Sunnudagur, 2. mars 2008
Hvað er samkeppni?
Það er gaman að sitja í heita pottinum og spjalla við (hálf)ókunnugt fólk. Í gær spjallaði ég við starfsmann Kaupþings sem er áreiðanlega mætur starfsmaður og dugandi. Þetta hugsa ég ekki sem háð. Hins vegar mislíkaði mér hvernig hann kallaði allt sem ég sagði um bankana - of mikinn vaxtamun, há þjónustugjöld, ofurlaun stjórnenda - lap upp úr öðrum, sagði að ég væri að lepja upp það sem áður hefði ranglega komið fram annars staðar.
Í mínum viðskiptabanka er algengur vaxtamunur á inn- og útlánsvöxtum debetkorta um 5 prósentustig, inn 12,8% og út 18,7%. Er það ekki vaxtamunur? Og er hann ekki hærri en gengur og gerist meðal hinna frægu þjóða-sem-við-berum-okkur-gjarnan-saman-við?
Hann sagði að í Bretlandi þyrfti að borga fyrir að stofna reikning og borga fyrir að loka reikningi. Það er áreiðanlega rétt. Ég man líka eftir því sama þegar ég átti lítinn varasjóð í Þýskalandi þegar ég var þar au-pair. Ég lagði inn 300 mörk til að vera ekki á flæðiskeri stödd ef kastaðist í kekki við au-pair-fjölskylduna. Tæpu ári síðar þegar ég fór heim voru mörkin 300 orðin að 295, einmitt út af þóknun og engum innlánsvöxtum. Það voru bara heldur ekki neinir útlánsvextir að ráði.
Þegar ég gerði tilboð í íbúð fyrir tveimur árum og ætlaði að yfirtaka hagstæða lánið upp á 4,15% hjá KB eins og hann hét þá var mér gert að fara í viðskipti til hans. Ég varð að gera tvennt af þrennu: stofna launareikning, fá mér greiðslukort og/eða fá mér viðbótarlífeyrissparnað. Ella myndu vextirnir af láninu hækka við yfirtökuna, upp í 6,15% minnir mig. Þetta kalla ég að kúga fólk í viðskipti til sín. Ég féll frá tilboðinu en hefði annars tekið lán hjá Íbúðalánasjóði.
Vinkona mín ein er með stórt lán hjá Kaupþingi og ef hún vill flytja sig úr þessari mafíu sem hún kallar svo þarf hún að borga hátt uppgreiðslugjald. Hún kallar að hún sé núna átthagabundin. Ég held að þetta fyrirkomulag sé reyndar víðar.
Við töluðum líka um myntkörfulán, greiðslur í evrum, Andrés Magnússon lækni sem var í Silfrinu á sunnudaginn var - og Gettu betur. Ég legg hvorki á mig né að ... lepja upp allt sem okkur fór á milli. Hins vegar hvíslaði maður í eyrað á mér þegar hann fór upp úr pottinum að ég skyldi spyrja viðmælanda minn hvort íslenskir bankar tækju nokkuð lán hjá Seðlabanka Íslands. Þá vorum við að tala um stýrivexti og verðtygginguna.
En nú er ég komin að fyrirsögninni: Hvað er samkeppni? Ég skil nefnilega samkeppni svo að fyrirtæki keppi um að gera betur og laða fólk þannig í viðskipti til sín. Umræddur pottverji virtist mér leggja samkeppni út sem auglýsingar, eða öllu heldur viðurkenndi hann að samkeppni bankanna kæmi helst þar fram, þeir eyddu gífurlegu púðri (og væntanlega peningum) í auglýsingar - í samkeppni um viðskiptavini.
Þetta varð mér svo einkar hugleikið þegar ég las viðskiptafrétt um að Glitnir hefði verið valinn markaðsfyrirtæki ársins 2007. Ég held nefnilega að sterkasta innlegg Glitnis í samkeppni um viðskiptavini hafi verið útspil Þorsteins Más Baldvinssonar þegar hann byrjaði stjórnarformennsku sína á að leggja til verulega launalækkun til sjálfs sín og annarra hálaunamanna hjá fyrirtækinu. Til hans verður horft á næstu mánuðum frekar en hvort menn fái áletraða möppu, skál fulla af eplum eða grillspaða í eftirsókn eftir viðskiptum við þá.
Athugasemdir
Innlánsvextir í danmörku eru 1% af debetkorti og 13% vextir af yfirdrætti og 21% ef maður er ekki með heimild.
Þegar S24 byrjaði var yfirdráttur á 13% og innlánsvextir á 6%, þá var vaxtastigið bara annað. Um að gera að spara núna og láta peninganna vinna fyrir sig, en eru stýrivaxtahækkanir seðlabanka til þess gerðar.
Annars er alltaf verið að tala um vaxtamun milli landa.
Gott hjá þér að vera hjá s24.is, ég er þar líka :-D eina vitið. Svo er ég með lífeyrissjóðslán ;-) ef manni er illa við banka þá fer maður eitthvað annað.
Johnny Bravo, 24.3.2008 kl. 10:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.