Látum klinkið um heilsuna

Ég finn alveg sjálf að ég er að festast í baunatalningunni en ég verð að segja þetta samt:

Vinkona mín úr menntaskóla, hjúkrunarfræðingur hokin af reynslu af alls konar hjúkrunarstörfum í ýmsum landshlutum, ákvað að skipta um starf um daginn. Hún fór á ráðningarstofu og fyllti út almenna umsókn og fór svo í viðtal til ráðgjafa. Þegar hún var spurð um launakröfur sagðist hún ekki skipta um starf fyrir minna en 350.000 kr. Ráðgjafinn leit á hana með uppglennt augu og sagði: Þú byrjar ansi hátt.

Já, og því vekst þetta upp fyrir mér að ég horfði á Kastljósið áðan. Þar var, eins og víða annars staðar, spjallað um nýju launahækkunina í Seðlabankanum sem er útskýrð með því að millistjórnendur hjá Seðlabankanum voru farnir að nálgast bankastjórana sjálfa í launum. Sem sagt, kaupandinn (hver?) vill borga fólki miklu hærri laun fyrir að sýsla með peningana en með heilsuna.

Þetta er auðvitað ekki ný frétt. Sjúklingar hvísla en peningar garga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín M. Jóhannsdóttir

Takk fyrir þessi skrif Berglind. 

Ég sat eitt sinn á spjalli við stelpu sem er hagfræðingur og henni fannst það réttætanlegt að hún væri með tvöfalt hærri laun en ég, þrátt fyrir að við hefðum báðar masterspróf, vegna þess að hún var að sýsla með peninga en ég með fólk.

Vinkona mín og ég spurðum þessa stelpu eitt sinn þeirrar spurningar hver ætti skilið að fá lægst laun? Hver ynni síst mikilvægasta starfið? Eftir smá umhugsun sagði hún: Fólk sem grefur skurði. VIð spurðum á móti: Og hvers vegna er þetta fólk að grafa skurði? TIl að leggja símalínu til þín, til að þú getir haft rafmagn, klósett, o.s.frv. Hvar væri bankakerfið án fólksins sem grefur skurðina? Hvar væri kerfið ef kennarar hefðu ekki menntað bankastarfsmennina, kennt þeim að lesa, o.s.frv.? Og hvar væru þeir ef enginn læknaði þá þegar þeir verða veikir? Hvers vegna er þeirra starf mikilvægara en annarra þegna? 

Kristín M. Jóhannsdóttir, 9.6.2007 kl. 18:34

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Jamm. Mér þætti samt líka gaman að vita hver Á að vera með lægsta kaupið. Hvað/hver ræður launamuninum sem nú er talað um að þurfi að vera svo og svo mikill? Þau rök hafa verið notuð um t.d. kennarastéttina að hún sé svo fjölmenn, þess vegna sé ekki hægt að hækka launin eins og vert væri. En eru ekki bankastarfsmenn orðnir gríðarlega fjölmenn stétt? Og enginn hefur hrakið í mín eyru að þar séu engin laun undir 300.000 á mánuði.

Hins vegar kveina margir undan vaxtaokri og háum þjónustugjöldum. Þar lætur fólk líka svína á sér, að hluta vegna þess að það ENGIN ALVÖRUSAMKEPPNI í bankaheiminum.

Í fyrra gerði ég tilboð í íbúð sem á hvíldi hátt og hagstætt lán. Hins vegar var sá galli á gjöf Njarðar að ég hefði orðið að gerast viðskiptavinur KB-banka sem svo hét á þeim tíma. Og ég var ekki tilbúin til að láta átthagabinda mig þannig. Það varð ekki af kaupunum.

Frelsi á markaði er voða falleg hugmynd, en þegar markaðurinn er eins lítill og hér virkar samkeppnin ekki eins og hún gæti í stærra samfélagi. Við því þarf að bregðast.

Berglind Steinsdóttir, 10.6.2007 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband