Handboltinn

Ég er stundum forfallinn handboltaáhorfandi og búin að vera það núna í janúar. Ég hefði viljað sjá Ísland fara alla leið en ég bjóst aldrei við því. Ég er umburðarlynd gagnvart mistökum í þessum bransa og röngum ákvörðunum þjálfara. Ég er kannski of umburðarlynd þegar kemur að þessu þar sem hlutaðeigendur eru sannarlega í vinnunni og það ágætlega launaðri vinnu (eða er það ekki örugglega?).

En sem hægur skokkari frá árdögum Reykjavíkurmaraþonsins hef ég stundum sett mér hófleg markmið og samt ekki náð þeim. Og þrátt fyrir það sem ég veit um atvinnumennsku er ég stútfull af skilningi og umburðarlyndi. Og athugum eitt, ef síðasti leikur, gegn heimamönnum Króatíu, hefði tapast með þremur mörkum en ekki sex væri staðan öll önnur. Svona munar nú litlu. Íslenska liðið vann seinni hálfleikinn (í leikhléi var staðan 20-12) og hafði áður unnið fjóra leiki, þar af tvo þá seinni sem flestir bjuggust við að gæti brugðið til beggja vona.

Ég ætla að horfa á Argentínuleikinn í dag og lifa mig inn í hann alla leið vegna þess að í mínum augum er þetta veisla. Stundum fær maður bragðbesta brauðréttinn og stundum uppþornuðu kransakökuna, þetta er samt veisla og ég sendi landsliðinu ómælt knús og sérstakar stuðkveðjur.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og sjö?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband