Föstudagur, 29. febrúar 2008
Fátt um manninn - en góðmennt
Aðalfundur Félags leiðsögumanna var haldinn á Kaffi Reykjavík í kvöld, fimmtudagskvöld. Ég var svo heppin að vera bæði kosin fundarritari og síðan í ritstjórn. Ég veit nú þegar upp á hvaða handleggi ég ætla að snúa og hvað ég vil láta skrifa um. Að auki er ég búin að ákveða ýmislegt um framtíðarfjármálin. Þetta er allt önnur tilfinning en þegar ég var kosin formaður um árið ...
Um 40 manns mættu (á sjöunda hundrað eru í félaginu) þannig að það er alltaf bara lítill meirihluti sem ákveður fyrir hönd hins stóra meirihluta. Þetta er að hluta til vegna þess að sumir eru óvirkir eða lítt virkir, sumir áhugalitlir og sumir fjarri góðu gamni af því að þeir búa úti á landi, jafnvel erlendis.
Við gerðum nokkrar lagabreytingar, kusum í allar nefndir og öll ráð, þráttuðum dálítið og síðan sagði Skúli Möller okkur undan og ofan af kjaramálum. Loks varpaði Jón Lárusson skemmtilegri hugmynd út í loftið, ræræræ.
Mér finnst gaman að vera í Félagi leiðsögumanna. Mér finnst líka gaman að vera leiðsögumaður. Mér finnst hins vegar hundleiðinlegt að horfa á launaseðilinn. Þar á verður kannski fljótlega breyting.
Og leiðsögumenn drekka ekki kaffi með lokaðan munninn:
Ég mismælti mig í gær þegar ég sagðist ekki finna myndirnar mínar af álfunum, ég var bara ekki búin að taka þær ...
Fleiri álfamyndir síðar.
Athugasemdir
Ég gat ekki komið, er að vinna og verð að klára bíómynd í nótt. Jón Lár er fínn náungi og félagi í Iceland Guide... Hver var tillagan hans? Er ég í ritnefndinni líka? Stefán ámálgaði það um daginn.
Kom nokkuð fram á fundinum hvenær taxtar og kjör samkvæmt nýja samningnum verður tilbúið? Var kosið um hann?
Fyrirgefðu spurningaflóðið...
Lára Hanna Einarsdóttir, 29.2.2008 kl. 00:49
Andsk., ég vissi ekki að þú vildir vera í ritnefndinni. Ég held nefnilega að einhver Sveinn eða Fleinn eða Þreinn sem var kosinn, aftur, hafi verið í útlöndum í háa herrans tíð og sé varla einu sinni væntanlegur. Hann var ekki á fundinum og hafi ég vitað hvernig hann lítur út er ég búin að gleyma því.
Jón biðlaði til Kárahnjúkavirkjunar um að bjóða okkur sama díl og boðinn var 30. apríl 2006. Sigurður Arnalds tók honum vel. Ég veit ekki hvort það er á áhugasviði þínu. Ég hef aldrei komið á þessar slóðir, hvorki fyrir né eftir, og hef áhuga.
Skúli bara reifaði síðasta fund og viðbrögð viðsemjenda við 18.000 kr. hækkun á strípaða taxta. Viðsemjendur sögðu að ef það gengi til Okkar yrðum við að slaka á í einhverju öðru. Skúli og kó gerðu hlé á fundi til að fara út að kæla sig, óðir af bræði. Vonandi hefur það aðeins snert við atvinnurekendum. Það er annað hvort að koma til móts við okkur eða fólk með þekkingu og reynslu týnir enn frekar tölunni. Það er enn óljóst hvenær samningar nást. Kjaranefndin ætlar að funda með Darra hjá ASÍ fyrir næsta fund með SA sem er í lok næstu viku.
VIÐ SÆTTUM OKKUR EKKI VIÐ ÞETTA LENGUR.
Berglind Steinsdóttir, 29.2.2008 kl. 01:21
Ég bað ekki um að fara í ritnefndina. Stefán Helgi hringdi í mig og spurði hvort ég væri til í það. Ég var mjög treg því ég hef ekki tíma, en sagði að hann mætti nota nafnið mitt ef hann fengi engan annan en ekki ætlast til að ég gerði neitt. Ég stakk upp á þér og þú hefur augljóslega slegið til. Það er bara hið besta mál og ég er fegin að sleppa. Hef yfrið nóg að gera í öðru.
Ég veit ekki með Kárahnjúka, hef horn í þeirra síðu og er ekki viss um að ég hafi gott af því að sjá þetta með eigin augum.
Það er semsagt ekki búið að semja fyrir hönd leiðsögumanna - eða eru það bara sérkröfurnar sem eru eftir, kannski?
Nei, við sættum okkur ekki við þessi lúsarlaun lengur, það er af og frá!
Lára Hanna Einarsdóttir, 29.2.2008 kl. 01:28
Úps, ég vissi ekki af þessu. Hefði mætt ef ég hefði vitað að þetta stæði til.
Steingerður Steinarsdóttir, 29.2.2008 kl. 11:30
Ábending til ógiftra kvenna: Í dag er hlaupársdagur. Þá mega konur biðja sér manns. Það besta er að maðurinn má ekki neita, en getur keypt sig frá bónorðinu. Kannski með gulli og demöntum eða bara hverju sem er...
Ég hvet allar ógiftar konur til að notfæra sér þetta einstaka tækifæri!
Lára Hanna Einarsdóttir, 29.2.2008 kl. 13:36
Lára Hanna, þetta er óráð, þú hefur greinilega ekki sofið nóg yfir dvd-þýðingunum! (Finnst þér þetta dálítið álfslegt kannski ...? Ég þekki þessa trú mætavel, finnst hún engu að síður bera vott um hitamók og svefnleysi.)
Berglind Steinsdóttir, 29.2.2008 kl. 17:26
Steingerður mín, ég lofa að hnippa í þig í tíma næst.
Svo fæ ég ykkur báðar til að skrifa í blaðið - því að það gera ritnefndir, ræræræ.
Berglind Steinsdóttir, 29.2.2008 kl. 17:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.