Heimska

Ég er að lesa bók sem heitir Heimska. Hún fær ekki sérlega góðar einkunnir, þar sem ég hef lesið, en ég er ánægð með hana. Ég les hana eins og smásögur, einn kafla á dag, og þar sem ég er í heitu og þurru landi skil ég hana eftir úti á svölum.

Þegar ég fór á fætur í morgun og leit upp á svalir (já, upp hringstigann) var bókin horfin. Ég hafði mávana grunaða eða vindinn en svo reyndist hún hafa lekið aftur fyrir stóran blómapott. En mér finnst ég svolítið heimsk að hafa gónt ofan í húsgrunninn við hliðina á byggingunni í von um að sjá Heimsku bregða þar fyrir.

Mig langar ekki að taka bókina aftur með mér heim en hef ekki rekist á bókasafn hér á Spáni sem myndi fagna henni. Mér finnst óþarfi að eiga margar bækur og allsendis óþarft að eiga aðrar bækur en þær sem höfða eindregið til manns. Og þótt mér finnist sagan af Áka og Lenítu allrar athygli verð er hún ekki eiguleg. Þau eru algjört samtímafólk sem gengst upp í athygli, gjarnan hvort frá öðru en líka frá samfélaginu. Þegar ég leitaði í ofboði að bókinni í morgun bjóst ég næstum við vökulu auga myndavélar að fylgjast með viðbrögðum mínum. En auðvitað var öllum sama, enda er okkur flestum sama um flest fólk.

Við erum föst heima í okkur sjálfum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband