Orð gegn orði

Mér finnst ...

Ég fullyrði að Ebba Katrín á stjörnuleik í Orði gegn orði sem ég sá í gærkvöldi í Kassanum. Hún fór með textann af fullkomnu öryggi. Með styrkri leikstjórn sýndi hún ólíkar persónur, aðalpersónuna auðvitað og svo kennarann með því að halda ímynduðum penna undir hökunni og mömmu sína með sígarettuna. Hún fór í og úr lögmannsskikkjunni, úr dragtinni og í kjól sem þjónaði því að sýna hana sjálfa á ólíkum stundum. Þegar hún var orðin fórnarlamb hafði framkoman gjörbreyst, hún geislaði ekki lengur af sjálfsöryggi þeirrar sem hefur yfirhöndina vegna yfirburðaþekkingar á málefnasviðinu heldur var Tessa miður sín og algjörlega sannfærð um að hún gæti ekki unnið eigið mál.

Þið vitið um hvað ég er að tala, þið þekkið efni þessa leikrits sem hefur mikið verið rætt.

Það er alltaf erfitt að standa undir væntingum sem hafa verið blásnar upp. Ég fullyrði aftur að leikkonan er framúrskarandi en MÉR FANNST ekkert nýtt í leikritinu. Við vitum öll að sönnunarbyrðin í kynferðisbrotamálum er erfið vegna þess að það er ORÐ GEGN ORÐI, vegna þess að oft eru þau bara tvö (já, yfirleitt karl og kona) til frásagnar, vegna þess að fórnarlambið efast um eigin upplifun, eigið minni, bæði vegna þess að viðkomandi brýtur sig sjálf niður og vegna þess að krafan um lögræðilegan sannleika er svo afgerandi.

Tölfræðin sýnir þetta.

Sýningin var að því leyti vonbrigði að hún kom mér hvergi á óvart og varpaði engu nýju ljósi á veruleika brotaþola. Að auki hefði ég viljað fá staðfærslu. Tessa, Julian og Richard urðu mér fjarlæg vegna nafnanna. Endalausar leigubílaferðir stungu í stúf. Og loks ætla ég að lýsa yfir að sýningin er 20 mínútum of löng. Tæpir tveir tímar með engu hléi á leikhússtólum eru of margar mínútur í þessu samhengi. Langdregna kynninguna í upphafi hefði auðveldlega má stytta til muna.

En leikkonan var frábær og öll sviðsmyndin sömuleiðis.


Einbirni hverfur í skuggann

Góðar danskar bíómyndir eru svo yfirgengilega frábærar. Ég var að horfa á Metra á sekúndu sem var sýnd á RÚV í nóvember en þá var ég ekki á landinu. Hún er í spilaranum í tæpan mánuð enn. Ég er með þennan inngang vegna þess að ég hef einhvern veginn ekki haft mig í að kaupa aðgang að streymisveitum eins og Netflix og Disney+. Flesta mánuði dugir mér RÚV.

Nema hvað, þessi danska mynd er um hjónaleysi sem söðla um og fara úr höfuðborginni í eitthvert fámenni úti á landi þar sem honum býðst kennarastaða. Þar með er fótunum kippt undan extróvertinum, kærustunni hans til 10 ára og barnsmóður til eins árs.

Bæði eru ástríðufullir áhugamenn um tungumál og tilgang lífsins og passa saman eins og flís við rass en fámennið og skugginn af honum eru að ræna hana allri lífsgleði. Og þetta ferðalag þeirra tveggja og samferðafólksins er óslitin veisla fyrir áhugamenn um tungumál og tilgang lífsins. Og ekki spillti húmorinn fyrir.

Mæli sem sagt með ef þið létuð hana fara framhjá ykkkur.


Spánn: leiðarlokin nálgast

Nei, nei, Spánn er ekkert að niðurlotum kominn, dvöl minni fer bara að ljúka eftir þá tveggja og hálfs mánaðar dvöl hér í suðrinu. Í dag tók ég rútu frá Málaga til Alicante og mig rak í rogastans að verða vitni að því að ótrúlega margir farþegar töluðu hátt í símann og viðmælandinn líka!

Rútubílstjórinn varð að vanda um við einn sem sat nálægt mér. Og þegar betur var að gáð var ein af reglunum að það ætti ekki að trufla aðra farþega með hávaða. Er það sem sagt þannig að menn óttast bylgjur frá símanum?


Áramótaskaupið

Ég er búin að horfa tvisvar og fannst það betra í seinna skiptið. Ég er í útlöndum og á öðrum tíma en heima þannig að kannski var ég bara of sybbin þegar ég horfði á það í beinni útsendingu. Ég veit að mér finnst það alltaf betra þegar leikarar eru margir og eru valdir í hlutverk sem hæfir þeim og það var sannarlega núna. 

Ég hló samt ekki mikið. Er það kannski ofmetið?

Ég heyrði viðtal við Sveppa í gær og hann sagði að hann hefði viljað hafa brandara um Grindvíkinga alls staðar. Sumum þætti það kannski samt ekki mega. Ég tek undir með Sveppa, ég hefði viljað sjá fleiri brandara um Grindvíkinga. Það var t.d. frábær lokapunktur í atriðinu um fjölfóníuna. Og hvaða fína leikkona lék aðalhlutverkið þar á móti Nínu Dögg (sem var alveg frábær líka)?


Skert fæðuöryggi?

Ég skil ekki þessa meintu frétt. Ég held að formaður Bændasamtakanna sé að hugsa um smjörið sem endist heima hjá honum eða eitthvað álíka gáfulegt. Enda segir hann til viðbótar við spádóm um níu daga birgðir: 

Ég held að við séum með skilgreinda lagertölu upp á níu daga eða kannski níu vikur ef við náum því. 

Eins og níu sé hans heilaga tala.

Ég held sem sagt að hann sé að lobbíast og honum er það heimilt, en hvað er fréttamaðurinn að hugsa?


Verkfall flugumferðarstjóra

Mér kemur millilandaflugið mikið við. Ég á eftir að fljúga heim í janúar, túristar á mínum vegum eiga eftir að fljúga til Íslands í desember og fjölskyldumeðlimir að fljúga til mín í næstu viku. Ég held að flugumferðarstjórar séu vel settir og ættu að taka því sama og aðrir hafa fengið.

En útspil Samtaka atvinnulífsins fær mig næstum til að skipta um skoðun á kjörum flugumferðarstjóra. Ef tjónið er þegar farið að hlaupa á milljörðum skiptir greinilega mjög miklu máli það sem þau gera í vinnunni.

Ferðaþjónustan hefur einstakt lag á að skjóta sig í fótinn. Ég veit að Samtök atvinnulífsins eru ekki Samtök ferðaþjónustunnar en hvor tveggja samtökin þjóna atvinnulífinu. Og ferðaþjónustan kveinar undan lélegri afkomu en þegar eitthvað gerist, eins og brú brotnar og er ekki hífð upp á næsta klukkutímanum, kveinar ferðaþjónustan undan tjóni upp á milljarða.

Það er ekki hægt að kvarta undan lélegri afkomu og sturluðu tjóni vegna afkomubrests í sama orðinu, það er bara ótrúverðugt.

Og nú er Sigríður Margrét Oddsdóttir langt komin með að sannfæra mig um að flugumferðarstjórar eigi betra skilið en þeim hefur verið boðið.


653 kr.

Enn er ég í sparðatíningnum. Ég kaupi oft smátt á göngu minni um borgina. Nú keypti ég brauð og banana fyrir 4,32 evrur og borgaði með Indóinu mínu. Mér var boðið að velja á milli heimagjaldmiðils og staðargjaldmiðils. Ég vel alltaf erlenda gjaldmiðilinn skv. ráðleggingum. Í þetta skipti tók ég eftir íslensku upphæðinni. Hún var 666 kr. en ég greiddi 653 kr. af því að ég valdi evrurnar.

Alltaf að velja evrur en ekki krónur.

Nú er ég líka orðin langeyg eftir að losna við krónuna, algjörlega óháð mögulegri inngöngu í Evrópusambandið.

Hvers konar meint sjálfstæðishugsun er það að halda í gjaldmiðil sem enginn tekur við utan landsteinanna?


381 króna

Ég keypti 150 gramma snakkpoka (spænskan) og fimm mandarínur á 381 kr. (2,52 evrur) í Carrefour í Málaga. Mér finnst þetta ekki vandræðalega ódýrt. Það er ódýrara en í Bónus en hér eru líka launin langtum lægri en heima.

Og ég borgaði fyrir einn mánuð 250.000 kr. í leigu fyrir litla stúdíóíbúð á besta stað í miðbænum. Hún er auðvitað fullbúin öllu (nema bakarofni, kaffiuppáhellingarvél og lesljósi við rúmið). Sjúklega ódýrt? Nei, mér finnst það ekki. Sem betur fer. Ekki má gleyma svölunum sem voru ástæðan fyrir valinu.


Fyrrverandi kennari

Ég hætti að kenna í grunnskóla 1996 og framhaldsskóla 2001, ekki af því að ég væri komin á aldur heldur vegna þess að mér fannst vinnuumhverfið óboðlegt. Börnin komu ólesin í skólann og álagið var þannig að ég átti aldrei almennilega frí um helgar eða páska. Ég átti frí um jólin vegna þess að þá voru annaskil en um páska sat ég uppi með ritgerðir sem ég varð að lesa þá.

Ég hlustaði á Jón Pétur Ziemsen í síðdegisútvarpinu í gær og hreifst með ákafanum og ástríðunni. Ég veit ekki hvað á að gera til að snúa þróuninni við - ef ég hefði vitað hvað væri til ráða hefði ég sennilega ekki flúið fyrir rúmum 20 árum - en ég held að ráðamenn ættu að hlusta á fólkið í skólunum. Svo þurfum við öll að róa í sömu átt og ekki vera í stöðugum umkenningaleik.


Heimska

Ég er að lesa bók sem heitir Heimska. Hún fær ekki sérlega góðar einkunnir, þar sem ég hef lesið, en ég er ánægð með hana. Ég les hana eins og smásögur, einn kafla á dag, og þar sem ég er í heitu og þurru landi skil ég hana eftir úti á svölum.

Þegar ég fór á fætur í morgun og leit upp á svalir (já, upp hringstigann) var bókin horfin. Ég hafði mávana grunaða eða vindinn en svo reyndist hún hafa lekið aftur fyrir stóran blómapott. En mér finnst ég svolítið heimsk að hafa gónt ofan í húsgrunninn við hliðina á byggingunni í von um að sjá Heimsku bregða þar fyrir.

Mig langar ekki að taka bókina aftur með mér heim en hef ekki rekist á bókasafn hér á Spáni sem myndi fagna henni. Mér finnst óþarfi að eiga margar bækur og allsendis óþarft að eiga aðrar bækur en þær sem höfða eindregið til manns. Og þótt mér finnist sagan af Áka og Lenítu allrar athygli verð er hún ekki eiguleg. Þau eru algjört samtímafólk sem gengst upp í athygli, gjarnan hvort frá öðru en líka frá samfélaginu. Þegar ég leitaði í ofboði að bókinni í morgun bjóst ég næstum við vökulu auga myndavélar að fylgjast með viðbrögðum mínum. En auðvitað var öllum sama, enda er okkur flestum sama um flest fólk.

Við erum föst heima í okkur sjálfum.


Spánn

Ég hef núna verið tæpan mánuð á Spáni. Því miður hef ég ekki lært spænsku á þessum tíma og því miður ekki kynnst Spánverjum. Ég hef bara verið í minni íslensku búbblu og með mitt internet.

En það sem ég hef tekið eftir er:

- hvað spænskt fólk klæðist litríkum fatnaði. Bæði hef ég séð fatnaðinn á fólki en ekki síður þvott á snúrum fyrir utan glugga fólks. Þetta á við um margar byggingar líka, enda engin tilviljum að Almadóvar er spænskur.

- fjöldi leikhúsa en ég hef ekki orðið vör við bíóhús.

- að alls staðar nema í strætó virðist hægt að borga með korti. Ég var þeirrar röngu trúar að í bakaríum, á mörkuðum og jafnvel veitingastöðum væri gerð krafa um peninga. Og það virðist ekkert sérstaklega gert ráð fyrir þjórfé. Og nú er evran komin í 154 krónur, var 148 krónur þegar ég fór út. Óttalega sveiflukenndur gjaldmiðill sem við búum við.

- ótrúlegur fjöldi hunda, bæði lausir og í taumi með gangandi, hlaupandi og hjólandi eigendum sínum, og jafnframt mjög margir og mjög ræðnir kettir sem hafa komið mjálmandi til mín eða mjálmað til mín úr gluggakistum.

- brekkur. Ég var í bæ sem heitir Cala del Moral og þar var hægt að hlaupa á ströndinni en um leið og maður beygði ögn til vinstri var komin svívirðileg brekka. Það virðist eiga við um Malaga líka og sannarlega sáum við brekkur, gil, brýr og göng þegar við keyrðum til Córdoba og Granada um daginn.

- við gátum varpað íslenska sjónvarpinu á spænska skjáinn af því að Orange-myndlykill var við sjónvarpið. Við horfðum því á fréttir og Kappsmál í beinni útsendingu! Og í gær hélt áfram mynd í sjónvarpinu sem var þó kirfilega merkt að væri aðeins hægt að horfa á á Íslandi.

- að í íbúðunum sem ég hef leigt hafa verið hringstigar milli hæða, þótt íbúðirnar séu ponsulitlar.  


Grindavík

Ég hef engar tengingar við Grindavík þannig að ég býð ekki upp á neinar brakandi útlistanir á ástandinu. Ég hef bara undrast að sjá hversu margt áberandi fólk er frá Grindavík, ég var ekki búin að átta mig á því hve margt íþrótta- og stjórnmálafólk er af svæðinu.

Annað sem ég furða mig á er að hafa ekki séð neins staðar áberandi umræðu um millilandaflug. Ég þekki fólk í ferðaþjónustunni sem hefur fengið afbókanir, einkum vegna stórra hópa, sem er alveg skiljanlegt þegar fólk situr í útlandinu og les endalaust um rýmingu bæjar í næsta nágrenni við alþjóðaflugvöllinn.

Sjálf veit ég um fólk sem hefur flogið burt af landinu eftir að hamfarirnar hófust þannig að ég þykist vita hið sanna í málinu, en það þarf að róa mannskapinn. Eða lokast landið fljótlega eins og Sigríður Hagalín spáði í skáldsögu sinni?


Indó

Ég skal svoleiðis segja ykkur það að ég hef samanburð á Indó-korti og öðrum bankakortum í útlöndum. Það eru engar ýkjur að gengisálag upp á 2,5% hjá hinum bönkunum er ekki hjá Indó, a.m.k. ekki enn sem komið er. Ég veit ekki hvort bankinn heldur þetta út til lengdar, minnug þess að Atlantsolía ætlaði að veita hinum bensínsölunum samkeppni en ég held að henni sé ekki lengur til að dreifa.

Nú prófuðum við að kaupa ís upp á 3 evrur. Hjá Indó kostaði hann 449 krónur en 460 hjá hinum bankanum. 11 krónur gera ekki gæfumuninn en þegar til lengdar lætur fer það að skipta máli - og gírugu bankarnir finna vonandi að þeir missa viðskiptavini. Kannski bæta þeir sig þá, en þá ætla ég samt að muna eftir að halda áfram viðskiptum við bankann sem veitti alvörusamkeppni.


Kvennaverkfallið

Klukkan er að verða eitt og ég sit í sófanum heima hjá mér, baða mig í D-vítamíni sem leggur inn um gluggann og er að fara að tygja mig á samstöðufund.

Ég er forréttindapési. Ég er í skemmtilegri vinnu sem ég menntaði mig til, á vinnustað sem hvetur til samstöðu og er á leið á samstöðufund sem er hugsaður til áréttingar á því að stórir hópar kvenna þiggja lægri laun fyrir sambærilegt starf og karlar vinna. Ég þekki sjálf engan einstakling sem vill að konur fái lægri laun en karlar fyrir jafn verðmæt störf.

En þetta er ekki eins einfalt og það hljómar. Störf við að varsla peninga eru einhverra hluta vegna metin hærra en að varsla fólk. Ég nota viljandi svona ómanneskjulegt orð, varsla. Einhver raðar fólki og stéttum á launaskalann og þótt konur hafi sums staðar hafist til metorða er eins og þær karlgerist í þeim stöðum og beiti sér ekki fyrir jöfnuði.

Ég ætla að mæta á fundinn vegna þess að þessi samstaða skiptir máli þótt ég hafi það persónulega mjög gott.

Svo eru ólaunuðu aukastörfin. Hver skipuleggur sumarfrí fjölskyldunnar? Jólagjafakaup? Skreytingar? Hver tekur til nestið? Þið þurfið ekki að horfa langt til að sjá að í obba tilvika sér konan um þessa aukavakt, ásamt því að líta til með fullorðnum foreldrum. Ég held að flest fólk, sem sagt konurnar líka, sé til í þessi aukastörf en vilji deila með hinum á heimilinu.

Áfram, jafnrétti!


Fækkum kóngum og drottningum

Vá, hvað mér líst vel á þessa tillögu um að sameina Seltjarnarnes, Reykjavík og Mosfellsbæ. Mér hefur löngum fundist smákónga (og -drottninga)blætið kjánalegt. Hvað gerir Mosfellsbæ frábrugðinn Breiðholtinu? Hann er aðeins fjær miðbæ Reykjavíkur. En Kjalarnes er enn fjær og það tilheyrir Reykjavík.

Sameining myndi auðvelda almenningssamgöngur, sorphirðu og alls kyns þjónustu. Og, já, auðvitað ætti svo að stíga næsta skref og sameina til suðurs líka og fá Kópavog, Garðbæ og Hafnarfjörð í sömu sæng.


Eru sykursýkislyf grennandi?

Ég var að heyra að fólk sem er ekki með sykursýki taki sykursýkislyf sem megrunarlyf. Ég er nú svo gömul sem á grönum má sjá en ég hafði ekki heyrt þetta fyrr en í gærkvöldi. Getur það verið satt? Það fylgdi sögunni að fólk með aukakíló sækti svo í þessi lyf að raunverulegir sjúklingar fái ekki lyfið.

Getur þú staðfest þetta?


Minnistap

Mögnuð leikin mynd um Alzheimer var í sjónvarpinu um helgina. Fimmtugur háskólakennari finnur að hún byrjar að gleyma og áður en hún segir nokkrum í fjölskyldunni frá pantar hún tíma hjá taugalækni og fær skoðun á heilanum. Þegar hún segir manninum sínum frá og svo uppkomnum börnunum er hún þegar farin að sjá framtíðina skýrt og sendir framtíðarsjálfi sínu skilaboð um að þegar hún muni ekki lengur nöfnin á börnunum sínum skuli hún sækja töflur á vissan stað í kommóðunni og gleypa þær allar með vænum skammti af vatni.

Læknirinn segir að sjúkdómurinn sé langt genginn vegna þess að hún hafi notað heilann svo ótæpilega, þannig hafi einkennin ekki komið fyrr í ljós en fyrir vikið sé minna hægt að meðhöndla.

Myndin var svo átakanleg og vel gerð að ég hágrét yfir henni sums staðar. Ég get bara ímyndað mér einhvern mér nákominn sem hættir einfaldlega að muna það sem var sagt rétt í þessu. Það reynir á þolinmæðina en samt vita allir að við þessu er ekkert að gera. Minnisglapamanneskjan er sannarlega ekki að leika sér að þessu.

Og ég get líka sett mig í spor manneskjunnar sem veit að hún tapar öllum minningum og mestallri færni og verður í raun kannski byrði á sínum allra nánustu.

Mögnuð mynd. Grátlegur veruleiki sem ég vona að sem fæstir upplifi en óttast að of margir upplifi.


Kostnaður við réttarfar

Í fréttayfirlitinu heyrðist rétt í þessu setningin: Dómstjóri segir kostnaðinn hlaupa á milljónum.

Þá er bara verið að tala um þinghaldið sjálft, það að koma upp dómsal í Gullhömrum. Þetta er fórnarkostnaðurinn við að vera með réttarríki þar sem sakborningar eru leiddir fyrir dómara, 25 í þessu tiltekna máli sem er auðvitað fáheyrður fjöldi.

Nú þætti mér gaman að vita hvort háværu raddirnar sem gagnrýndu hvalveiðimótmælendurna vegna kostnaðar við lögreglu sem fór þrisvar upp í mastrið til þeirra eru líka þeirrar skoðunar að fella eigi kostnaðinn við málið á sakborningana 25.

Launþegar borga skatta og þeim er varið í alls konar, þ.m.t. löggæslu og réttarfar. Við viljum sjálfsagt öll að peningunum sé vel varið en sumt kostar einfaldlega ef við viljum vera siðað ríki.


Tónlist í eyrum mínum

Megi sem flest lítil sveitarfélög sameinast! Það á ekki aðeins við um Stór-Keflavíkursvæðið heldur ekki síður Reykjavík og grennd. Ef ég ætti tvær óskir færi önnur í að sameina öll litlu ríkin í ríkinu undir einn góðan hatt. Samlegðaráhrifin yrðu ótvíræð. Minna fé og minni tími færi til spillis. Ákvarðanir yrðu skilvirkari. Allir græða nema nokkrir kóngar og drottningar (bæjarstjórar).

En auðvitað þyrfti að veita viðkomandi aðhald eins og alltaf þarf að veita valdhöfum. 


Bakgarðshlaupararnir

Ég er hlynnt RÚV og bæði hlusta og horfi á línulega dagskrá, en almáttugur hvað Vísir stendur sig MIKLU betur í upplýsingagjöf þegar um er að ræða atburði sem ég hef áhuga á að fylgjast með. Ég er búin að fylgjast með bakgarðshlaupurunum með öðru auganu síðan í gær. Vísir er með beina útsendingu í mynd og stöðugar textalýsingar sem auðvelda áhugasömum að glöggva sig á stöðunni. Svo er náttúrlega tímataka með tölulegar upplýsingar.

Það er íþrótt að hlaupa þótt enginn bolti sé fyrir framan fæturna en á íþróttasíðu RÚV er ekki að finna stakt orð um þennan viðburð og verður væntanlega ekki fyrr en einn hlaupari stendur uppi sem sigurvegari. Og nú eru bara tvær konur eftir í keppninni (og enginn karl). Ótrúlegt spennustig í gangi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband