveðjugjöfin verður gerð opinber?
Eftirlitskerfið er grútmáttlaust og liðónýtt. Héraðsdómarar eru með um 2 milljónir á mánuði og einhverjir fara á límingunum yfir því en þeim er treyst fyrir miklum réttindamálum. Ég sé reyndar ekki upphæð þingfararkaupsins núna en laun þingmanna held ég að séu undir 2 milljónum á mánuði og ef menn vanda sig og leggja sig fram er starfið mjög tíma- og orkufrekt. Síðan eru bankastjórar og framkvæmdastjórar í bönkum með 4-5 milljónir á mánuði og þeim tekst ekki að fara að lögum í vinnunni!
Ég er búin að stofna reikning hjá Indó. Svo á það fyrirbæri eftir að sýna að það falli ekki í sama fúla pyttinn og bankarnir. Vald spillir og mikið vald spillir mikið þannig að ég er hlynnt valddreifingu. Sjáum hvað setur.
Athugasemdir
Mér finnst ekkert óeðlilegt að héraðsdómarar hafi um 2 milljónir í laun enda er það mikilvægt starf. Það sem skiptir kannski meira máli er að í þau störf veljist fólk sem er nægilega hæft og vant að virðingu sinni til að verðskulda slík laun. Ef það tekst eru launin í lagi.
Þingfararkaup Alþingismanna er nú 1.345.582 kr. fyrir óbreytta þingmenn. Það eru vissulega góð laun, en alls engin "ofurlaun" eins og hjá sumum forstjórum. Þingmenn sem taka á sig auknar skyldur á borð við formennsku í nefndum eða sæti varaforseta og þurfa því að skiptast á um að taka að sér fundarstjórn, fá aukagreiðslur fyrir það ofan á grunnlaunin, en þær greiðslur eru ekkert gríðarlega háar heldur. Hér skiptir líka höfuðmáli að í þau störf veljist fólk sem veldur þeirri ábyrgð sem þeim fylgja og þá er allt í lagi að þau fái smá aukagreiðslur.
Svo má ekki gleyma því að þingstarfið er alls engin venjuleg dagvinna heldur eru vinnudagar oft mjög langir og þau fá ekki greidda neina yfirvinnutíma, sem réttlætir fyrir vikið hærri laun en ella.
Það sem er erfiðara að réttlæta er þegar háttsettir aðilar (oftast forstjórar í einkageiranum) fá hærri árslaun en fólk á lægstu launum nær að vinna fyrir á allri ævinni. Slíkt er engum til sóma.
Guðmundur Ásgeirsson, 2.7.2023 kl. 19:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.