Hvammsvirkjun

Ég hlustaði á samskiptastjóra Landsvirkjunar í fréttum Sýnar í gærkvöldi. Hún hneykslaðist einhver býsn á því sem hún kallaði rökþrota málflutning framkvæmdastjóra Landverndar. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum og hneykslaðist á samskiptastjóranum fyrir að skilja ekki myndmál. 

Svo lét ég loks verða af því að lesa skoðun framkvæmdastjórans sem er þrír fartölvuskjáir af rökum og sannfæringu, en samskiptastjórinn sér bara þetta:

Aðferðin minnir á hvernig heimilisofbeldi er þaggað niður. Ekkert er að, húsbóndinn segir fjölskylduna hamingjusama og sjáist áverkar á konu eða börnum, þá gengu þau óvart á hurð.

Og mér finnst ekkert að þessu! Hins vegar er greinin að öðru leyti öll um staðreyndir og málefni. 

Allt fram til gærdagsins hef ég tekið mark á Þóru Arnórsdóttur og trúað henni þegar ólík sjónarmið hafa tekist á. En með ummælum sínum í gær missti hún allan trúverðugleika. Ég tók diplómu í blaða- og fréttamennsku fyrir nokkrum árum og þótt ég hafi ekki unnið við blaðamennsku er ég eldri en tvævetur og hef fylgst ágætlega með í nokkra áratugi. Trúverðugleiki er dýrmætasta eign blaðamanns og ég hefði haldið samskiptastjóra. 

Ég hef ekki forsendur til að meta Hvammsvirkjun en ég las héraðsdóminn sem féll fyrr á árinu og sem Hæstiréttur staðfesti. Já, kannski gerðu þingmenn mistök við lagasetningu og það væri þá ekki í fyrsta skipti en ég spyr: Þurfum við Hvammsvirkjun til að knýja heimili eða almenn fyrirtæki, sem sagt ekki bara rafmyntir eins og ég hef heyrt fleygt?

Ég reikna ekki með neinum svörum hér enda er ég alltaf bara að hugsa upphátt á þessum vettvangi og spyr kannski fyrr en síðar einhvern sem ég tel hafa svarið.

 


Ágangur ferðaþjónustunnar eða árangur ferðaþjónustunnar?

Heimildin fjallaði um ferðaþjónustuna núna í vikunni. Fyrrverandi framhlið ferðaþjónustunnar fjallaði um umfjöllunina í kjölfarið og var ekki sammála. Hún skrifaði:

Veftímaritið Heimildin (leiðrétting: kemur líka út í blaðaformi) stundar nú stórfurðulega, einhliða og einstaklega rætna herferð gegn íslenskri ferðaþjónustu og fólkinu sem rekur ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi. Þessi atlaga að greininni getur ekki verið tilviljun ein og maður kemst ekki hjá því að velta því fyrir sér hver sé tilgangurinn, undan hvaða rótum hún er runnin og hvaða gagn hún á að gera. Að stuðla að samfélagslegri sátt er allavega ekki það sem rekur Heimildarfólk áfram - heldur þvert á móti að etja ferðaþjónustunni og þjóðinni saman, ala á óvild og öfund, búa til tortryggni og það á einstaklega ósmekklegan hátt. Heimildin velur í umfjöllun sinni dæmi sem eru líkleg til að hreyfa við tilfinningum fólks og reita það til reiði og fjallar oftast um jaðartilfelli - öfgafull tilfelli sem eiga sjaldnast við.
Sem dæmi má þar nefna að þannig hefur Vík í Mýrdal orðið þungamiðja herferðar Heimildinnar gegn ferðaþjónustu.
Þorp sem fyrir örfáum árum var deyjandi byggðarlag, en hefur náð vopnum sínum svo um munar eftir uppgang ferðaþjónustunnar. Skatttekjur Víkur í Mýrdal af ferðaþjónustu á árinu 2024 voru um það bil hálfur milljarður króna. Ég veit fyrir víst að mörg sveitarfélög myndu gjarnan vilja vera í sporum Víkur í Mýrdal. Auðvitað er það ekki nógu safaríkt eða vont fyrir Heimildina, svo það er best að kasta sér á það sem er neikvætt og fá þar á meðal aðfluttan íbúa til að kvarta yfir aðfluttum íbúum. Sem er auðvitað einstaklega pínlegt. Heimildin kallaði sömuleiðis fram hneykslan einhverra þegar hún fjallaði með miklum tilþrifum og myndbirtingum um að ferðamenn hefðu ruðst með látum inn í jarðarför í kirkjunni í Vík í Mýrdal. Það er vissulega ekki hægt að mæla því bót - en auðvitað tiltölulega einfalt að koma í veg fyrir, eins og gert er í kirkjum um allan heim, þegar þær eru lokaðar almennri umferð.
Sama má segja um Hallgrímskirkju. Þar var kirkjuhaldari dreginn upp á dekk og látinn segja frá ferðamönnum, sem ekki fara eftir fyrirmælum og troða sér jafnvel inn í útfarir. Þessi sama kirkja hefur um 300 milljónir í tekjur af ferðamönnum á ári og ætti að vera í lófa lagið að halda fólki í burtu, þegar það á við.
Heimildin hefur leitað fanga víða til að byggja undir vafasaman málflutning sinn. Hún nafgreinir meðal annars fólk sem hefur haslað sér völl í ferðaþjónustu til að gera það tortyggilegt, elur á hugmyndum um gróðastarfsemi sem þekkir engin mörk, launaþjófnaði, illa meðferð á starfsfólki (sérstaklega erlendu auðvitað) og kyrjar fleiri kunnugleg stef, sem ferðaþjónustan í heild þarf að sitja undir ár eftir ár.
Heimildin telur sig örugglega vera að stunda stórkostlega rannsóknarblaðamennsku þegar akkúrat hið gagnstæða á við. Léleg blaðamennska, byggð á upphrópunum, smellabeitum og að því er virðist djúpstæðu hatri á atvinnulífinu.
 
Hún fær svör bæði með og á móti. Einn sem tekur undir með henni segir:
 
Hilmar Sigvaldason
Hafnarsjóður Ísafjarðar, Akureyrar, Húsavíkur, Grundarfjarðar, Vestmannaeyja og fleiri staða njóta góðs af komum skemmtiferðaskipa og það eru tekjur upp á einhverja milljarða á ári.
 
Ég játa að ég nenni ekki að skrifast á við fólk á annarra manna síðum þannig að ég dreg þetta svar út og velti fyrir mér hvort þessir hafnarsjóðir hafi raunverulega tekjur upp á MILLJARÐA á HVERJU ÁRI. Ég leyfi mér að efast um það og ef ég hefði nennt í umræðuna hefði ég beðið manninn um ársreikninga sjóðanna.
 
En þá að minni eigin reynslu. Það var einmitt í Vík í Mýrdal sem ég ákvað endanlega að ég gæti ekki lengur unnið í ferðaþjónustunni. Það var sumarið 2012. Ástæðan? Sú að innviðirnir voru sprungnir, öll upplifun neikvæð, fólkið mitt kvartaði undan mannmergð. Við vorum ekki í kirkjunni heldur niðri í þorpinu og fengum enga þjónustu. Síðan eru liðin 13 ár. Hefur staðan batnað? Ég held ekki. Laun leiðsögumanna? Fólk lifði ekki af þeim þá nema fólk væri með beltið í innsta gati. Sumir kunna að halda að það sé mikil uppbót að fá að borða í ferðunum. Já, sumum kann að vera akkur í því en fólk þarf samt að brauðfæða aðra í fjölskyldunni og fjórði diskurinn á borðið gerir ekki gæfumuninn í matarkostnaðinum og ef fólk er í langferðum getur það ekki notað meintan frítíma á kvöldin í neitt með fjölskyldu eða vinum, nú, eða til að vinna aukavinnu ef hún skyldi annars vera í boði.
 
Ég hélt út í ferðaþjónustunni í 12 sumur af því að mér fannst svo gaman og það þrátt fyrir lúsarlaun. Hæsti, hæsti, hæsti taxti leiðsögumanns núna er 552.874 krónur ef maður reiknar tímavinnukaupið yfir í mánaðarlaun og obbinn af leiðsögumönnum er ekki með fastráðningu og trygga vinnu heldur verkefnaráðningar sem hægt er að segja upp með stuttum fyrirvara.
 
Ef ferðaþjónustan er sú stað sem fyrrverandi formaður SAF ætlar hana er sú stoð bara undir fáum toppum. Það er mín bjargföst meining eftir rúman áratug í hlutastarfi í stéttinni.
ferðaþjónustan

Strandveiðar

Ég held að ég standi með strandveiðisjómönnum.

Ég veit að ég bý í upplýsingaóreiðusamfélagi og get ekki treyst því sem ég les. Ég get bara treyst því sem ég þekki sjálf á eigin skinni. Hins vegar velur maður alltaf eitthvað sem maður heldur að sé rétt.

Einhverra hluta vegna datt ég inn á síðu um strandveiði- og ufsaveiðispjall og hef verið þar eins og fluga á vegg í sumar. Umræðan þar virkar heilbrigð og málefnaleg í aðalatriðum. Hlutaðeigendur ræða veiðiaðferðir og aflamagn. Strandveiðisjómenn veiða á stangir og koma hvergi nærri sjávarbotninum, koma með spriklandi ferskan fisk í land og veitingamenn geta boðið upp á frábæran mat.

Togararnir fara langt út og eru lengi, sum veiðarfærin þeirra skrapa botninn og eyðileggja lífríkið. Fiskurinn fer í lestina og er sjálfsagt ísaður til að halda ferskleikanum eins og hægt er. Veitingamaðurinn fær ekki eins nýja vöru.

Strandveiðisjómenn geta auðvitað ekki veitt nógu mikið fyrir allar fiskætur þannig að togararnir eru alls ekki til óþurftar, en tilfinning mín er sú að eigendur togaranna og kannski eigendur eigendanna (já, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi) sjái ofsjónum yfir smábátunum. Ég man vel eftir LÍÚ og Kristjáni Ragnarssyni sem var alltaf með grátstafinn í kverkunum og þó að ég vissi ekkert í minn haus, enda barn, heyrði ég fólk í kringum mig gera grín að því að ríkasta fólkið skældi mest.

En það sem ég væri til í að vita, úr því að frumvarpið dagaði uppi, hversu marga daga vantaði upp á þessa 48 að smábátasjómenn væru að veiðum. Hvað hefði vantað mörg tonn upp á að klára dagana?

Hvað erum við að tala um mikil verðmæti?

Ég gæti alveg spurt einhvern úr hópnum en mér finnst sérkennilegt að fjölmiðlar grennslist ekki fyrir um svona atriði.


Morgunglugginn

Þegar best lætur í Morgunglugganum á Helgi Seljan stjörnuleik. Hann spyr viðmælendur sína alvöruspurninga og fylgir þeim eftir. Nú er hann að tala við formann Framsóknarflokksins sem túlkar alla umræðu um Evrópusambandið í sína þágu. Þessi andstaða við það að leyfa þjóðinni að tjá sig og taka afstöðu veldur því að ég held að einarðir andstæðingar Evrópusambandsins hafi eitthvað að fela og búi yfir ríkri spillingarþörf.

Hingað til hef ég ekkert verið svo spennt fyrir Evrópusambandinu. 


Evrópusambandið eða ekki

Ég er lengi búin að vita að á Íslandi þrífst spilling, en ég held að ég sé dálítið orðin samdauna henni. Sjúkt ástand sem varir lengi verður normið. Ég hef sjálf ekkert að óttast, t.d. ekki um afkomu mína, en samt tala ég varlega svo ég styggi engan. En núna, þegar ég les svo mikla heift sumra út í Evrópusambandið - sem ég hef ekki hugmynd um hvort ég vil ganga í eða ekki - hallast ég að því að Evrópusambandið sé það eina rétta. Helstu og háværustu andstæðingarnir, sem maður veit að skara fyrst og fremst eld að eigin köku eða kökum vina sinna, átta sig ekki á því að þeir uppskera allt annað en þeir sáðu til.

En af því að samsæriskenningar eru svo vinsælar spyr ég: Eru yfirlýstustu andstæðingar ESB kannski með leikrit og eiga hauka í hornum ESB?


Þversögn stjórnarandstöðunnar

Ég skil að sumir þingmenn eru á hærri launum hjá stórútgerðinni en á þingi. Ég skil að sumir einstaklingar hafa ekki metnað fyrir hönd þjóðarinnar. Ég skil að fólk sé ósammála mér. Ég get skilið það allt.

Það sem ég skil ekki er þegar þetta sama fólk reynir ekki að vera sannfærandi í málflutningi sínum. Nú talar sama fólkið um að það verði að ræða og samþykkja fjármálastefnu og/eða fjármálaáætlun sem fjárlagagerðin byggi á, það talar um að mörg brýn mál bíði sem komist ekki að vegna þess að ríkisstjórnin vilji fyrst afgreiða veiðigjaldsfrumvarpið sem þorri landsmanna vill að verði samþykkt. Og núna þegar á einmitt að forgangsraða í þágu þessara sjónarmiða með því að greiða atkvæði um mál sem meiri hlutinn er einhuga um kemur sama fólkið og mótmælir sínum eigin sjónarmiðum.

Ég var búin að stinga upp á að hinir fáu andstæðingar þess að fiskurinn verði í sameign þjóðarinnar myndu biðja um þjóðaratkvæðagreiðslu og það er sjálfsagt enn hægt.

Kjarnorkuákvæði 71. gr. þingskapa er of stórt orð fyrir þá hugsun að takmarka óhóflegar umræður þegar öll sjónarmið eru komin fram. Norrænu þingin eru með skipulag um sínar umræður og nú er lag að gera eins. 

---

Einn þingmaður sem hefur talað í marga klukkutíma kallar veiðigjaldið núna eitt lítið skattahækkunarmál. Þá hló ég upphátt.


Veiðigjaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu

Ég man árið 2004 þegar þáverandi forsætisráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á fjölmiðlalögum, svokallað frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum nr. 53/2000 og samkeppnislögum nr. 8/1993. Því var útbýtt 28. apríl, tæpum mánuði eftir síðasta dag, rætt 3., 4., 11.-15., 19., 21., 22. og 24. maí þegar það var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 30 og einn þingmaður sat hjá. Þá var mikið talað um að í Noregi hefði svipað frumvarp verið undirbúið og rætt í fjögur ár.

Mér finnst vissulega gaman að gramsa í vef Alþingis og rifja upp en nú háttar svo til að ég sé lausn á þrætunni um veiðigjaldið. Ef frumvarpið verður núna borið undir atkvæði verður það auðvitað samþykkt af meiri hlutanum sem stendur með því en svo getur forseti neitað að skrifa undir það og skotið til þjóðarinnar.

Tillagan mælir með sér sjálf og nú er bara að skjóta þessu að þinginu.


Þingmenn eru þingmönnum verst

Algjörlega óháð uppistandinu og gríninu sem ég fylgist samviskusamlega með á Alþingisrásinni er ég á því að þingmenn geti sjálfum sér um kennt þegar fólk segist lítið mark geta tekið á þeim. Þau tala:

a) eins og starfið snúist um að þau komist í sumarfrí, jólafrí, páskafrí - eða heim! eins og þingmenn séu hlekkjuð við vinnustaðinn allan sólarhinginn á vinnutíma. Það er löngu tímabært að einblína á verkefnin en ekki klukkan hvað þeim lýkur.

b) eins og þau séu ekki í vinnunni nema í þingsal. Allt sanngjarnt fólk áttar sig á að þingstörfin felast ekki í ræðuhöldunum, aftur burt séð frá málþófinu. Ræðurnar eiga að kjarna þær skoðanir sem einstaklingar eða eftir atvikum flokksheildirnar hafa. Megnið af vinnunni á sér stað hjá frumvarpshöfundum og svo í nefndavinnunni.

Og þetta á ekki við um þennan meiri hluta og þennan minni hluta sem eru núna á Alþingi.

Að lokum óska ég þess að þingmál megi lifa á milli þinga. Ef því hefði verið breytt einhvern tímann væri hægt að kæfa þennan málþófseld núna og endurvekja hann um miðjan september. Ef málið verður hins vegar ekki afgreitt fyrir annan þriðjudag í september þarf að mæla fyrir því að nýju, hvernig sem því yrði breytt og jafnvel þó að ekki staf yrði breytt, og þá gæti hringekjan farið aftur af stað.

Nördinn í mér hefur gaman af þessum fíflagangi en vitsmunirnir í mér hrópa að nú verði að fara að sinna brýnum hagsmunum alls almennings og þá er ég ekki að tala um sumarfrí þingmanna.


Málþóf fyrir lengra komna

Við sem erum komin af barnsaldri munum margt málþófið. Ég man líka að sömu þingmenn hafa stundum verið í stjórn og stundum stjórnarandstöðu. Ég gæti auðvitað aldrei verið á þingi, það þarf breitt bak, loðnar axlir og hæfilega ófyrirleitni til að halda út misgóða daga. En þessi grein var skrifuð fyrir sex árum. 

Lengi vel þótti það vitnisburður um elju og þrótt að vinna langa daga, en sú skoðun hefur á undanförnum árum látið undan þar sem við horfum til afkasta í stað vinnustunda. Umræðan á íslenskum vinnumarkaði snýst sífellt meira um framleiðni, þ.e. afköst á hverja vinnustund, og er framleiðniaukning ein af forsendum styttingar vinnuvikunnar. En eins og afköst geta aukist á hverja vinnustund, þá geta þau dregist saman. Því höfum við fengist að kynnast síðustu daga á Alþingi, þar sem fámennur hópur þingmanna hefur tekið afgreiðslu þingmála í gíslingu með málþófi. Það er nefnilega ekkert í þingsköpum sem bannar þingmanni að flytja sömu ræðuna tvisvar, eða í tugi skipta, sé út í það farið. Málfrelsi þingmanna er mikilvægt og er það sérstaklega varið í flestum þjóðþingum heims.

En málþóf á ekkert skylt við málfrelsi eða lýðræði, og þekkist nánast hvergi utan Íslands. Málþóf er séríslenskt fyrirbrigði. Alþingi er enginn venjulegur vinnustaður. En vinnustaður er hann engu að síður, þar sem vanda þarf mjög til verka til að tryggja góða lagasetningu. Þegar andstæð sjónarmið hafa komið fram í þingsal er nauðsynlegt að leiða mál til lykta, ýmist með málamiðlunum eða með atkvæðagreiðslum þar sem hreinn meirihluti ræður. Hvort sem þingmenn verða undir eða yfir í einstaka málum er óumdeilt að þetta er skilvirk og sanngjörn aðferð til að komast að niðurstöðu. Daga og nætur eru þingfundirnir undirlagðir af ræðum þingmanna úr einum þingflokki þar sem hver þingmaðurinn fer í ræðustól á fætur öðrum og samflokksþingmennirnir tínast í andsvör við þann fyrri. Að ógleymdu hólinu hvers til annars, það er gott að fá klapp á bakið. Þrátt fyrir að túlka megi þingsköp, sem skapa rammann um hvernig þinghaldi skuli háttað, með þeim hætti að þingmönnum sé frjálst að halda uppi umræðu endalaust, þá er þar kveðið skýrt á um að andsvör séu aðeins heimiluð með leyfi forseta. Þá er einnig að finna heimild í 71. gr. þingskapalaga til þess að takmarka umræður.

Ég tel rétt og eðlilegt að þingheimur hugi að þessum heimildum til framtíðar. Núverandi fyrirkomulag, þar sem fámennur hópur stjórnarandstæðinga getur tekið þingið í gíslingu, gengur ekki til framtíðar.

Ef þið smellið á krækjuna sjáið þið það sem þið vissuð fyrir, viðkomandi þingmaður er nú í grimmu málþófi.

Þingmanninum var greinilega bent á þessa grein vegna þess að hún varði sitt eigið málþóf í ræðu seinni partinn, kl. 14:57.

Ef þingið hefði komið því í verk fyrir nokkrum árum að breyta lögum þannig að mál lifðu milli þinga horfði málið allt öðruvísi við. Ég er ekki flokkspólitísk en ég vil rukka auðugu útgerðirnar sem maka krókinn. 


Þingeyri > Ísafjörður - sjálfsagt óvinsæl skoðun

Mér finnst ég skilja að fyrirtæki vilji hagræða í rekstri. Ég veit ekkert um Arctic Fish eða neina þá fyrirgreiðslu sem fyrirtækið kann að hafa fengið. En gefum okkur að fyrirtækið hafi byggt sig upp með engum eða hóflegum stuðningi og sjái nú sóknarfæri með því að sameina alla starfsemi fyirrtækisins á einum stað í einu húsnæði. Gefum okkur það. Þá finnst mér þessi gjörningur ekki óeðlilegur eða óskiljanlegur.

Ég fann tæplega 60 blaðsíðna skýrslu um Arctic Fish en ég finn ekkert um spillingu eða hagsmunapot. Þangað til annað kemur í ljós ætla ég að gefa mér að spillingu sé þá ekki til að dreifa. Er þá ekki eðlilegt að fyrirtækið hagi eigin seglum eftir vindi?

Til vara: Ef þetta er svívirðilegur gjörningur sem bitnar á brothættri byggð hljóta þingmenn kjördæmisins að hefja upp raust sína, ekki síst þau sem hafa haft hátt um hækkun veiðigjalds.

Eruð þið ekki öll búin að vera að hugsa um þetta í dag? 


Veiðigjaldið - hver veit hvað?

Ég er ekki andvíg málþófi. Málþóf er filibuster á ensku og mér skilst að það sé mikið notað í Bandaríkjunum, eða hafi a.m.k. verið. Málþóf þjónar þeim tilgangi að vekja athygli á umdeildum málum, tefja, fá umræðu í samfélaginu og upplýsa. En öllu má ofgera.

Nú er þetta haft eftir Karli Gauta úr ræðustól Alþingis:

Þeir sem þekkja frumvarpið illa að eigin sögn, frú forseti, eru þrisvar sinnum líklegri til að styðja það. Þrisvar sinnum líklegri til að styðja það! Þeir sem segjast þekkja það vel eru tvöfalt líklegri til að styðja það. Hvaða tilhneiging er þetta, frú forseti? Þeir sem ekkert vita um þetta mál þeir styðja það. Eftir því sem þeir vita meira því meiri líkur eru á að þeir styðji það.

Þeir sem segjast þekkja það vel eru tvöfalt líklegri til að styðja það? Þrefalt og tvöfalt líklegri en hvað? spyr ég. Eftir því sem þeir vita meira því meiri líkur eru á að þeir styðji það?

Annaðhvort er rangt skrifað upp eftir þingmanni Miðflokksins eða hann orðinn mjög aðframkominn, en ég spyr í fullri alvöru: Halda menn að stuðningur fólks við eðlilegar greiðslur fyrir afnot af þjóðareign snúist um útreikninga í frumvarpi?! NEI, ég er ekki flokkspólitísk en er lengi búin að vera þeirrar skoðunar að frjálsa framsalið hafi verið mistök og að útgerðarfélögin sem fjárfesta í óskyldum rekstri eigi að borga sanngjarnt verð fyrir aðgang að auðlindinni okkar.

Og mér finnst líka rangt gefið í ferðaþjónustunni og í henni starfaði ég í rúman áratug.

Sveitarfélögin sem skila inn neikvæðum umsögnum um veiðigjaldsfrumvarpið gætu vel verið undir hælnum á sínum eigin Bogesen. Rafvirkinn í þorpinu getur orðið uggandi yfir að fá ekki lengur yfirvinnu hjá frystihúsinu af því að hann veit um sporsluna sína upp á þúsundkall en ekki að bærinn fær hundraðþúsundkall þegar útgerðarbóndinn borgar eðlilegt veiðigjald.

Umsagnir eru góðra gjalda verðar en þær verður að skoða í samhengi hlutanna.

Og það er rétt sem lesandi kann að hugsa, ég hef ekki reiknað út gjaldið, ekki frekar en í nokkru öðru frumvarpi. Almenningur setur sig ekki inn í löggjöfina, við myndum okkur skoðanir á öðru en einstökum excel-skjölum. Og ég held að við vitum öll að það er rangt gefið í þessum efnum. 


Ekki nóg að hlutirnir séu réttir ... veiðigjaldið

Einu sinni álpaðist ég til að bjóða mig fram til formanns í stéttarfélagi. Ég fékk óánægjufylgi vegna þess að aðeins innsti hringur þekkti mig en fjöldinn kaus mig til að fá ekki hinn frambjóðandann. Ég var haldin mikilli ábyrgðarkennd og vandaði mig og vandaði mig og vandaði mig svo aðeins meira. Árið sem tók við var hræðilegt. Ég lagði mig svo mikið fram að ég gekk fram af mér. Að vísu var óeining í félaginu, eins og alltaf, en frambjóðandinn sem ekki var kosinn hringdi stöðugt í mig til að spyrja mig um hitt og þetta og aðallega eitthvað úr fortíðinni sem kom minni formennsku ekki við. Það var alveg freistandi að segja: Þetta átt þú að vita, en ég puðaði við að ná í upplýsingarnar annars staðar (fyrir tíma gúgls) til að láta hann ekki hanka mig á neinu.

Núna þegar ég fylgist samviskusamlega með Alþingisrásinni sakna ég þess stundum að menn vandi sig meira. Ég er ekki hrifin af stjórnarandstöðunni en mér finnst að stjórnarliðar ættu líka að hugsa: Það er ekki nóg að hlutirnir séu réttir, þeir verða líka að líta út fyrir það.

Stjórnarliðar allra tíma þurfa að svara betur og oftar. Það verða alltaf einhverjir sem fara að trúa því að Kiddi Mýfluga á Kópaskeri eigi að borga veiðigjaldið hans Valda koppasala á Kvíaskeri.


Lengsta þingræðan: Jóhanna Sigurðardóttir 1998

Ég var að hlusta á Vikulokin. Þar töluðu saman Diljá Mist EinarsdóttirPawel Bartoszek og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Þátturinn var óvenjulega hressilegur og gestir skorinorðir. Meðal annars lýsti Ingibjörg Sólrún eiginlega yfir stuðningi við mótmæli á Austurvelli 17. júní. En það sem ég staldraði við var þegar Diljá talaði um lengstu þingræðuna, þá sem Jóhanna Sigurðardóttir flutti 14. maí 1998 um húsnæðismál. Jóhanna hafði áhyggjur af að verið væri að

slá af, með litlum fyrirvara og litlum undirbúningi, félagslega húsnæðiskerfið.

Í byrjun ræðunnar kemur fram að hún fékk aukaborð undir gögnin sem hún ætlaði að leggja út af í ræðu sem hún var búin að ákveða að yrði löng. Ég hef ekki lesið hana í heild sinni en mér er sagt að Jóhanna sé með vel byggða ræðu, lausa við endurtekningar, og ég veit að eftir að ræðan hafði verið skrifuð upp las hún hana sjálf yfir og gerði lítils háttar athugasemdir á stöku stað. Útprentuð ræðan var einu sinni til sýnis á opnu húsi í Alþingishúsinu í heild sinni.

Það sem Diljá sagði áðan var að ræðan hefði hafist á hádegi 14. maí og staðið yfir til miðnættis daginn eftir. Ég skil Diljá þannig að hún haldi að ræðan hafi staðið yfir í um 36 klukkustundir. Hið rétta er að hún stóð 14. maí 1998

kl. 12:27-12:59
kl. 13:34-19:05
kl. 20:31-00:38

þar sem tvö matarhlé voru þegar á dagskrá þingsins. Samanlagður fjöldi mínútna var þá 32+331+247 mínútur, samtals 610 mínútur, þ.e. 10 klukkutímar og 10 mínútur.

Mönnum ofbauð einnig þegar Ögmundur flutti löngu hlélausu ræðuna sína um RÚV 4. apríl 2006 sem stóð frá kl. 23:10 til kl. 5:12 næsta morgun. Þess vegna var á endanum þingsköpunum breytt og tekið fyrir eins langar ræður og fólk gat flutt án þess að nærast eða fara á náðhúsið.

Ég skil vel að málþóf, það að þæfa málið, geti átt erindi en þegar fólk endurtekur sig í sífellu verður það leiðigjarnt. Og þegar þingmenn gjaldfella vinnuna sína með því að tala mjög mikið um að þingið þurfi að komast í sumarfrí sem standi þá frá miðjum júní til fyrsta þriðjudags í september geta þau sjálfum sér um kennt þegar allur almenningur hneykslast á lítilli skilvirkni þingsins og háum launum þingmanna.

 


Þingfundur á sunnudegi

Ég fylgist auðvitað með fundarstjórnarumræðum á Alþingisrásinni. Á sunnudegi. Ég ætti að poppa en ég tími ekki að missa af neinu.

Ég er á móti þingfundum á sunnudögum og líka á laugardagskvöldum og reyndar held ég að allir þingmenn gætu stytt mál sitt til muna alla daga. En það sem hlýtur að verða fréttapunktur í fjölmiðlum er athyglin sem öll önnur helgarstörf fá, þar sem fólk hefur ekki val um að vinna ekki á sunnudögum. Við getum talað um verslanir, þ.m.t. bakarí sem opna dyr sínar fyrir allar aldir og hafa þá þegar framleitt ógrynni af nýmeti, sjúkrahús, öldrunarheimili, ferðaþjónustu og ylströndina. 

Ég veit alveg að þingmenn vinna um helgar, semja frumvörp og nefndarálit, lesa skýrslur, hitta kjósendur og ganga um Þingvöll. Ég veit líka að þingmenn hafa mikið frítt spil og ráða vinnutíma sínum þegar fundartíma sleppir, bæði á þingfundum og nefndarfundum.

Ég gæti rantað lengi um umræðuna sem nú hefur staðið yfir í tæp þrjú korter, en ég tek undir með Bryndísi Haralds sem sagði áðan að málið um bókun 35 leysist ekki í þingsalnum. Ég held að þessi þingfundur sé fyrst og fremst til að skemmta okkur skrattanum vegna þess að ég hef stundum gaman af rugli og þótt ég nái ekki að poppa sit ég hér við minn indæla suðurglugga og klóra ketti á enninu meðan ég fylgist með fundinum.


Óli Lokbrá

Við þekkjum öll Óla Lokbrá. En ég áttaði mig á því í þessari viku að lokbrá er kvenkyns. Óli er hins vegar karlkyns. Svona getur maður orðið samdauna.

Kannski er það svipað og að fólk segir kyrrþey þótt það eigi að vera í nefnifalli og þá kyrrþeyr og svo er berjamór þannig í nefnifalli þótt flestir fari í berjamó.

En að ég skyldi aldrei leiða hugann að Óla sem ætti eiginlega ekki að vera lokbrá. En hvernig er lokbrá á dönsku? Ég finn það engan veginn.


Stjórnarminnihluti?

Nei, það er ekkert til sem heitir stjórnarminnihluti. Ég er að horfa á umræðurnar eftir eldhúsdaginn, en ég heyri þetta of oft. Mér finnst meira að segja á mörkunum að tala um stjórnarmeirihluta. Það er meiri hluti, það eru stjórnarflokkar, það er minni hluti og það er stjórnarandstaða.

Minni hlutinn er ekki í stjórn, ekki nema það sé minnihlutastjórn sem er engin hefð fyrir á Íslandi.


Cliffhanger - Á ystu nöf

Mig langaði að horfa á eitthvert léttmeti um helgina og fann bíómynd í spilara RÚV, klassíska *hóst* mynd með Sylvester Stallone. Eins og í Ófærð voru aðalpersónurnar húfulaus og í frárenndum úlpum í brjáluðu veðri og til viðbótar príluðu björgunarsveitarmennirnir upp lóðrétan hamarinn á hnúunum einum saman, komust á tindinn á nokkrum mínútum, þurftu ekkert að nærast, löguðust af hnjáskeljabroti á augabragði, fundu peningatöskur og götuðu þær með augnaráðinu. Ég gleymi sjálfsagt einhverjum afgerandi hæfileikum allra sem áttu hlut að máli.

Í stuttu máli: Stórskemmtileg mynd.

Að öðru leyti vil ég segja að dagskrá RÚV er svo frámunalega léleg, sérstaklega línulega dagskráin, að iðulega er ekkert annað í boði en endursýnd dagskrá og vandræðalega oft bæði myndir og þættir sem hafa verið svo nýlega á dagskrá að það sést á milli í dagatalinu. Horfa ekki allir á sjónvarp í gegnum netið nú orðið? Af hverju er þá ekki látið duga að hafa áhorfsefnið aðgengilegt en bjóða upp á aðeins meira af nýju efni? Þetta á auðvitað ekki við um myndir með Sylvester Stallone sem aldrei er nóg af ... foot-in-mouth


Alan Bates gegn Tryggingastofnun

Það er hægt að treysta breska dómskerfinu. Ég segi bara sannleikann.

Eitthvað í þá veruna er haft eftir einu fórnarlambi breska Póstsins í þáttaröð sem má sjá í spilara RÚV um þessar mundir. Þáttaröðin, Mr. Bates vs The Post Office, Alan Bates gegn Póstinum, er um svo lygilegt mál að það er eiginlega ekki hægt að trúa því. Um aldamótin innleiddi hin framúrstefnulega stofnun, Pósturinn, tölvukerfi sem átti að leysa af hólmi handrituðu bókhaldsgögnin. Það sem íslenska áhorfandann vantar alveg er tilfinning fyrir mikilvægi starfsins. Ég sé bara starfsfólk sem afgreiðir frímerki og afhendir lífeyrisgreiðslur skv. plani en fólkið sem átti í hlut leit á þetta sem mikilvægt ævistarf. Það sem urmull póstafgreiðslumanna lenti í var að bókhaldið hætti að stemma og póstmeistararnir, sem ráku þá pósthúsin eins og eigin fyrirtæki, sáu skuld birtast hjá sér og tvöfaldast og fjórfaldast og verða að óyfirstíganlegri skuldahrúgu.

Og ég gæti spurt eins og við spyrjum manneskju sem yfirgefur ekki ofbeldismann: Af hverju sættirðu þig við þetta?

Öllu fólkinu, mjög mjög mjög mörgu, var sagt að enginn annar hefði lent í þessu. Öllum var sagt að viðkomandi væri ein/n í þessu. Fólk efaðist um sjálft sig enda gaslýst af þrautþjálfuðu ofbeldisfólki sem átti að keyra tölvukerfið á þennan hátt.

Og nú berast fregnir af því að Tryggingastofnun þurfi að rukka 45.000 manns vegna ofgreidds einhvers. Af hverju sættir fólk sig við þetta? Ég held reyndar að fólk muni ekki gera það vegna þess að fyrsta frétt er að stór hópur hafi lent í þessu.

Ég er ekki komin svo langt að þurfa að eiga við Tryggingastofnun en Skatturinn er mín brekka. Í fyrra fékk ég endurgreidann ofgreiddan tekjuskatt enda er ég lítill verktaki og reikna sjálf út mína staðgreiðslu og sendi skilagreinar. Svo hef ég endurskoðanda sem telur fram og kann betur á þetta. En viti menn, í febrúar fékk ég rukkun frá Skattinum upp á næstum sömu upphæð. Og ég óviss í minni sök borgaði enda er útgáfudagur, gjalddagi og eindagi sami dagurinn og ef ég borga ekki strax leggjast strax 10% ofan á. Ég virðist ekki hafa neitt val, fæ ekki einu sinni sundurliðun. Ég er mjög ósátt við Skattinn en ætla ekki í viðskiptafræði til að skilja þetta. Þegar ég hef sent fyrirspurnir með tölvupósti fæ ég skriflegt svar á svahíli sent frá útstöðvum Vestmannaeyja. 

Tölvukerfin, já, og gervigreindin, eiga að hjálpa okkur en stundum leggja þau stein í götu okkar.


Velgjan sem kólnar

Ég væri ekki hissa - og er ekki hissa á mælingu - á að landsmenn tækju fagnandi þeirri breytingu að láta þá sem hafa hagnýtt sameiginlega auðlind borga fyrir afnotin. Ég er svo forfallin að ég er búin að fylgjast með umræðu á Alþingi um frumvarp um veiðigjaldið og þau sem tala um að landsbyggðin leggist af ef stórútgerðinni verði gert að borga eðlilegt gjald og muni þá flæmast með landvinnsluna úr landi virðast ekki vita að mestu stórbokkarnir hagræða fyrst og fremst í eigin þágu og sum landvinnsla er farin. Það hefur ekkert að gera með veiðigjaldið.

Ég er hlynnt hækkun veiðigjalds en mér finnst líka ástæða til að skoða hvort einhverjir angar í ferðaþjónustunni hafa ekki skarað eld að eigin köku síðustu árin og áratugina. Hver á Langjökul?

Straumlínan ætti að vera að auðlindir nýtist landsmönnum í heild, ekki örfáum einstaklingum sem byrja síðan að skæla og LÍÚja þegar þingmenn nenna að taka slaginn.

Ég hef það gott en fullt af fólki nær ekki endum saman þrátt fyrir að vinna fulla vinnu og hafa jafnvel menntað sig til verðmætra starfa fyrir samfélagið.

Það er ekki endingardrjúgt að pissa í skóinn sinn. Það er volgt fyrst en kólnar svo.


Jon Øigar­d­en

Sagt er að maður eigi ekki að samsama lögmenn skjólstæðingum sínum og að allir eigi rétt á bestu vörn. Þetta finnst mér hartnær óskiljanlegt vegna þess að ef lögmaður hefur ekki sannfæringu fyrir málstað skjólstæðings síns myndi ég halda að hann beitti sér minna og svo spyr ég: Hvað um alla þá sem hafa ekki efni á að ráða sér lögfræðinga á eigin kostnað?

En ég byrjaði á útúrdúr vegna þess að ég las vörn Fannars Sveinssonar í gær. Og ég spyr: Hvaða.leikstjóri.í.veröldinni.fylgist.ekki.með.samfélaginu.sínu? Ég veit ekki hvort hann vill frekar að ég haldi að hann sé heimskur eða siðlaus. Og þau rök að maður þurfi að taka þeim verkefnum sem bjóðast til að eiga fyrir mat handa börnunum sínum halda heldur ekki vatni. En sá málflutningur rökstyður hins vegar að vel hafi verið greitt fyrir þetta siðlausa verkefni af því að a) enginn heilvita maður tekur svona að sér nema fá böns of monní, b) útgerðin veit ekki aura sinna tal.

Alveg sama hvernig á málið er litið heldur stórútgerðin áfram að grafa gröfina sína.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband