Fimmtudagur, 5. september 2024
Guð - eða ekki
Á Facebook fylgi ég einhverjum dúdda sem kallar sig God og gerir stólpagrín að trú og guði. Flestir fylgjendur hans, a.m.k. þau sem tjá sig, virðast vera bandarískt fólk og það er líka ýmist kaldhæðið eða bara meinfyndið.
Í kvöld spurði hann hvað væri til á sérhverju bandarísku heimili. Sumir drógu í efa að allir hefðu yfirleitt þak yfir höfuðið og margir sögðu, með grátbólgnu tjákni, að byssa væri á öllum bandarískum heimilum. Einn sagði að bragði: 32 Tupperware-ílát og níu lok á þau. Margir tengja augljóslega við þetta miðað við viðbrögðin sem hann fær.
Sumir tala um macaroni (and?) cheese sem er hálfgerður þjóðarréttur (eins og pylsa kannski hér) og ein talar um útrunna baunadós aftast í búrskápnum. Einn talar um sterkt límband (duct tape) og annar um fullt box af alls konar snúrum sem passa ekki lengur við neitt.
Nú eru bara þrjú korter síðan færslan birtist þannig að listinn á eftir að lengjast, en mér finnst þetta litla innlit næstum daglega segja mér heilmikið um húmorinn hjá hinum almenna Bandaríkjamanni. Og þarna ætlar enginn að kjósa Trump ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 31. ágúst 2024
Phileas Fogg umhverfis jörðina 1872
Jules Verne, sá sami og skrifaði um ferðalag ofan í jörðinni sem hófst á og í Snæfellsjökli og endaði í Strombólí, skrifaði líka sögu um vísindamann sem ekkert hafði lifað á eigin skinni en ákvað að ferðast í kringum jörðina með þeim fararskjótum sem buðust. Nú er í spilara RÚV átta þátta röð um þetta ævintýri hans og samferðafólks hans, Abigail og Passepartouts, og þótt þetta sé mögulega hugsað sem barnaefni er þetta stórkostlega skemmtilegt efni fyrir fullorðna. Auðvitað er sumt órökrétt og ósannfærandi en skemmtigildið og sagan sjálf ryður því öllu úr vegi. Og ég er farin að elta leikarana á Instagram ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 27. ágúst 2024
,,Vindurinn veit hvað ég heiti"
Ég var að klára bók eftir Isabel Allende sem var gefin út á síðasta ári en kom út í íslenskri þýðingu á þessu ári. Fyrstu hughrif voru mjög mikil, ég hágrét yfir vissum köflum sem vísuðu beint í sögulegar staðreyndir um morð á heilu þorpi og almennt ofbeldi. Isabel er núna nýorðin 82 ára og alls ekki dauð úr öllum æðum en þegar á bókina leið varð hún þurrari og þurrari. Ég ræddi hana við bæði systkini mín sem voru búin með hana og þeim fannst hún lala sem mér fannst skiljanlegra þegar upp var staðið.
Höfundur er of mikið að flétta saman sögulega harmleiki þannig að söguþráðurinn geldur fyrir það. Engu að síður verð ég mér alltaf meðvitaðri eftir lestur á bókum af þessu tagi að ég bý við mikil forréttindi, friðsælan heimshluta og örugga lífsafkomu. Stór hluti heimsins getur ekki gengið að því vísu, og núna vissulega ekki ríki í Evrópu og guð hjálpi okkur ef appelsínugula viðrinið verður kosið í Bandaríkjunum eftir rúma tvo mánuði.
Ekkert er sjálfgefið, gleymum því ekki.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. ágúst 2024
Helvítis lögmenn?
Fyrirsögnin endurspeglar ekki mína skoðun. Ég trúi alveg að í lögmannastétt eins og mörgum öðrum stéttum séu rotin epli en skoðun mín og reynsla af lögmönnum er ekki að þau séu helvítis neitt.
Ég er að hluta til verktaki og á dálítið erfitt með að rukka sanngjarnt verð. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en í fyrra að Skatturinn rukkar mig um 6,35% tryggingagjald sem dekkar Fæðingarorlofssjóð og Atvinnuleysistryggingasjóð. Mér finnst meira en sjálfsagt að taka þátt í samneyslunni en ég hafði sum sé ekki leitt hugann að þessu. Tekjuskattsprósentan hækkar með hækkandi tekjum en ef ég námunda tekjuskattinn í 35% borga ég 4.135 kr. af hverjum 10.000 kr. í skatt og tryggingagjald. Svo þarf ég sem verktaki að draga 8% af upphæðinni til að leggja í lífeyrissjóð og sem minn eigin launagreiðandi þarf ég að bæta við 7% þannig að ég þarf að taka 1.500 kr. af 10.000 kr. tímagjaldinu til hliðar fyrir lífeyrissjóð sem okkur finnst sumum ekki sérlega áreiðanleg ávöxtunarleið. Svo þarf ég að gera ráð fyrir orlofi (sem er að lágmarki hugsað sem 10,17%) og veikindum sem ég þarf sjálf að mæta af tekjunum mínum. Sá búnaður sem ég nota úreldist og ég þarf að endurnýja, aðallega tölvu og síma, svo og svo oft.
Þetta er ekki hugsað sem kveinfærsla, ég er bara að átta mig á þessu þetta árið.
10.000 kr. tímagjald er þannig ekki hátt tímagjald í verktöku.
En í fyrra þurfti ég að byrja að leggja 24% virðisaukaskatt ofan á tímagjaldið og mér leið eins og ég væri að hækka tímagjaldið MITT um 24%. Mér fannst það óþægilegt en þau sem ég dæsti yfir þessu við töluðu um *helvítis lögmennina* sem gætu vel borgað og ættu fúlgur fjár.
Þó að lögmenn rukki 25.000 kr. á tímann eða mögulega meira er það ekki upphæð sem rennur öll í vasa viðkomandi. Til viðbótar því sem ég tel upp (og ég veit að hægt er að telja fram kostnað á móti) eru lögmenn með skrifstofur og yfirbyggingu, starfsmenn og aukinn rekstur. Lögmenn með mikil umsvif hafa væntanlega góðar tekjur en allt er þetta samt óvissu háð. Vinnan er öll verkefnadrifin (og, jú, ég veit að það á líka við um ýmsar aðrar stéttir) og tekjur geta dottið niður en kostnaðurinn ekki.
Ef mér á ekki að finnast óþægilegt að leggja 24% ofan á reikninga til lögmanna og ráðuneyta (sem þarf ekki að gera með fyrstu 2 milljónir ársins), má mér þá finnast það ef ég vinn fyrir fátækt bókasafn? Og ef vinnan er virðisaukaskattsskyld, af hverju er hún það ekki fyrr en eftir fyrstu 2 milljónirnar? Og ef það á að vera eitthvert krónuviðmið, af hverju hækkar það ekki á milli ára eða a.m.k. á tveggja ára fresti?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 21. ágúst 2024
Áheitasöfnun vegna maraþonhlaups
Ég fann einn hlaupara sem ég þekki sem segist ætla að tvöfalda upphæð áheitanna sem hann safnar fyrir Stígamót. Það er alvöru og ég hét á hann. Áfram, Valdi.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 16. ágúst 2024
Hlaupa til styrktar ...
Ég er skokkari og hef lengi verið í skokkhópi. Ég þekki marga ástríðuhlaupara sem hlaupa fyrir ánægjuna og heilsunnar vegna.
Eftir viku er Reykjavíkurmaraþonið og nú dynur enn á okkur umræðan um að fólk sé að hlaupa til styrktar einhverjum.
Ég spyr: Þetta fólk sem hleypur til styrktar einhverjum, af hverju styrkir það ekki félögin bara sjálft með peningagreiðslum?
Og, já, ég má segja þetta vegna þess að ég gerði þetta þegar ég hljóp heila maraþonið mitt 2018. Þá bað ég um tillögur frá fólki og lagði svo 42.200 kr. inn á nokkur félög.
Þau sem hlaupa til styrktar einhverjum ætlast til að aðrir leggi fram fé. Og ef maður vildi styrkja alla sem kalla eftir því væri aurinn fljótur að fara. Fólk sem skokkar, hleypur eða vinnur 10 km hlaup gerir það fyrir sjálft sig.
Ég er í góðu jafnvægi og í miklu stuði en hef þessa skoðun á þessu málefni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 15. ágúst 2024
Högni eftir Auði Jónsdóttur
Vá.
Stundum hegðar maður sér heimskulega af því að manni líður illa, maður er vantrúaður á eigin gæði og maður er í vörn.
Ég var að klára Högna og finnst mikið til koma. Bókin greip mig á fyrstu síðu. Högni er klár intróvert sem skilur ekki af hverju fólk hefur ekki áhyggjur af hnatthlýnun, skilur ekki áhuga kvenna á sér, sem er fráhrindandi, hatar klíkuskap en veit svo ekki hvort hann er kannski gerandi þegar upp er staðið.
Framan af sjáum við bara Högna samtímans, mann sem telur sig vilja vel en okkur sýnist vaða yfir fólk, en þegar líður á flettist ofan af fortíðinni og maður skilur í öllu falli af hverju hann er ekki hændur að mömmu sinni ...
En, elsku Bjartur, af hverju var bókin ekki betur prófarkalesin? Textavinna er samvinna og ég á ekki að þurfa að sjá *næturna og *skildi (maður vita) í útgefinni bók.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 11. ágúst 2024
Sifan Hassan (31)
Ég fylgdist í gær með maraþoni karla á Ólympíuleikunum í beinni útsendingu á RÚV2 og núna áðan með maraþoni kvenna. Bæði hlaupin voru spennandi í tvo klukkutíma en sigurvegarinn áðan vann á nýju Ólympíumeti eftir að hafa unnið brons í tveimur öðrum hlaupum á leikunum. Geggjaður árangur og ekki spillti lýsing Elvars og Arnars.
Hvað segja RÚV og Vísir um keppnina og úrslitin? Ekki orð. Á sérstakri íþróttasíðu RÚV um leikana er eins og breikdans sé aðalatriðið. Það er mikil stemning með hlaupi í kringum mig og ég skil ekki af hverju svona keppnisgrein er ekki gert hærra undir höfði.
Ég þurfti að fletta upp á Guardian til að sjá lýsingu og niðurstöðu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 9. ágúst 2024
DJ Bambi
Ég er nýbúin með DJ Bamba eftir Auði Övu Ólafsdóttur og er giska ósammála þeim bókmenntafræðingum sem lýstu sig ánægða/r með bókina. Söguefnið er mjög verðugt, nokkrar áhugaverðar aukapersónur og þráðurinn aldeilis nothæfur, en tuggan og þrásagan of mikil fyrir mig. Blaðakonan sem vill taka viðtal við transkonuna Logn vill svo skrifa bók um hana en segir að lífshlaupið sé ekki nógu spennandi fyrir lesendur. Logn vakni, mæti til vinnu, eigi fyrrverandi eiginkonu og eitt barn og hún lifi einfaldlega of einföldu lífi.
Mér finnst þetta eiga við um bókina. Einhvers staðar hafði ég séð einhvern hnýta í prófarkalesturinn á bókinni. Ég hefði gert margar athugasemdir en mér finnst þær snúa meira að ritstjórn en prófarkalestri.
En það er bara fínt að bækur rati til sinna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 8. ágúst 2024
Erna Sóley Gunnarsdóttir
Ég er bara klökk yfir okkar frábæra íþróttafólki sem keppir núna á Ólympíuleikunum. Ég fylgdist ekkert með í viku en sá svo viðtalið við Ernu Sóleyju. Hún er með svo heilbrigt sjálfstraust, metnað og raunhæf markmið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 31. júlí 2024
Guðlaug Edda og Anton Sveinn
Ég horfði á viðtalið við Guðlaugu Eddu Hannesdóttur (29) og táraðist alveg. Þvílíkur karakter sem hún er. Þvílík forsmán af mótshöldurum að ræsa fólk kl. 6 til að segja því að keppni í þríþraut verði haldin kl. 8! Ég skal hundur heita ef engin eftirmál verða af þessu.
Ég horfði líka á ávarp Antons Sveins McKee (30) eftir síðasta Ólympíusundið hans og komst líka við. Mikið sem við megum vera stolt af þessu afreksfólki. Það hlýtur að vera vandasamt að vera í einstaklingsíþrótt sem hefur lítinn opinberan stuðning.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. júlí 2024
Brimborg
Svona auglýsingar hafa þveröfug áhrif á mig. Ég mun sniðganga Brimborg og helst alla bíla sem eru upprunaseldir hjá fyrirtækinu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 27. júlí 2024
Nýr bíll staðgreiddur?
Ég hef aldrei keypt nýjan bíl enda aldrei haft áhuga á því. Helst vildi ég vera bíllaus til lengdar en mun líklega enda á að kaupa mér bíl þar sem almenningsvagnakerfið er ekki hliðhollt þeim sem vilja fara um landið.
En út af fréttinni um verðandi forseta verð ég að spyrja: Kaupir fólk almennt bíl með lánum frá bílasölunni sjálfri? Tekur það ekki alltaf bílalán ef það á ekki fyrir bílnum og borgar bílasölunni en skuldar áfram bankanum eða öðrum lánveitanda? Hvers vegna er þá veittur staðgreiðsluafsláttur frekar en að verðleggja bílinn í samræmi við það?
Er ekki einhver villa í frásögninni?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 16. júlí 2024
Vottur af flóði
Ég var það óheppin í vetur að rétt eftir að ég lét pússa parketið lak snjór af hjólinu í forstofunni undir þröskuldinn (sem hafði þá aðeins losnað frá) og skemmdi nokkrar lamellur sem eru spýturnar (ég er nýbúin að læra þetta fræðiheiti, hoho). Ég fékk smið til að laga þröskuldinn og hélt að svo mætti slípa lamellurnar aftur. Nei, það gekk ekki, þær fóru að vinda upp á sig og kvarnast úr þeim. Í gær kom smiðurinn aftur og sleit ónýtu lamellurnar upp og þegar hann ætlaði að sníða til nýjar og leggja þær reyndist aðeins of mikill raki enn á því sem er næst þröskuldinum.
Skítaredding er þessi motta sem átti að vera alveg í felulitunum. Er þetta ekki bara nokkuð smart?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. júlí 2024
Bróðurómyndin
Þegar ég fæddist var ég fjórða systkinið og það síðasta. Ekkert okkar er dáið en ég lít svo á að við séum bara þrjú vegna þess að þegar ég sá á eftir foreldrum mínum 2018 og 2019 kom í ljós úr hverju sá bróðir var gerður sem var næstur mér í aldri.
Mér finnst stundum gott að segja þetta upphátt á bloggsíðu vegna þess að ég er alltaf að heyra sögur um vinslit í fjölskyldum og þótt tilefnið sé sorglegt finnst mér gott að finna að við systkinin þrjú sem stóðum og stöndum saman erum ekki ein um að horfa á eitt systkinið fara yfir öll mörk. Þessi bróðir, sem mér finnst ekki lengur vera í systkinahópnum, hafði svo sem sýnt takta í ætt við græðgi, tilætlunarsemi og yfirgang, bæði gagnvart mömmu og pabba og svo sjálfri mér, en ég var samt svo hrekklaus að ég varaði mig ekki. Ég tapaði miklum peningum á honum. Hann gerði lítið úr ákvörðunum mínum. Hann gerði almennt sitt besta til að gera lítið úr mér og tala mig niður.
Ég sé ekki eftir honum og því miður ekki heldur dætrum hans sem sýndu líka hvar þær stóðu í þessum efnum. Blóð er bara ekki þykkara en vatn og ég umgengst miklu heilbrigðara fólk en hann.
Ástæðan fyrir að ég rifja þetta upp sisona miðvikudaginn 10. júlí? Jú, ég er þrátt fyrir allt minnug á afmælisdaga og bróðurómyndin er 63 ára í dag og ég hef ekki hugmynd um hvar hann er niðurkominn, hvorki með tilliti til vinnu (sem honum hefur yfirleitt ekki haldist á) né hver mætir nú með veitingar í afmælið hans.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 30. júní 2024
Frítt í sund, ófrítt í sund
Mér finnst röng nálgun að stytta afgreiðslutíma sundstaða og mér finnst bilun að gera sjósundi ekki hærra undir höfði, svo sem með því að hafa opið lengur í Nauthólsvík og með því að byggja upp góða aðstöðu víðar.
En ég get ekki tekið undir að 4.000 kr. árgjald í sundlaugarnar ríði baggamuninn fyrir 67 og eldri heilt yfir. Og að tromma upp í fjölmiðlum og tala nánast um aðför að lýðheilsu er í mínum augum og eyrum skrum.
Það eina sem ég er samt að pæla í er hvort fólk muni eiga auðveldara með að misnota svona árskort. Segjum að annar makinn sé 67 og hinn yngri og yngri makinn ætti þá að borga 44.840 kr. árgjald. Getur hann þá fengið kort makans og smyglað sér inn? Þau sem núna eru orðin 67 þurfa að sýna skilríki, er það ekki?
Ég held ekkert að fólk stundi þetta eða muni stunda þetta, það er ekki það. Ég held bara að þetta gæti orðið auðveldara.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 17. júní 2024
Alice og Jack
Ég hámhorfði á mestu ástarsögu sem ég hef séð, þáttaröðina Alice og Jack. Hún er meira en heilt ár í spilara RÚV þannig að ef þið hafið verið að hugsa um að horfa ekki getur ykkur enn snúist hugur.
Í fyrsta þætti fannst mér hún hafa óskiljanlegt tak á honum, hrokafull og meiðandi. Ekki skánaði það í öðrum þætti en eftir það fór ég betur að skilja hvernig þeim leið. Og hún hafði auðvitað sínar ástæður fyrir undarlegri hegðun.
Það sem gerði útslagið með að ég gat ekki hætt að horfa var að samtölin komu mér stöðugt á óvart. Það var enginn fyrirsjáanleiki í framvindunni eða orðaskiptunum. Mig langar alveg að segja meira en flest myndi koma upp um söguþráðinn sem væri ekki fallega gert. En að lokum verð ég að segja RÚV til hnjóðs að mér finnst galið að nota sömu kynningu í línulegri dagskrá á öllum sex þáttunum (eins og RÚV gerir alltaf). Af hverju er ekki hægt að semja og láta flytja nýja kynningu sem þjónar efni hvers þáttar? Peningaleysi? Alice og Jack vörðu saman einni nótt sem hefur síðan langvarandi áhrif til framtíðar - er ekki lýsing sem passar nema í upphafi.
Til viðbótar vil ég segja að ég vona að fréttatíminn verði áfram kl. 21 og bara einn. Fréttaþyrstir (eins og ég) geta hlustað á útvarpsfréttir kl. 18, hlustað á Bylgjuna kl. 18:30 og svo væri gott að fá síðasta alvörufréttatímann kl. 21. Sá sem hefur verið í sjónvarpinu kl. 19 er oft lap upp úr útvarpsfréttum.
Þjóðhátíðarranti dagsins lokið. Til hamingju með daginn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 15. júní 2024
Guðni Th. og sagnfræðin
Ef eitthvað er að marka brautskráningarræðu rektors fer Guðni forseti aftur að kenna í HÍ. Það er einmitt það sem ég óskaði mér.
Á sama tíma bjóðum við fráfarandi forseta, Guðna Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði, velkominn aftur til starfa við Háskóla Íslands.
Ég var reyndar búin að ímynda mér að öll fjölskyldan flytti til Kanada til að leyfa börnunum að kynnast sínum kanadísku rótum en svo heyrði ég einhvern orðróm um að þau Eliza ætluðu að skilja sem ég hef hvorki fengin hrakinn né staðfestan.
En ég fagna því ef nemendur HÍ fá að njóta krafta sagnfræðiprófessorsins á ný.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 12. júní 2024
Eldhúsdagurinn
Þvílík veisla, sérstaklega þegar ræðumenn lesa ekki af blaði ...
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 10. júní 2024
Fótbolti og breyttur fréttatími
Ég er breytingasinni þannig að ég fagna því bara að kvöldfréttir verði færðar til kl. 21 í sumar. Ástæðan er reyndar órökrétt, fótbolti þar sem Íslendingar eru ekki einu sinni með, en mér finnst gráupplagt að prófa þennan tíma og í öllu falli mjög gáfulegt að vera með samræmdan tíma í allt sumar. Ég man þegar fréttirnar voru kl. 20 og fannst það fínt, en enn betra að hafa þær kl. 19. Og ég er í hópi þeirra geirfugla sem horfa á línulega dagskrá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)